14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (3202)

51. mál, mótvirðissjóður

Flm. (Pétur Ottesen):

Ég var fjarverandi, þegar umræður um þessa till. hófust hér fyrir nokkru síðan. Ég varð að fara frá þennan dag, heim til mín, vegna sérstakra ástæðna og beiddi því meðflm. minn, hv. 1. þm. Árn., að reifa till., sem ég veit að hann hefur gert og látið þau sjónarmið koma fram, sem fyrir okkur vaka með flutningi þessarar till.

Ég hlýddi hér á síðari hluta ræðu hv. þm. Barð., sem ég skildi sem svar við ræðu hv. 1. þm. Árn., og skal ég ekki blanda mér í það mál eða þau svör, sem hann gefur hér við vissum atriðum úr ræðu þess hv. þm. En ég finn fullkomlega ástæðu til að fara inn á nokkur atriði í ræðu hv. þm. Barð., af því að þar gætir annars sjónarmiðs en vakti fyrir mér og hv. 1. þm. Árn. með flutningi þessarar till.

Við lítum svo á, að þær breytingar, sem orðið hafa hér síðustu áratugina, að sífellt hefur fólki fækkað í sveitum þessa lands, en aftur öll fjölgunin og meira en viðkomufjölgunin fallið á kaupstaði og kauptún, séu mjög varhugaverðar. Við lítum á þetta, ekki aðeins sem öfuga þróun, heldur blátt áfram hættulega þróun. Aðalástæðan fyrir, að þetta er svo, liggur í því, að tækniframkvæmdir í sjávarútveginum urðu allmikið á undan tækniframkvæmdum í landbúnaðinum, þannig að sjávarútvegurinn hefur verið arðbærari atvinnuvegur en landbúnaðurinn um alllangt skeið. En sá hængur er á, að þessar tæknilegu framkvæmdir í sjávarútveginum hvað veiðar snertir fela í sér rányrkju, þó að Íslendingar séu ekki stór aðili í þeirri herferð, þegar miðað er við þá rányrkju, sem hér er framin af hinum stóra erlenda veiðiflota. Hér eru þá að sjálfsögðu undanskildar þær tæknilegu framkvæmdir, er orðið hafa á því sviði að verka og bæta framleiðsluvörur okkar og gera þær útgengilegri á erlendum markaði. Reynslan hefur sýnt, síðan þessi rányrkja var hafin, að hún hefur í för með sér allmikla hættu fyrir afkomumöguleika Íslendinga, verði ekki rönd við reist og Íslendingum tileinkað einum við strendur landsins allmiklu stærra veiðisvæði en hefur verið. Við vitum, að þessum málum er þannig varið, að þótt við ákveðum okkur sjálfir vald með lögum til að gera ráðstafanir á þessu sviði, er mjög um það deilt, hvað hver þjóð getur gert án samþykkis annarra þjóða, og skýrasta dæmið um það eru málaferlin milli Noregs og Englands. En það er meginundirstaða undir afkomu þjóðarinnar, þar eð mikill hluti hennar nú býr í kaupstöðum og kauptúnum, að sjávarútvegurinn geti verið arðvænleg atvinnugrein.

Hv. þm. Barð. lýsti réttilega þeim miklu framkvæmdum, sem hefðu orðið hér á landi í verkun fisksins, en til þess að þær komi að notum, verður hafið að vera gjöfult. — Hinar tæknilegu framfarir, sem orðið hafa í landbúnaðinum, hafa enn ekki reynzt nægilegar til þess að skapa jafnvægi í þjóðfélaginu. Samkvæmt manntalsskýrslum frá 1949 búa um 30% þjóðarinnar í sveitum, en 70% í kaupstöðum og kauptúnum með yfir 300 íbúa. Þessar tæknilegu framfarir, sem orðið hafa í landbúnaðinum, fela vissulega í sér mjög bjartar vonir fyrir íslenzku þjóðina, en það er torsótt og erfitt verk að nýta náttúrugæði sveitanna þannig, að fólkinu fjölgi þar aftur. Með fólksfjölgun á ég ekki eingöngu við hina eðlilegu fólksfjölgun, heldur það, að fólkið, sem nú býr í kaupstöðum og kauptúnum, flytjist aftur út í sveitirnar og taki þar að starfa við landbúnað. Þetta er erfitt vegna þess, hversu ræktun þessa lands er skammt á veg komin. Mikill hluti flatlendisins er svo votlendur, að það þarf að þurrka hann, til þess að þar vaxi kjarnagróður og ræktunin verði varanleg. En íslenzkur gróður, sem nýtur góðra skilyrða, er einhver sá bezti, sem finnst á byggðu bóli hnattarins. En til þess að svo geti orðið þarf að þurrka landið og slétta það, svo að hægt sé að nota hagkvæmar vinnuaðferðir. Enn fremur er mikið af valllendinu þýfðir móar, og þarf einnig að slétta þá, því að hagnýting landsins er við það bundin. Þetta er allt saman mikið verk og kostnaðarsamt, og það tekur langan tíma að búa svo í haginn, að hér sé hægt að nýta þá tækni, sem þegar er fyrir í landinu. En við flm. þessarar till. lítum svo á, að hér sé um svo stórt og þýðingarmikið atriði að ræða, sem sé það að fá þá breytingu á, að fleiri menn hefji starf við landbúnaðinn en nú er, og með því að auka náttúrugæði sveitanna skapast miklu lífvænlegri horfur fyrir þjóðfélagið í heild en nú er.

