23.11.1951
Neðri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

17. mál, varnarsamningur

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson) [frh.]:

Herra forseti. Ég hafði rakið í gær í ræðu minni gang alþjóðamála og sérstaklega pólitíska þróun þeirra landa, er í Atlantshafsbandalaginu eru, og árásir þeirra á smáþjóðir um dagana. Enn fremur hafði ég rakið það, að tvær síðustu styrjaldir voru stórkostlegt gróðabrall, þar sem auðhringar Bandaríkjanna og Bretlands stóðu á bak við. Ég hafði og minnzt nokkuð á það, að á meðan auðhringar Vesturveldanna græddu 50 milljarða dollara í síðasta stríði, þá á sama tíma missti sú þjóð, er Atlantshafsbandalaginu er stefnt gegn, Sovétríkin, 7 milljónir manna. 1600 stærri borgir og bæir voru eyðilögð, og gífurlegum efnahagslegum verðmætum var tortímt. Vildi ég enn fremur minnast á það út af ræðu 8. landsk., að í síðustu styrjöld var greinilegt, að milli auðvalds Bretlands og Vesturveldanna var samsæri, og gekk það út á það, að Þýzkaland réðist á Sovétríkin. Auðhringar Vesturveldanna höfðu lánað Þýzkalandi fé til þess að byggja upp nýtt hernaðarlega sterkt Þýzkaland, sem átti að vera vel útbúið hernaðarlega til árása í austurveg. Það voru einvörðungu skakkir útreikningar, sem ollu því, að Hitler þótti betra að byrja styrjöldina með því að ráðast vestur á bóginn, og það þarf ekki nema að líta á gang styrjaldarinnar til þess að sjá, hve flærð Vesturveldanna var gífurleg. Það þarf ekki nema minna á það, að þegar Þýzkaland réðst á Pólland, þá hreyfðu Vesturveldin hvorki legg né lið til hjálpar. Allt frá því í september 1939 þangað til í maí 1940 var varla hleypt af skoti á vesturvígstöðvunum. Meiningin var, að Hitler skyldi halda austur á bóginn, og ekkert átti að trufla þá fyrirætlun. Og ef við lesum gerðabækur enska og franska hersins frá stríðinu, þá munum við sjá, að Frakkland hafði útbúið her í Sýrlandi 1939–40, er átti að vera til taks til að ráðast inn í Kákasus. Á sama tíma fjölluðu ráðagerðir franska og enska hersins um undirbúning árásar inn í Finnland. Allan þennan vetur var gert ráð fyrir því af auðvaldi Vesturveldanna, að með því mundi takast að afstýra skakkaföllum af hinum skakka útreikningi þeirra. Þannig var það, að um leið og átök fóru fram á yfirborðinu milli auðvalds Þýzkalands og Vesturveldanna, var reynt að búa í haginn fyrir samsæri gegn Sovétríkjunum samsvarandi og 1920–21.

Ég tók eftir því, að 8. landsk. talaði mjög hjartnæmt sem eðlilegt er um árásina á Noreg og komst svo að orði, að of seint væri að hjálpa smáþjóðunum eftir að búið væri að ráðast inn í lönd þeirra. Við höfum víst flest litið þannig á, að árás Hitlers á Noreg væri ein af hinum svívirðilegu árásum hans á smærri þjóðir og hörmulegt, að Vesturveldin hefðu ekki komið Noregi til hjálpar og losað hann við böl styrjaldarinnar. Hv. 8. landsk. virtist líta þannir á sem brezka ríkisstjórnin hefði verið alveg saklaus á þessum tíma og ekki getað til þess hugsað að leiða aðra eins ógæfu yfir Noreg sem innrás mundi hafa í för með sér. Þótt nú sé liðinn meira en áratugur frá þessum atburðum. er okkur enn í fersku minni árás Hitlers á Noreg og þær miklu þjáningar, sem norska þjóðin varð að ganga í gegnum. En hins vegar er enska ríkisstjórnin farin að sleppa í frásögnum sínum öllu því lýðskrumi og áróðri, sem allt var yfirfullt af á stríðsárunum, og birta dagbækur sínar. Churchill er einnig farinn að skrifa endurminningar sínar. Þá bregður manni ónotalega í brún. Nú er sagt hiklaust í dagbókum brezku ríkisstjórnarinnar frá fundi brezka hermálaráðuneytisins. Þar er skýlaust frá því sagt í þeim kafla, er fjallar um árásina á Noreg, að brezka stjórnin hafi undirbúið innrás í Noreg, en orðið aðeins á eftir Hitler. Lidell Hart, sem er nafnfrægasti hermálasérfræðingur Breta íhaldssinnaður, hefur skrifað um hermál í Daily Telegraph og The Times, einnig var hann ritstjóri hermála við Eneyklonaedia Britannica, hefur nýlega skrifað grein, þar sem hann rekur á grundvelli upplýsinga Churchills og gerðabóka hermálaráðuneytisins, að Bretar hafi undirbúið innrás í Noreg, en orðið aðeins of seinir. Hann segir m.a. frá því, er Churchill fékk að vita um stríðið milli Fínna og Rússa. Jafnframt því kom Churchill auga á nýja aðstöðu til að koma Þýzkalandi í opna skjöldu undir því yfirskini, að verið væri að koma Finnum til hjálpar. Í frásögn sinni af þessum atburði ritar hann hiklaust: „Ég fagnaði þessum nýja hagstæða byr sem tækifæri til þess að vinna þá herstöðulegu yfirburði að geta skorið á aðdráttarleið járngrýtisins til Þýzkalands, en það var því lífsnauðsynlegt.“ Eins og vitað er, er skammt frá Narvík yfir til járnnámanna í Svíþjóð. — Síðan heldur Lidell Hart áfram: „Í grg. frá 16. september rekur hann allar röksemdir sínar með því, að slíkt skref yrði stigið, og hann nefnir „hernaðaraðgerð, hina mikilvægustu frá herstöðulegu sjónarmiði“. Hann viðurkenndi, að hún yrði sennilega þess valdandi, að Þjóðverjar réðust á Norðurlöndin, og sagði: „Ef skotið er á óvininn, þá skýtur hann á móti.