16.01.1952
Sameinað þing: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (3226)

51. mál, mótvirðissjóður

Jörundur Brynjólfsson:

Það eru aðeins örfá orð. — Ég vil láta í ljós ánægju og þakklæti til hæstv. ríkisstj. og hv. fjvn. fyrir afgreiðsluna á þessu máli og ætla, að það sé á allan hátt eðlilegt og rétt að hafa hana í því formi einmitt, sem hv. meiri hl. n. leggur til. Ég held, að það sé bæði eðlilegt og rétt, að einmitt sé tekin nú fyrir fram ákvörðun um þetta mál, og vil mega vona, eins og 1. flm. þessarar till. lét í ljós, að þetta verði þjóðinni í heild til mikils gagns og góðs í framtíðinni, að einmitt þessi ákvörðun skuli vera tekin. Og ég hygg einmitt, að sú brtt., sem meiri hl. fjvn. hefur lagt fram, geti verið öruggur fyrirboði um það, að þessi fjárveiting sé æskileg og heppileg fyrir þjóðina í heild.

Ég ætla svo ekki að fara að fjölyrða um þetta mál, en vildi aðeins láta í ljós ánægju mína yfir meðferð þess.