16.01.1952
Sameinað þing: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (3191)

52. mál, rannsókn virkjunarskilyrða á Vestfjörðum

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fjórir hv. þm. Vestfirðinga bera fram á þskj. 75 till. til þál. um rannsókn virkjunarskilyrða á Vestfjörðum. Allshn. hefur fengið till. til athugunar og skilar nál. á þskj. 599. N. leggur til, að till. verði samþ. óbreytt að efni til, en með smáorðalagsbreytingu, sem gerð er grein fyrir í nál. og ég þarf ekki að útskýra frekar. N. er öll sammála um að mæla með till. í því formi.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta mál. Till. fylgir ýtarleg grg., og öllum er ljóst, hve þýðingarmikið er að koma þessum málum í viðunandi horf svo fljótt sem unnt er, þar sem þessi landshluti hefur áður orðið útundan í þessum efnum. Það mun hafa farið fram rannsókn á þessu áður, en nú er ætlunin, að lokarannsókn fari fram, sem hægt sé að byggja á ákveðnar till. um framkvæmdir.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en vænti þess, að till. verði samþ. með þeirri breyt., sem n. leggur til.