“ Einnig sagði hann: „Við vinnum meira en við töpum við þýzka innrás í Noreg og Svíþjóð“:“ Hins vegar minntist hann ekki á, hvaða hlutskipti biði þjóða Norðurlanda, ef lönd þeirra yrðu gerð að vigvelli. — Svo segir hann áfram: „Meiri hluti ráðuneytisins skirrðist þó enn við að skerða hlutleysi Noregs. Þrátt fyrir sannfærandi fortölur Churchills var hikað við. að hefjast tafarlaust handa um framkvæmd áætlana hans. Herforingjaráðinu var samt sem áður gefin heimild til þess „að leggja á ráðin um landgöngu í Narvík með allmiklu liði“.“ Enn fremur segir Lidell Hart frá því, að þann 15. janúar sendi yfirhershöfðingi Frakka, Gamelin, orðsendingu til Daladiers forsætisráðherra varðandi gildi þess að koma á fót nýjum stríðsvettvangi á Norðurlöndum. Auk þess lagði hann fram áætlun um landgöngu herliðs bandamanna í Petsamo í Norður-Finnlandi og að þeim varúðarráðstöfunum að „hernema skyndilega og að óvörum hafnir og flugvelli á vesturströnd Noregs“. Áætlunin gerði einnig ráð fyrir hugsanlegri útbreiðslu hernaðaraðgerðanna til Svíþjóðar og hernámi járnnámanna við Gällivare. Þannig hélt undirbúningurinn áfram, en njósnarar Þjóðverja komust að þessu. Þetta var í janúar. Þessu næst heldur Lidell Hart áfram: „Hvað gerðist í raun réttri bandamanna megin? Daladier krafðist 21. febrúar, að Altmarkatburðirnir yrðu notaðir sem átylla þess „að hernema þegar í stað“ norskar hafnir með „skyndilegum hernaðaraðgerðum“. Daladier fullyrti: „Réttlæting þess í augum heimsins verður því léttari, því fyrr sem í þessar aðgerðir er ráðizt og því meir sem áróður vor getur fært sér í nyt minninguna um meðsekt Noregs í Altmarkatburðunum:“ Síðan segir Lidell Hart orðrétt: „Á fundi í stríðsráðuneytinu 8. marz bar Churchill fram þá till. að senda stórar flotadeildir á vettvang úti fyrir Narvík og setja liðsveitirnar á land samkvæmt því sjónarmiði, að „sýna ætti mátt sinn, svo að ekki yrði neyðzt til að beita honum“. Á nýjum fundi 12. marz afréð ráðuneytið að taka upp aftur áætlunina að landgöngu í Niðarósi, Stavangri og Bergen auk Narvíkur. Herliðið, sem gengi á land í Narvík, skyldi sækja hratt upp í land og fara yfir sænsku landamærin og hernema námurnar í Gällivare. Allt var til reiðu 20. marz að hefjast handa um framkvæmd áætlananna.“ Síðan segir Lidell Hart frá uppgjöfinni 13. marz, er frambærilegustu átyllu innrásarinnar var kippt undan fótum bandamanna. Reynaud hélt til Lundúna á fund æðsta stríðsráðsins 28. marz, staðráðinn að fá því framgengt, að ráðizt yrði tafarlaust í framkvæmd áætlananna að landgöngu í Noregi, eins og Churchill hafði krafizt jafnlengi og raun ber vitni. Fortalna var ekki lengur þörf. Eins og Churchill segir frá „hvatti Chamberlain nú eindregið til þess, að gripið yrði til djarflegra aðgerða“. Við setningu fundar ráðsins mælti hann ekki einvörðungu með því að hefjast handa í Noregi, heldur studdi enn fremur þá áætlun, er Churchill hafði manna mest dálæti á, að varpa látlaust úr flugvélum tundurduflum á Rín og aðrar þýzkar ár. Og um leið og Hitler ræðst á Noreg 9. apríl, skellur stríðið á yfir norsku þjóðina. Þá segir Hankey lávarður: „Allt frá því að fyrstu drögin voru gerð að áætlun þessari og þar til Þjóðverjar réðust inn í Noreg, varð löngum ekki milli séð, hvorum gengi betur í undirbúningi sínum, Bretlandi eða Þýzkalandi. Bretland hóf að vísu undirbúning herferðar sinnar litlu fyrr .... Lokið var við bráðabirgðaáætlanirnar nær jafnsnemma, þó að Bretland legði sólarhring fyrr upp í árás sína, ef svo má að orði kveða um nokkurn aðilanna.“ Ég minnist á þetta vegna þess, að þetta leiðir í ljós, að brezka ríkisstjórnin álítur ekki lengur þörf að dylja, hvað gerðist í síðustu styrjöld. Það, sem þá hafði svo mikið áróðursgildi, hefur nú tapað gildi sínu fyrir raunsæi sögunnar. Ég býst við, að frásagnir Churchills og birting dagbóka brezku ríkisstjórnarinnar komi eins og köld vatnsgusa yfir fjölda þeirra manna, sem lifðu og önduðu að sér því áróðurskennda andrúmslofti, sem Bretar sköpuðu á stríðsárunum. Við skulum gera okkur ljóst, að það er ekki svo gífurlegur munur á eðli Vesturveldanna og fasismans. Þar sem brezku og frönsku ríkisstjórnirnar eru, þar eru harðvítugustu afturhalds- og auðvaldsklíkur, sem taka ekki neitt tillit til þeirra smáþjóða, sem þær þykjast vera að vernda. Þær harma í einlægni að hafa orðið seinni til en Hitler að skapa sér þær vígstöðvar, sem þær álitu sér hentugar, en taka ekkert tillit til þeirra hörmunga, sem þær mundu hafa leitt yfir norsku þjóðina. Ég tek þetta fram vegna þess, að 8. landsk. minntist á Noreg sem dæmi þess, er okkur bæri að varast. Okkur öllum eru hugstæð örlög norsku þjóðarinnar. En hvað er það, sem er að gerast hér? Innrás Bandaríkjanna er þegar framkvæmd og því búið að gera sömu ráðstafanir og þeir ætluðu sér að gera við Noreg 1940, er þeir urðu aðeins of seinir. Víð verðum enn fremur að gera okkur ljóst, að barátta auðvalds Vestur-Evrópu var ekki barátta fyrir lýðræði, þó að fjöldi manna lifði í þeirri trú.

