28.11.1951
Sameinað þing: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (3157)

80. mál, tunnuverksmiðja ríkisins

Jóhann Hafstein:

Það er eitt atriði í sambandi við þetta mál, sem ekki hefur komið fram í áliti n. né í umr., en mér finnst ástæða til að vekja athygli á á þessu stigi málsins. Mönnum er tamt að tala um tunnuframleiðslu hér á landi sem eins konar atvinnubótavinnu. A. m. k. var það á þeim tímum, þegar lítið var um vinnu á viðkomandi stöðum, sérstaklega á Siglufirði og Akureyri. Út af fyrir sig er gott að fá atvinnubætur. En það má ekki einblína um of á þetta, og segi ég það sérstaklega í sambandi við það, sem fram kom í ræðu hv. þm. Siglf., að gera nú ráðstafanir til að kaupa tunnuefni langt fram í tímann, og einnig í sambandi við rök hv. þm. Ak., að það þyrfti að byggja hús og kaupa nýjar vélar til að auka tunnuframleiðsluna. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að það eru þegar á ferðinni allt aðrar gerðir af tunnuframleiðslu en við höfum búið við. Og þeir aðilar, sem um þessi mál hafa fjallað, verða að hafa opin augu fyrir því, að við séum ekki að festa um of fjármagn í þessum hlutum, á sama tíma sem þær þjóðir, sem við keppum við, eru að taka upp allt aðrar og nýrri aðferðir í þessari framleiðslu. Mér er kunnugt, að Norðmenn eru að gera tilraunir með allt aðrar gerðir á síldartunnum en við og þeir höfum notað. Mig brestur þekkingu til að dæma um þessa nýbreytni, en vonir standa til, að tunnurnar verði í senn miklu ódýrari og hagkvæmari. Ég veit, að þetta hefur verið athugað af aðilum hér á landi og haft eitthvert samráð við síldarútvegsnefnd. Þess vegna vildi ég láta þetta koma fram á þessu stigi málsins. Tel ég æskilegt, að málið fái frekari athugun í n., eins og stungið hefur verið upp á. Það er enginn gróði að festa mikið fé í vélum eða efniskaupum langt fram í tímann, sem e. t. v. er orðið þegar langt á eftir tímanum. Ég segi ekki þessi viðvörunarorð til þess að mæla á móti till. hv. þm. Ak. eins og hún er umorðuð frá n., því að það hefur engin reynsla fengizt á þessa nýju gerð tunna í Noregi. Og sjálfsagt er ekki hægt að stíga lengra skref af okkar hálfu en það að nota næsta sumar til að fá reynslu á þessar nýju tunnur. Og þess vegna þarf að sjálfsögðu að sjá fyrir öllu því tunnumagni, sem við þurfum á að halda næsta sumar. En við þurfum sem sagt að hafa opin augu fyrir þessu, þegar talað er um að gera efniskaup langt fram í tímann og leggja einnig mikið fé í að endurbyggja tunnuverksmiðju með meiri vélakosti en við höfum haft hingað til.