14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (3213)

51. mál, mótvirðissjóður

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Það er í tilefni af ræðu hæstv. ráðh., að ég kveð mér hljóðs. Ég sé ekki betur af því, sem hæstv. ráðh. sagði, en að það sé ætlun hans, að málið sé endanlega afgr. með þessari þáltill. hér á Alþ. með einni umr., eins og hæstv. forseti hefur ákveðið. Mér finnst það líka eðlilegt, ef eindregin viljayfirlýsing kemur um þetta frá Alþ.,hæstv. ríkisstj. leiti þá samninga og samkomulags um þetta fyrir vorið. Og að því samkomulagi fengnu virðist mér augljóst, að eiginlega sé ekki annað eftir en að fá þetta endanlega staðfest á Alþ. og þá jafnvel ekkert eðlilegra fyrir ríkisstj. en að gefa út brbl. og vísa til samþykktar og vilja Alþ. í því sambandi. — Nú þarf ekki orðum að eyða um það, hvað fáránlega afgreiðslu þetta mál á að fá. Við erum að burðast með sex umr. um veigalítil mál, en þetta mál á að afgr. hér á þingi með einni umr. Mig furðar á því, að þessir hv. þm. skuli bera fram þessa till. á þskj. 51, um ráðstöfun fjár úr mótvirðissjóði; sérstaklega með tilliti til þess, að þegar um svona stórar upphæðir er að ræða, er það nauðsynlegt, að allt málið sé vandlega athugað og gerhugsað.

Það er alveg rétt, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni, að svo er til ætlazt, að langmestur hluti af mótvirðissjóði fari til lánastarfsemi og skilist þannig aftur. Að þessu leyti er ég sammála því, sem síðasti ræðumaður sagði, en ég álít, að það fé eigi að renna í sérstakan sjóð. Það liggur í augum uppi, að féð kemur að mestum notum með því að veita því þangað, sem nauðsynin er mest, og veiti þannig sem mestan stuðning með því. Það er því skylda hæstv. ríkisstj. að taka þetta mál til athugunar og leggja svo fyrir Alþ., hverjum reglum eigi að hlíta um meðferð þessa fjár, en að ráðstafa með samþykkt einnar þáltill. eitt til tvö hundruð millj. kr., tel ég hreina fjarstæðu.

Ég get nú látið þetta nægja. En ég vil ekki með þessu úr því draga, að þörf landbúnaðarins sé rík fyrir starfsfé og að fé, sem þannig er varið, skili sér aftur, en því er ekki að leyna, að fé, sem þannig er notað, verður lengur bundið í þeim framkvæmdum en ýmsum öðrum, sem fyrr skila fénu, og kemur þannig ekki að eins miklum notum. Einmitt þetta verður allt að meta og vega fyrst.

Ég get ekki greitt atkv. með þáltill. þessari, ekki einu sinni að hún fari til nefndar. Ég vildi, að málinu yrði frestað, þar til það hefur verið athugað betur.