Ef til vill má ég minna á, að daginn, sem Hitler réðst á Sovétríkin, 22. júní 1941, eða daginn eftir, þá birtist skeyti í amerískum blöðum, sem einn af þingmönnum, sem þá voru, hafði sent sem svar við fyrirspurn, sem blöðin sendu út til nokkurra þingmanna um það, hvaða afstöðu Bandaríkin ættu að taka til stríðsins milli Rússa og Þjóðverja. Truman sagði, að ef Þjóðverjar ætluðu að vinna, þá ættu Bandaríkin að vera með Rússum, en ef Rússar ætluðu að vinna, þá ættu Bandaríkin að vera með Þjóðverjum. Þessi Truman varð seinna forseti Bandaríkjanna, og sú pólitík, sem hann rak, var ráðandi pólitík í brezka stríðsmálaráðuneytinu, hún var að láta þessum tveimur ríkjum, sem þarna áttust við, blæða út. Vitanlega var það hlutur, sem ekki mátti segja, og einn af ráðherrum Churchills varð að fara úr ráðuneytinu þess vegna.

En Bretar eru duglegir í því að segja einn hlut fagurlega og komast vel að orði og framkvæma svo allt annað. Moose Barabazon sagði það, sem Churchill bjó í hug, að bezt væri að láta þeim blæða út, Rússum og Þjóðverjum. Sú afstaða Breta birtist bezt eftir að Churchill hafði breytt þvert á móti því, sem hann sagði, með því að hindra innrás Bandamanna og svíkja sum þau loforð, sem hann í raun og veru hafði gefið, þannig að innrásin var ekki framkvæmd fyrr en Vesturveldin voru farin að ætla, að það kynni að fara svo, að það yrði rauði herinn, sem ynni allt Þýzkaland. Þegar þess vegna er verið að bera lofsorð á Atlantshafsbandalagið eins og hv. 8. landsk. var að gera, þá má okkur vera ljóst, að með því bandalagi er aðeins verið að halda fram þeirri hugmynd — baráttunni gegn kommúnismanum, eins og hann orðaði það, baráttunni gegn Sovétríkjunum og öðrum ríkjum — sem hefur vakað fyrir auðvaldi Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna frá því að byltingin var í Rússlandi, og þessi hugmynd hafði oft verið látin skýrt í ljós áður en byrjað var að framkvæma Atlantshafsbandalagið. Árið 1932 segir t.d. þáverandi hermálaráðherra Noregs í bók, sem hann gaf út:

„Norrænt samband milli Skandinavíu og StóraBretlands, ásamt Frakklandi og Hollandi, sem Þýzkaland og ef til vill brezku hálflendurnar og Bandaríkin síðar gengju í, mundi hrjóta odd af oflæti hvaða bolsévistisks sambands sem væri .... Einnig tolla- og atvinnukjör knýja Norðurlönd og einkum Noreg til að leita betra sambands við brezka ríkið. Hin líka afstaða Englands og Norðurlanda til Evrópu og til byltingarinnar og sameiginleg hætta þeirra og hagsmunir skapa heilbrigðan grundvöll að nánar í samvinnu. — Festing Evrópu, grundvölluð á samkomulagi milli Frakklands og Þýzkalands, er nauðsynlegt skilyrði fyrir samfylkingu Evrópu gegn Rússlandi .... Með því að losa Þýzkaland úr samvinnunni við bolsévíkana og draga það inn í norrænt bandalag milli Norðurlanda og Englands mundi þetta mikla norræna samband verða nógu sterkt til þess að fella bolsévismann án stríðs, aðeins með verzlunareinangrun, og síðan gæti það, ásamt Ameríku og öðrum löndum Evrópu, rétt endurreisn Rússlands hjálparhönd sína.“

Ráðh., sem setti þessa hugmynd fram næstum því eins og það væri Evrópuráðið eða Atlantshafsbandalagið nú á tímum, nefndist Kvislíng, og þessi fagra hugsjón hans er það, sem Hitler byrjaði að reyna að framkvæma þegar hann kom til valda í Þýzkalandi, og nákvæmlega þessi hugmynd er það, sem liggur til grundvallar fyrir Atlantshafsbandalaginu. Það er mjög verðugur faðir að hugmyndinni um Atlantshafsbandalag, Kvislíng. Meira að segja endurreisnar Vestur-Evrópu, sem nú er talað um og við fáum að þreifa á í atvinnuleysinu, hennar átti þá rússneska þjóðin að verða aðnjótandi. Maður gat hugsað sér, að um það leyti sem Standard Oil fengi olíulindirnar við Bakú, þá mundi Vestur-Evrópa færast í rétt horf. Ef til vill er það einn hlutur úr Vestur-Evrópu, sem fram fer hér á Íslandi nú, þegar tök Standard Oil eru að verða slík, að voldugustu fjármálastofnanir landsins — og jafnvel pólitískir flokkar berjast fyrir hugsjónum, sem þeir hafa ekki barizt fyrir fram að þessu, og jafnvel samvinnusamtökin eru gerð að lepp fyrir voldugasta auðhring heimsins. Það er ef til vill ekki óskiljanlegt, að saman skuli fara þessi gífurlegi áróður fyrir Atlantshafsbandalaginu