Nú vitum við það, að vegna þeirrar rányrkju, sem á sér stað á fiskimiðunum við strendur landsins, þá er að skapast erfiðleikaástand í sjávarútvegsmálum okkar. Það er rétt, sem hv. þm. Barð. sagði, að Íslendingar eiga tiltölulega lítinn þátt í þessari rányrkju, og þeir áttu ekki annars kost en afla sér nýtízku skipa, eins og t. d. togaranna, til þess að keppa við útlendinga, sem annars hefðu setið svo til einir á helztu fiskimiðum hér við land. Ég verð því að segja það, að í þessari þáltill. okkar felist framsýni, sem nauðsynlegt sé að festa augu á og hefja nú sókn í þá átt að nýta náttúrugæði sveitanna betur en nú er gert og vinna að því, að fólksstraumnum verði beint til sveitanna, því að reynsla síðari ára sýnir fullkomlega, að þær hafa upp á lífvænleg lífsskilyrði að bjóða, þegar vel er í haginn búið.

Nú er það svo um mótvirðissjóð, að hér er um að ræða allmikið fé, sem íslenzku þjóðinni hefur fallið í skaut. Þetta fé er, eins og hv. þm. Barð. benti hér á áðan, enn bundið að mestu í ráðstöfunum, sem ríkið stendur fyrir, það er að segja Sogs- og Laxárvirkjununum og áburðarverksmiðjunni. Þetta fé er bundið þar til ákveðins tíma. Okkur flm. var þetta ljóst. Því orðuðum við þáltill. okkar eins og segir í niðurlagi hennar, eða þannig, með leyfi hæstv. forseta: „.... verði varið til lánastarfsemi í þágu landbúnaðarins, þegar það er tiltækt til slíkrar ráðstöfunar“. Okkur var það alveg ljóst, að það var ekki hægt að ráðstafa þessu fé í þessu augnamiði nú um sinn, nema þá að litlu leyti, þar sem það er að mestu bundið til 20 ára, en að þeim tíma liðnum á þetta fé allt að vera fyrir hendi og tiltækilegt til þeirra ráðstafana, og raunar fyrr, eftir því sem það endurgreiðist. Ég tek þetta fram vegna þess, að hv. þm. Barð. var að tala um, að búið væri að ráðstafa þessu fé, en okkar till. er einmitt við það miðuð, eins og ég gat um áðan.

Nú hefur því gleðilega fyrirbæri skotið upp á síðari árum, að það er í hugum Íslendinga að verða allmikil breyting í þá átt, að menn vilja aftur snúa til landbúnaðarstarfa. Það hefur nú á síðari árum verið meiri eftirspurn eftir jarðnæði en áður. Þetta hefur einnig komið fram í sambandi við nýbýlaframkvæmdir. Við hv. 1. þm. Árn. lítum svo á, að þetta sé svo þýðingarmikið fyrirbæri í íslenzku þjóðlífi, að við viljum gefa því byr undir báða vængi og flytjum því þessa þáltill. til þess að tryggja það, að eigi minna en helmingur mótvirðissjóðs verði notaður til lánastarfsemi fyrir landbúnaðinn. Ákvörðun í þessa átt mundi ýta mjög undir þessa hugarfarsbreytingu og veita henni mikinn styrk. Við hv. 1. þm. Árn. miðum þessa þáltill. okkar einmitt við þetta, auk þess sem við lítum svo á, að vegna viðhorfanna í atvinnulífi þjóðarinnar nú sé ekki hægt að gera ráðstafanir, sem raunhæfari muni reynast en að efla og auka ræktun landsins. Þetta er skoðun okkar flm. Það má að sjálfsögðu gagnrýna hana og benda á annað, sem fyrr beri að gera, eins og hv. þm. Barð. gerði áðan, og við flm. þessarar þáltill. vonum, að geti rætzt sem fyrst. En við megum ekki loka augunum fyrir því, að hagnýting tækninnar í sjávarútvegsmálum miðar að eyðileggingu, en tæknin á sviði landbúnaðarins að auknum gróðri og öruggari lífsafkomu. Á þessu er mikill munur. Það er rétt, sem hv. þm. Barð. sagði, að íslenzkur landbúnaður ætti mikið undir því komið, að blómlegur sjávarútvegur dafnaði hér. En því miður hefur það komið á daginn, að sjávarútvegurinn er engan veginn tryggur, heldur skortir þar mikið á. Við skulum vona, að okkur takist að koma þar vörnum við, en um áraskeið hefur hann verið ótryggur fyrir alla, sem byggja afkomu sína á honum beint eða óbeint. Það er mikilvægt fyrir landbúnaðinn, að við sjávarsíðuna sé fyrir hendi sú kaupgeta, að menn geti keypt framleiðsluvörur sveitanna. En vissulega ber að því að keppa, að landbúnaðurinn framleiði einnig vörur til útflutnings, eins og hann hefur raunar alltaf gert, en vonir standa til, að sá útflutningur eigi mikla vaxtarmöguleika.

Ég hef eingöngu tekið til máls hér nú vegna þess, að umr. hafa spunnizt um þessa þáltill. okkar hv. 1. þm. Árn., þó að ég viti, að þetta er meira og minna endurtekning á því, sem meðflm. minn hefur sagt hér áður. — Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta mál nú, en vildi aðeins láta koma fram af minni hálfu þær ástæður, sem liggja til grundvallar þessari þáltill., og hvers vegna við erum svo snemma á ferðinni með ákvarðanir í þessa átt.