17.01.1952
Sameinað þing: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (3255)

64. mál, veðlán til íbúðabygginga

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Aðalefni þessarar þáltill. er áskorun til stj., að hún láti gera gangskör að því í sambandi við endurskoðun bankalöggjafar landsins, að þeir, sem þurfa að byggja íbúðir í kauptúnum og bæjum, eigi aðgang framvegis að stofnun, sem veiti þeim 1. og 2. veðréttar lán. Þannig hefur verið ástatt hér á landi undanfarið, að svo að segja daglega hittir maður menn í bæjum og kauptúnum, sem vilja byggja sér íbúðir, þurfa þess, en sjá engin ráð til þess, af því að enginn fæst til að veita þeim lán; eða maður hittir menn, sem eru að byrja að byggja, en komast ekki áfram vegna þess, að þá skortir lánsfé; eða í þriðja lagi, að maður hittir menn, sem eru rétt búnir að byggja, hafa tekið lán með afarkostum og búast við á næsta augnabliki að láta af hendi íbúð sína, þar eð þeir hafa reist sér hurðarás um öxl. Þetta ástand er óþolandi. Hjá bændum hefur verið betur séð fyrir þörfinni, þar sem byggingarsjóður Búnaðarbankans veitir þeim þó lán í allverulegum mæli.

Fjvn. hefur haft till. þessa til meðferðar, og meiri hl. hennar mælir eindregið með því, að hún verði samþ., eða sex menn af níu. Tveir menn voru ekki við afgreiðslu málsins, og veit ég ekki um afstöðu þeirra, það eru þeir hv. 2. þm. Rang. og hv. þm. Borgf. Einn þm., hv. þm. Barð., hefur sérstöðu, sem mér er ekki fyllilega ljós, en mér skilst vera á þá leið, að hann vilji vísa málinu til ríkisstj. En ég get varla skilið, að hægt sé að færa rök fyrir því í svo sjálfsögðu og einföldu máli, að þingið láti vera að lýsa yfir, að það telji rétt, þegar bankalöggjöfin er endurskoðuð, að taka til athugunar, hvernig bætt verði úr þessari miklu þörf, þar sem um er að ræða svo mikil vandræði í þjóðfélaginu í sambandi við hana eins og sakir standa.

Fjvn. sendi málið til umsagnar bankanefndarinnar, og er svar hennar birt sem fylgiskjal með nál. á þskj. 610. Og eins og menn geta séð, er umsögn bankanefndarinnar raunverulega jákvæð.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en legg eindregið til f. h. meiri hl. n., að till. verði samþ.