og vaxandi ítök Bandaríkjanna á Íslandi og þessi fjármálalegu völd, sem amerískir auðhringar nú eru að fá á þeim samtökum, sem Íslendingar hafa verið að skapa sér til baráttu gegn einokunarhringum veraldarinnar. Atlantshafsbandalagið er sú útgáfa af bandalagi auðvaldsins gegn alþýðu heimsins, sem samsvarar algerlega Bandalaginn helga frá 1815, sem var bandalag aðals Evrópu, en á móti því reis borgaralegt þjóðfélag Evrópu þá. Og við skulum ekki láta neina blekkingu eða yfirskin, sem auðmannastéttunum alltaf þykir henta að hafa á sínum aðgerðum, villa okkur sýn, þegar við erum að dæma um þetta fyrirkomulag. Ef einhver væri efins í, hvað Bandaríkin ætlast fyrir um árás á Sovétríkin og hertöku þeirra, þá ætti hann að lesa tímarit, sem ameríski Morganhringurinn nýlega hefur gefið út í gífurlegu upplagi í Bandaríkjunum. Í einu hefti tímaritsins er lýst þessari miklu styrjöld Bandaríkjanna víð Sovét-Rússland fram að 1960, og þar er lýst heilum fjármálastofnunum, sem Ameríka setur upp til að stjórna auðlindum, sem Sovétþjóðirnar ráða nú yfir. Þetta minnir okkur á hlutafélögin, sem Göring var þarna að setja upp, eftir að Hitler var búinn að leggja undir sig Úkraínu. Bandaríkin hlakka til þess, hvernig takist að nýta þessar auðlindir, sem alþýðan 1 þeim löndum nú ræður yfir.

Hv. 8. landsk. var að lýsa því fyrir okkur, hvað geysilega dýrmætt það væri að hafa bandalag víð stórveldi. Hann ætti að spyrja íbúana á Haiti, Kúbu, Hawaiieyjum og Filippseyjum, hvernig þeim líður nú sem nýlendum Bandaríkjanna. Við skulum gera okkur ljóst, að vísu út frá því, sem hv. 8. landsk. sagði, að smáríki eins og Holland og Beneluxlöndin munu út af fyrir sig síður en svo hafa löngun til árása á Sovétríkin, en þar með er ekki sagt, að þau geti ekki haft löngun til árása. Það eru ekki liðin nema tvö ár síðan Sameinuðu þjóðirnar urðu að fordæma Holland sem árásarþjóð fyrir tilefnislausa árás á Indónesíu, smáríki, sem öðlazt hafði sitt sjálfstæði. Það er vafalaust rétt, að Holland hefur enga löngun til að ráðast á Sovétríkin, en ef Holland hefur aðstöðu til að ráðast á land, sem er verr búið en það, land, sem hefur verið undirokað í nokkurn tíma, þá sýndi það sig fyrir tveimur árum, að það hikar ekki við að gera slíka árás, og Sameinuðu þjóðirnar urðu að dæma það árásarþjóð. Þess vegna er varla mikið gerandi úr því, að þessar þjóðir muni ekki hefja árásarstríð. Menn vita líka, hvað Belgía hefur gert viðvíkjandi Kongó, sem hefur lifað á því ásamt öðrum þjóðum vegna þess, hvernig þær hafa arðrænt og blóðsogið þjóðir, sem eru valdaminni en þær. Við skulum gera okkur ljóst, að Atlantshafsbandalagið er bandalag nýlendukúgara, og það, sem Holland, Belgía, Frakkland og England gera með því bandalagi við Bandaríkin, er að gangast undir vald Bandaríkjanna til þess að fá aðstoð hins volduga ameríska stórveldis til þess að geta haldið nýlenduþjóðunum í Afríku og Asíu áfram undir sínum yfirráðum. Þegar Belgíumenn nú hafa látið ameríska auðvaldið heimta vald yfir öllum úraníumnámunum í Kongó og verða sjálfir að kaupa úraníum til háskólans í Brüssel frá Bandaríkjunum, þá getur maður skilið, hvað það er, sem á bak við býr. Þessar þjóðir Vestur-Evrópu eru hræddar um, að þær geti ekki haldið nýlenduþjóðunum í Afríku áfram undir sinni kúgun einar. Þess vegna sjá Bandaríkin um, að þær fái aðstoð þeirra til þess að halda völdunum yfir þessum nýlendum áfram, gegn því, að bandaríska auðvaldið fái ljónspartinn af bráðinni. Þess vegna eru það amerískir auðhringar, sem eiga nú úraníumnámurnar í Indónesiu. Þess vegna eru það auðhringar Bandaríkjanna, sem leggja undir sig sig hverjar olíunámurnar á fætur öðrum í Asíu og Afríku. Þessi ríki VesturEvrópu sjá sinn einasta möguleika í því að halda bráðinni, sem þau hafa blóðsogið síðustu aldir, með því að gefa ameríska auðvaldinn ljónspartinn af bráðinni, sem þau hafa rænt. Þetta er Atlantshafsbandalagið, bandalag gegn nýlenduþjóðum heims og verkalýðshreyfingunni, og Bandaríkin hins vegar líta þannig á: „Nú höfum við möguleika til þess að verða voldugt nýlenduríki. Við náum tökum á þeim nýlendum, sem Vestur-Evrópuríkin áttu, og við gerum Vestur-Evrópu að okkar nýlendu.