14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (3210)

51. mál, mótvirðissjóður

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Ég ætla mér ekki að ræða nein þau rök, sem fram komu af hálfu hv. flm. En út af ummælum, sem komu fram um þýðingu till., vildi ég segja fáein orð.

Eins og hv. Alþ. er kunnugt, er mótvirðissjóði ráðstafað þannig, að það þurfa að vera tveir aðilar, sem um það fjalla. Það þarf að fá samþykki Marshallstofnunarinnar til þess að ráðstafa fé úr sjóðnum. Ef samningar hafa tekizt um ráðstöfun fjárins, þarf að setja um það lög. Þessi ályktun, sem hér er gerð, mundi leiða til þess að mínum dómi, — og ég mundi krefjast þess, — að ríkisstj. leitaði eftir samkomulagi við Marshallstofnunina um að ráðstafa fé á þennan hátt, þar sem fyrir lægi ákveðin viljayfirlýsing þingsins, þar sem þessa er óskað, og síðan verði sett lög í samræmi við það. En ef þessi till. verður samþ. og samningur gerður við Marshallstofnunina, en síðan hlaupið frá framkvæmdinni, yrði það aðeins til að koma á leiðinlegum vinnubrögðum. Því lít ég þannig á, að fyrst sé að leita samninga við stofnunina og síðan leggi ríkisstj. fram lagafrv. í samræmi við þá. En ef svo, þegar staðfesta ætti þetta með l., þá kæmu menn og segðu: Þetta var alls ekki ætlun okkar, við neitum að samþ. l. í samræmi við þál., — þá væru þeir samningar, sem ríkisstj. gerði við Marshallstofnunina, þar með að engu gerðir. — Taldi ég rétt að láta þetta koma fram og þar með, að samningar þeir, sem gerðir eru við Marshallstofnunina, eru bindandi.