12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (3161)

80. mál, tunnuverksmiðja ríkisins

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég óskaði eftir því, að umr. yrði frestað, þar til allshn. hefði athugað brtt. frá hv. þm. Siglf. og hv. 4. landsk. á þskj. 293 og 298. N. hefur þegar rætt þessar brtt. lítillega á fundi. Hins vegar tók n. enga ákveðna afstöðu til þessa máls, og eru nm. því óbundnir varðandi afstöðu til þess. Mér þótti rétt að taka það fram, að n. hefur rætt málið.

Ég vil taka það fram, að mér virðist sjálfsagt og rétt það, sem felst í brtt. þm. Siglf., að tryggja nægilegt hráefni, svo að ekki þurfi til þess að koma, að ekki sé hægt að starfrækja verksmiðjurnar vegna skorts á hráefni, og auk þess er nauðsynlegt að tryggja nægilegan húsakost undir vélar til framleiðslunnar. Mér virðist samt, að þessi till. sé nokkuð vafasöm.

Hv. þm. Siglf. vék að því, að hv. 5. þm. Reykv. hefði við síðustu umr. getið um nýjar hugmyndir um tunnusmíði. Hann gat þess, að í Noregi væru byrjaðar tilraunir með nýja gerð af tunnum. Mér er ekki kunnugt um þetta, en ef svo er, þá virðist mér vafasamt að ráðast í að tryggja efni í mikið af tunnum, áður en þetta mál er athugað. Það getur vel verið, að þarna sé um að ræða tunnur, sem verða ódýrari, og er þá sjálfsagt að athuga það. Það er varasamt fyrir ríkisstj. að leggja út í að kaupa efni í mikið magn af tunnum, því að eins og hv. þm. Siglf. gat um áðan, er misjafnlega mikið notað af tunnum hérna. Auk þess er þetta fjárhagsatriði, og þarf sérstakt framlag til að gera þetta. Ég legg ekki á móti því, að till. verði samþ., en mér virðist þó heppilegra að orða hana eins og segir í brtt. allshn., „að lagt verði nú þegar allt kapp á að fá nægilegt efni til þessarar framleiðslu.“

Um brtt. hv. 4. landsk. vil ég segja, að mér finnst tilgangslítið að fela ríkisstj. að ganga í þetta, nema varið sé fé til þess. Það er eðlilegt, að tekin sé á fjárl. fjárveiting til þessara framkvæmda. Annars verður enginn árangur af þessari till. fyrr en ríkisstj. fær fé til þessa. Þess vegna finnst mér þetta hafa litla þýðingu annað en sem viljayfirlýsing, nema þetta sé tekið upp sem sérstök fjárveiting á fjárlögum.