“ Það er það, sem framkvæmt er gagnvart okkur Íslendingum. Ef einhverjir eru að kveina og kvarta undan atvinnuleysi, kauphækkun og lánsfjárkreppu, þá vita þeir, ef þeir horfast í augu við staðreyndirnar, að þetta eru allt aðferðir, sem ameríska auðvaldið fyrirskipar íslenzku ríkisstj. að gera í gegnum framkvæmdir samkvæmt Marshallsamningnum. Lánsfjárkreppunni var komið á samkvæmt fyrirskipun, sem gefin var í vor, um leið og ameríska ríkisstj. rétti 100 milljónir til íslenzku ríkisstj., og þetta var framkvæmt samkvæmt fyrirskipun ráðh. Sjálfstfl. til bankanna. Það er þessi nýlendupólitík, sem nú er að lækka lífskjörin í allri Vestur-Evrópu, á Íslandi og annars staðar, það er þessi nýlendupólitík, sem vaxandi hluti af fólkinu í þessum löndum er að rísa upp á móti, það er þessi nýlendupólitík, sem framkallaði uppreisn Bevans. Við skulum gera okkur ljóst, að Bandaríkin eru nú búin að hagnýta sér smæð og varnarleysi Íslands til að ráðast á það og gleypa það, og við skulum gera okkur ljóst, að Atlantshafsbandalagið stendur, eins og raunar hv. 8. landsk. þm. sagði, í beinu sambandi við Marshallsamninginn, þannig að þetta hvort tveggja er þáttur í nýlendupólitík ameríska auðvaldsins. Hv. 8. landsk. komst svo að orði, að það að segja„ að Atlantshafssamtökin væru samtök árásarríkja, væri firra og bjánaskapur. Svona langt í fullyrðingum getur þekkingarleysið á alþjóðamálum leitt einn hv. þm., þegar hann er hættur að athuga nokkuð af því, sem gerist, öðruvísi heldur en svo haldinn af sínum hleypidómum, að engar staðreyndir í veraldarsögunni og nútímanum kringum okkur megna að hafa áhrif á hann. Þegar þau ríki gera samtök, sem sek eru um flestar árásir, sem framdar hafa verið síðustu öld, þá lýsir hann því sem firru og sem bjánaskap, að það geti komið til mála, að þessi ríki, — og hafa þó sum þeirra verið fordæmd fyrir árás síðustu ár, — fremji nokkra árás, og á grundvellí þessarar fullyrðingar á svo íslenzka þjóðin að hætta lífi sínu og tilveru. Samtímis þessu segir svo þessi hv. þm., að frá Sovétríkjunum stafi öll sú hætta, sem nú sé á árásum, m.a. á Ísland. Nú ætla ég aðeins að segja eitt í sambandi við þessa fullyrðingu, og það er, að ef þessi hv. þm. vildi nokkuð fyrir því hafa að kynna sér, hvað er að gerast í Sovétríkjunum, þá býst ég við, að hann mundi viðurkenna, að hversu mikill efnahagslegur kraftur sem væri í þeim ríkjum, þá mundi vera vísindalega óhugsandi fyrir þau að framkvæma í senn þá gífurlegu hervæðingu, sem hann talar um, og þá stórfelldu uppbyggingu, sem alþýða þessara landa nú er að leggja í. Ég skal aðelns nefna honum í því sambandi þær áætlanir, sem nú þegar er byrjað að framkvæma, búið að festa gífurlegt fjármagn, vinnuafl og vélar í og eiga að breyta, ekki aðeins lífskjörum fólksins í því landi, heldur líka sjálfu landslaginu í þessum löndum og í sjálfu sér grundvelli fyrir lifnaðarháttum fólksins. Þegar tekið er til að stífla á mörgum stöðum árnar Don og Volgu til þess að skapa á fleiri en einum stað raforkuver, sem hvert um síg er stærra en raforkuver Standard Oil í Bandaríkjunum. Þegar ekki er látið við það sitja, heldur verið að breyta eyðimörk, sem um mörg hundruð ár er búin að vera eyðimörk, inni í miðri Asíu í héruð, sem eiga að verða einhver gróðursælustu héruð jarðarinnar. Þegar verið er að leggja í plön, sem kemur til með að taka 10–12 ár að framkvæma, plön, þar sem m.a. er gert ráð fyrir og þegar byrjað á fyrirtæki, þar sem ár eru stíflaðar og verið að ryðja þeim nýjan farveg og veita þeim yfir áveituland sem er 10 sinnum stærra en Ísland, og búa til haf inni í miðri Síberíu, sem er stærra en hálft Kaspíhafið og gerir borgir þar (lrkutsk og Omsk) að hafnarborgum. Þegar verið er að leggja gífurlegt fjármagn í það að gerbreyta þannig lifnaðarmöguleikum fólksins og þá fyrst og fremst lagt fjármagn í það, sem ekki ber arð fyrr en eftir 10–12 ár. Með þessu móti er ekki aðeins búið að margfalda raforkuframleiðslu Sovétríkjanna, heldur yrði aðeins á þessu eina áveitusvæði hægt að framleiða nægan mat handa 200 milljónum manna. M.ö.o., það er verið að undirbúa og gera ráðstafanir, sem mundu algerlega útiloka allt, sem heitir matvælaskortur, hungrið, úr stórum hluta jarðarinnar.

