12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (3159)

80. mál, tunnuverksmiðja ríkisins

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja örfá orð út af orðum hv. 5. þm. Reykv. Þessi hv. þm. hafði það út á mína till. að setja, að ég vildi gera ráðstafanir til að kaupa tunnuefni langt fram í framtíðina. Ég vildi, að ráðstafanir yrðu gerðar a. m. k. til þess að kaupa efni í 200 þús. tunnur. Það er mesti misskilningur, að með þessu sé verið að kaupa efni langt fram í tímann, því að við notum árlega 200 þús. tunnur og stundum meira. Hins vegar ef á að fara að útvega tunnuefni fram í tímann, þá verður að byrja fyrr á því en haustið, sem þarf að byrja að smíða tunnurnar. Það þarf að gera það áður eða um svipað leyti og verið er að höggva efnið í skógunum. Það er þess vegna, sem flutt er þessi till. um að afla efnis í tunnur á þeim tíma, sem það er nauðsynlegt og hægt er að fá efnið. En nú er ekki farið að afla efnisins fyrr en komið er í ótíma og ekki er hægt að fá efni nema í 40 þús. tunnur. Það er ekki hugsað fyrir þessu fyrr en á vorin, þegar allar stórar tunnuverksmiðjur eru búnar að sjá sér fyrir efni. Ef við ætlum að vera í efniskaupum, þá verðum við að gera kaupin þannig, að okkar pantanir liggi fyrir á þeim tíma, sem skógarhöggið fer fram. Það er eins og hver önnur fjarstæða hjá hv. 5. þm. Reykv., að tunnusmíðin sé orðin úrelt. Hann kunni ekki að gera grein fyrir þessu, en hélt því bara fram, að tunnusmíðin væri orðin úrelt. Það mátti helzt skilja af orðum hans, að í staðinn fyrir venjulegar tunnur væru komnar einhvers konar atómtunnur. Ef þetta er ekki eintómt fleipur, og ræða hans gaf ekki tilefni til að álíta annað, þá á hann sennilega við vél, sem notuð er til þess að smíða tunnustafi. Það eru skiptar skoðanir um það, hvað þessar vélar séu heppilegar. Þetta er nýjung, og eru tunnustafirnir t. d. alveg sniðnir, svo að það þarf ekki að hefla þá, ekki annað en raða þeim saman. Slíkar tunnuverksmiðjur eru nauðsynlegar, en þær eru ekki útbreiddar, svo að enn þá er ekki hægt að segja, hvernig þær reynast. En þetta breytir því ekki, að við þurfum að hafa hér tunnuverksmiðjur og vélar, svo að við getum flutt efnið inn minna sagað og sagað það hér í okkar eigin verksmiðjum. Þetta er því engin veruleg breyting, og vélar í tunnuverksmiðju eru ekki dýrar. Vélarnar í tunnuverksmiðjunni á Siglufirði eru nokkuð góðar eða mjög sæmilegar. En hins vegar þarf að endurnýja vélarnar í verksmiðjunni á Akureyri, til þess að þær verði góðar, en það er ekki sem nemur neinu kapítali. Það er ekki á nokkurn hátt hægt að finna rök, sem mæla með því, að þessar verksmiðjur séu ekki sæmilegar og nokkuð öruggar. Þetta eru bara fjarstæður hjá hv. 5. þm. Reykv. Till. gengur út á það, að við stöndum ekki eins næsta haust og okkur vanti efni, og býst ég þá við, að hv. þm. Ak. hafi áhuga fyrir því, að þessar tunnuverksmiðjur verði settar í gang. Þó að búið sé að fá efni í 40 þús. tunnur, tel ég sjálfsagt, að gerðar verði ráðstafanir til að fá efni í fleiri tunnur, ef annars er talin ástæða til að vera að smíða hér tunnur. En þar sem nú er verið að smíða tunnur hér, tel ég hóflegt að afla efnis í 200 þús. tunnur. Jafnvel á síldarleysisárum hefur verið eytt fleiri tunnum á Siglufirði. Ef svo færi, að notkun á tunnum yrði óvenjulega lítil, þá má alltaf taka tillit til þess þegar pöntun er gerð næsta ár, en það er eðlilegt, að nægar tunnubirgðir séu til í landinu. Ég legg því eindregið til, að hafizt verði handa í tíma um útvegun tunnuefnis, svo að ekki þurfi að stranda á því, þegar á efninu þarf að halda.