Ég vil nú spyrja þá menn, sem einhverja grein gera sér fyrir því, hvaða aflraun það er að nýskapa þannig, ekki aðeins atvinnulífið, heldur líka löndin, náttúruna sjálfa, hvort þeim dettur í hug, að það sé hægt að vinna þessa hluti um leið og þorra alls vinnuafls og vélaafls væri varið til hernaðarundirbúnings einvörðungu. Ég vil spyrja: Ef Frakkland og England væru að stífla Miðjarðarhafið við Gíbraltar í samvinnu við Tyrkland til þess að skapa stærsta raforkuver veraldar, sem verkfræðingar oft hafa lýst, að þar væri hægt að búa til, og veita vatninu á Saharaeyðimörkina til þess að gera hana að mesta og blómlegasta héraði jarðar, — ég vil þá spyrja, hvort nokkrum manni detti í hug að segja, að þeir hljóti að vera að setja allt sitt fé í herbúnað. Og ég vil spyrja: Ef Bandaríkin verðu ekki eins miklu fé til atómsprengna eins og þyrfti að áliti amerískra lækna til þess að útrýma öllum sjúkdómum af jörðinni, heldur væru í dag að gera ráðstafanir til þess að hjálpa m.a. Suður-Ameríku með gífurlegum framkvæmdum þar til þess að útrýma hungrinu úr því landi, sem er auðugasta land jarðarinnar, dytti þá nokkrum manni í hug að segja, að þau væru fyrst og fremst að búa sig undir stríð? Nei, það er ekki spursmál um það, að þjóðir eins og Sovétþjóðin, sem er sjálf að setja meginið af öllu sínu vinnuafli og fjármunum í það að umskapa sitt eigið land til þess að gera það betra til að búa í, þær eru ekki að búa sig undir árásarstríð. Það er annað, sem þar er að gerast, og það kom líka fram hjá hv. 8. landsk. þm. Ameríska auðvaldið og auðvald Vestur-Evrópu ber eitt ótta í brjósti, og hv. 8. landsk. kom að spursmálinu um það mál. Hann sagði, að hættan, sem hann teldi á ófriði, stafaði frá hinum alþjóðlega kommúnisma. M.ö.o., það eru ekki Sovétríkin, sem verið er að berjast á móti, það er það, sem hann kallar hinn alþjóðlega kommúnisma. Hitler kallaði það marxisma, Kvislíng kallaði það bolsévisma. Það er sósíalisminn í heiminum. Það er hin sósialístiska verkalýðshreyfing og friðarbarátta í heiminum. M.ö.o., Atlantshafsbandalagið og þessar kúgunarráðstafanir, sem nú er verið að gera á Íslandi, þær beinast gegn almennri hreyfingu hjá mannkyninu, hreyfingu sósíalismans. Þetta er rétt hjá hv. 8. landsk. þm. Atlantshafsbandalaginu er beint gegn alþjóðahreyfingu, sem hefur náð að breiðast út í hverju landi og kemur fram m.a. í samvinnuhreyfingunni hér á Íslandi. Verkalýðshreyfingin, sem er þjóðleg hreyfing í hverju landi, er einn þáttur í þessari alþjóðahreyfingu. Þetta gerir auðvaldið í heiminum sér ljóst. Það er vonlaust verk að ætla sér að berja svona hreyfingu vinnandi stétta niður og uppræta hana með styrjöldum eða ofsóknum, þó að Bandaríkin skipuleggi morð og verji stórfé til þess, svo sem morðið á foringja belgiska kommúnistaflokksins og tilraunir til að myrða Togliatti, og af sama toga er spunnið hannið á sósíalistaflokkum. Um þetta eru til svo og svo mör g dæmi, sem öll hafa sýnt sig að vera jafntilgangslaus og fyrir Hitler og jafnbrjálæðiskennd og hjá Neró, þegar hann ætlaði að uppræta kristnina með ofsóknum gegn kristnum mönnum. Það væri bezt fyrir auðvaldið í heiminum að gera sér þetta ljóst. Það væri stórkostlega mikið fengið með því, að auðvaldið léti vera að undirbúa styrjöld. Þá mundi t.d. sósíalisminn ryðja sér friðsamlega til rúms í þeim löndum, sem hann hefur enn ekki sigrað í. En skelli hins vegar á styrjöld, er verið að skapa borgarastríð í flestum löndum álfunnar og leggja hörmungar yfir mannkynið. Við munum, hver þróunin varð við byltinguna í Evrópu, þegar borgararnir í Frakklandi sigruðu aðalinn. Það er ekki vafi á. að ef auðvaldið léti vera að stofna til nýrrar heimsstyrjaldar, mundu nýlendurnar knýja fram sjálfstæði sitt á friðsamlegan hátt. Eins og menn vita, þá gerir Atlantshafsbandalagið ráð fyrir því, að ef alþýðan í löndum bandalagsins tekur völdin í sínar hendur á friðsamlegan hátt — og það álíta Bandaríkin kommúnistíska valdatöku — skerist Atlantshafsbandalagið í leikinn. Atlantshafsbandalagið er þannig ætlað til að berja niður friðsamlega valdatöku alþýðunnar í löndum bandalagsins. Þetta er samsæri auðvaldsins gegn alþýðunni í þessum löndum. Ég hef tekið eftir því, að samt er það fullyrt og oft endurtekið, að Atlantshafsbandalagið berjist gegn hinum alþjóðlega kommúnisma.

Það er farið að koma í ljós hér hjá okkur nú, að því er virðist, að vissir menn reyni að koma sér í mjúkinn hjá Bandaríkjunum með því að bera af sér öll mök við kommúnista og saka aðra flokka um slík mök. Jafnvel gengur svo langt, að samstarfsflokkarnir eru farnir að saka hvor annan um slík mök. M.ö.o., þegar ameríska auðvaldið reynir að skipuleggja herferð gegn sósíalistum, grípur það til slíkra aðferða sem óameríska nefndin er og skoðanakúgunar, sem nú ríkir í Bandaríkjunum. Nú er þessi sama ameríska pest farin að grípa um sig í íslenzkum stjórnmálum. Það líður varla sá dagur, að við sjáum ekki í blöðum borgaraflokkanna, að þeir beri hvor öðrum á brýn samneyti við kommúnista. Þessi skriðdýrsháttur gagnvart Bandaríkjunum fer langt fram úr hófi. Í Tímanum má sjá, að Framsfl. ber formann Sjálfstfl. þungum sökum fyrir mök við kommúnista. Jafnvel gengur þetta svo langt, að hæstv. utanrrh. er borið það á brýn, að hann veiti Rússum sérréttindi í íslenzkri landhelgi. Ég verð að segja, að mér finnst Framsókn vera farin að ganga leiðinlega langt í þessum efnum. Ég hef orðið var við, að það, sem Danir kalla „Angiveri“, — ég þekki ekki orð yfir það á íslenzku, — sé farið að ryðja sér til rúms hér í kjölfar hernáms Bandaríkjanna. Það sýnir. að þessir flokkar keppa um náð Bandaríkjanna, benda hvor á annan og segja: Þessi þarna er eitthvað smitaður af kommúnistum, það þýðir ekki að treysta honum, en ég er engilhreinn af kommúnisma. — Framsókn fer líklega bráðum að biðja fyrirgefningar á því, að helmingur þingflokksins greiddi atkv. á móti Keflavíkursamningnum og allur þingflokkurinn heimtaði þjóðaratkvgr. um samninginn. Ég er hræddur um, að íhaldið, ef það hefur sama húmor og kemur fram í Tímanum, fari bráðum að benda Framsókn á það, að hún verði að fara að þurrka út það litla, sem snertir baráttu gegn Bandaríkjunum, ef hún ætlar að vera hrein í augum auðhringa Bandarfkjanna. Hins vegar vil ég brýna fyrir mönnum, hvert hefur verið stefnt og hve djúpt þessir flokkar eru sokknir. Það er rétt hjá hv. 8. landsk. þm., að það var vonazt eftir því eftir síðasta stríð, að þá tækju við friðartímar. Ég vil minnast á eitt atriði út af því ríki, sem hann sagði, að hætta stafaði af. Sovétríkin hafa ekki her utan síns lands, nema í hinum sigruðu löndum úr síðustu styrjöld, Þýzkalandi og Austurríki, og í sambandi við þá hersetu, en Bandaríkin hafa her í flestum ríkjum veraldarinnar, þar sem auðvaldið stjórnar, og heyr stríð í Kóreu, Bretland heyr stríð í Malajalöndum og Frakkland í Indókína. Það var rétt hjá hv. 8. landsk. þm., er hann talaði um kalt stríð í staðinn fyrir frið. En hver skipuleggur þetta kalda stríð og hvaðan koma fyrirskipanir um, að viðskipti skuli ekki fara fram millí vesturs og austurs? Er það ekki þing Bandaríkjanna, sem bannar þessum ríkjum að selja vörur sínar til Sovétríkjanna eða landa, sem eru í sambandi við þau? Er það ekki Bandaríkjaþing, sem setur lög, sem koma á þessu kalda stríði? Hvar annars staðar eru svona lög sett, sem ganga jafnvel svo langt, að Truman neitar að staðfesta þau? Þau voru svo harðvítug, að Truman neyddist til að nota undanþágu, svo að þau stæðu ekki þjóðarbúi Englands fyrir þrifum. Englendingar urðu að fá timbur og korn frá Rússlandi. Það er auðvald Bandaríkjanna, sem skipuleggur kalda stríðið og knýr aðrar þjóðir til að lúta vilja sínum.

Ég skal fara að ljúka máli mínu. Ég ætlaði ekki að vera eins langorður og raun hefur orðið, en vegna þess að hv. 8. landsk. þm. vék ekki í einu atriði að frv., þá varð ég að fara ýtarlega í það. Hann notaði allan sinn ræðutíma til að koma með villandi og blekkjandi frásagnir um alþjóðamál. Þegar við tökum okkar ákvörðun, þurfum við að gera okkur ljóst, hvað við staðfestum með þessum samningi og að Atlantshafsbandalagsríkin og þau ríki, sem byggja herstöðvar hér, eru deyjandi yfirstéttarvald í heiminum. Þetta má marka hjá auðvaldinu í heiminum á því, að það heimtar Ísland sem stoð og stríðsvettvang fyrir sig í þeirri styrjöld, sem það hugsar sér að stofna til. Það er vitað mál, að eina ráð auðvaldsins við kreppum hefur hingað til verið styrjöld. Þessar styrjaldir hafa gefið Bandaríkjunum allan sinn iðnaðar- og fjármálamátt og allan gróða og auðmagn. Í krafti þess stríðs, sem er undirbúið af auðvaldi Bandaríkjanna, er þess krafizt af okkur Íslendingum og alþýðu Vestur-Evrópu, að við leggjum á okkur sívaxandi byrðar, gengislækkun, atvinnnleysi og lánsfjárkreppu. Það, sem leitt hefur verið yfir Vestur-Evrópu, á augsýnilega einnig að fara að leiða yfir okkur. Það er að vísu ekki minnzt á það í frv., en tveir foringjar Sjálfstfl. gátu þess á ræðum á landsfundi flokksins, að Íslendingar þyrftu líka að vopnast. Á fjárl. nú er ákveðið framlag til Atlantshafsbandalagsins, og hér er ákveðið, að Ísland greiði kostnað af öllum þeim landssvæðum, sem fara undir herstöðvar Bandaríkjanna. M.ö.o., það á að fórna Íslandi fyrir bandariskar auðstéttir, til þess að þær hafi betri aðstöðu til að heyja nýja heimsstyrjöld til þess að vita, hvort hægt sé að framlengja líf auðvaldsins í heiminum um nokkra áratugi enn þá með blóðfórnum. Svo segir hv. 8. landsk. þm., að þetta kosti engin bein útgjöld fyrir Ísland. Hver greiðir þá allt, sem við höfum skuldbundið okkur til að gera, og það, sem dynur yfir okkur vegna þess skrefs að veita Bandaríkjunum þessi fríðindi hér á landi? Hv. 8. landsk. þm. sagði einnig, að ef þetta yrði samþ., þá yrði samvizkan betri. Já, það má vel vera, að hv. 8. landsk. þm. hafi betri samvizku af því að hafa stuðlað að því, að Ísland og íslenzka þjóðin dragist með á þeim helvegi, sem auðvald Bandaríkjanna stefnir nú eftir. Við höfum fengið ofur lítinn forsmekk af því að hnýta okkur þannig aftan í Bandaríkin. Hann hefur vafalaust betri samvizku eftir að hann sem forsrh. knúði fram að binda vísitöluna við 300 stig. Íslenzkur verkalýður hefur fengið smjörþefinn af því, hvað það kostar, að hv. 8. landsk. þm. fái betri samvizku. Það er búið að ofurselja íslenzka alþýðu undir atvinnuleysi vegna þjónkunar þjóna Bandaríkjanna í ríkisstj. hér á Íslandi. Við skulum alvarlega gera okkur það ljóst, að Bandaríkin eru eingöngu að hugsa um herstöðvar hér á Íslandi fyrir sig, en ekki til að vernda íslenzku þjóðina. Það kemur daglega í ljós, þó að borgarablöðin reyni að dylja það. Nú er svo komið, að Churchill er farinn að óttast, að Atlantshafsbandalagið reynist pólitískt, og það þykir hættulegt, að Bandaríkin hafi stórar atómbombur í Bretlandi. Churchill hefur lýst því yfir, að hann muni reyna að fá Bandaríkin til að hætta að hafa atómbombur í Bretlandi. Nú virðist brezka þjóðin vera að vakna og rísa upp til að mótmæla því, að Bretland verði gert að drápsskeri fyrir bandaríska auðvaldið. Ef atómsprengjurnar verða fluttar frá Bretlandi, hvert á þá að flytja þær? Í skeyti frá Washington til ýmissa blaða í Evrópu 12. nóv. segir svo: „Demókratíski öldungadeildarmaðurinn Edwin Johnson lýsti yfir á blaðamannafundi í dag, að Bandaríkin ættu að hætta við kjarnorkuherstöðvar sínar í Bretlandi. Þær væru miklu betur settar annars staðar, t.d. á Íslandi, í Norður-Afríku eða Tyrklandi. Það væri engin afsökun fyrir þá að setja England í hættu af óvinaárás“, lauk hann máli sínu. Johnson öldungadeildarþm. er í kjarnorkunefnd og í innsta hring og fylgist með hvaða auvirðilegu máli sem Bandaríkin hafa í undirbúningi. Það er engin afsökun að setja England í hættu vegna kjarnorkunnar. Þegar enska þjóðin fer að ókyrrast, verður að taka tillit til mótmæla hennar. Ámeríska auðvaldið talar þá um að flytja slíkar kjarnorkustöðvar til Íslands. Það gerir ekkert til, þó að Íslandi sé stofnað í hættu. Á Íslandi eru menn kyrrir og hreyfa ekki mótmælum. Þar kvartar stjórnin ekki undan slíku, heldur býður upp á, að hér séu stórkostlegar herstöðvar. Ég held, að nú sé kominn tími til, að hv. Alþ, átti sig á því, hvað er verið að gera. Okkar hólmi hefur í sögu sinni kannske verið hungursker, en hann hefur hingað til ekki verið drápssker, til þess að héðan sé farið að ausa dauða og hörmungum yfir þjóðir Evrópu og um leið valda dauða okkar eigin þjóðar. Þess vegna eigum við ekki að láta það villa okkur sýn, hvar við höfum samúð, þegar þessar tvær fylkingar sækja á, hvort heldur það eru ríkin í austri eða vestri. Þetta má ekki gera út um afstöðu okkar, þegar dæma á um samning sem þennan. Við eigum fyrst og fremst að hugsa sem fulltrúar íslenzku þjóðarinnar á Alþ., hvað við getum, á hvern hátt sé hægt að bjarga þjóðinni og sjá til þess, að menn lifi í landinu eftir þennan hildarleik. Ef okkur er umhugað um okkar þjóð, þá eigum við að gera það, sem við getum, til að halda henni utan við styrjöld. Við vitum allir, að svo kalt sem heimspólitíkin er rekin, mundi vafalaust fara svo, að Bandaríkin hernæmu Ísland í upphafi styrjaldar. Hættan er mikil, að við drögumst inn í styrjöld, þó að við séum hlutlausir. En ef við förum sjálfviljugir inn í stríð, sleppum við okkar siðasta hálmstrái með því að taka ábyrgðina á okkur sjálfir, fjárhagslega, pólitíska og siðferðilega, sem af því hlýzt, ef styrjöld dynur yfir Ísland. Ég held því, að sá samningur, sem nú liggur fyrir, sé eitt af tvennu: annaðhvort sú hrapallegasta villa, sem gerð hefur verið í íslenzkum stjórnmálum, eða hættulegasta níðingsverk gagnvart íslenzku þjóðinni, ef þeir menn, sem gera hann, vita, hvað þeir eru að gera. Í gegnum sögu okkar hefur það verið einhuga ósk Íslendinga að halda friði í landinu. Nú er ekki aðeins verið að draga okkur inn í styrjöld sem virkan hernaðaraðila og ljá okkar land til hernaðar, heldur á líka að vopna okkur sjálfa, eins og forustumenn Sjálfstfl. hafa lýst. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, hvert þessi braut leiðir, verði farið eftir henni. Það er beinlínis verið að stofna því í hættu, hvort okkar þjóð verður áfram til í þessu landi, ef haldið verður áfram á sömu braut. Hvernig sem menn líta á samninginn, er eitt víst, það er hægt að fá betri samning en þennan. Þess vegna legg ég til, að Alþ. vísi þessum samningi frá, sem ríkisstj. hefur gert í trássi við lög og rétt. Og það á ekki að láta hæstv. ríkisstj. haldast uppi slíkt stjórnarskrárbrot.