16.01.1952
Sameinað þing: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í D-deild Alþingistíðinda. (3261)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Við flytjum þessa till., ég og hæstv. atvmrh., og hún er ósk frá ríkisstj. um, að Alþ. veiti henni heimild til að verja úr ríkissjóði og ganga í ábyrgð fyrir nokkurri upphæð, ef ráðizt verður í að setja á stofn hraðfrystihús á Siglufirði á þessu ári. — Það þarf ekki að færa rök fyrir, hvers vegna þessi till. er fram borin. Það er í samræmi við það vandræðaástand og atvinnuleysi, sem skapazt hefur á Siglufirði vegna síldarleysisins. Töluvert hefur verið gert til að reyna að bæta úr þessu ástandi, m. a. útvegaður togari, en það þykir á það skorta, að hægt sé að taka á móti aflanum í landi. Þetta mál er ekki enn komið á það stig hjá stj., að hægt sé um það að segja með vissu, hvað gert verður, en við lítum svo á, að rétt sé að fá heimild Alþ., ef fært þætti. Ég skal geta þess, að það var meining okkar og eðlilegt að taka þetta í fjárlögin, en af vissum ástæðum gat það ekki orðið þá og því horfið að því ráði að fá heimildina fram á þennan hátt. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið á þessu stigi. Vil ég leggja til, að till. verði vísað til fjvn. Ég skal geta þess, að ef n. óskar, get ég gefið upplýsingar, sem ég sé ekki ástæðu til að þylja hér. Leyfi ég mér svo að leggja til, að till. verði vísað til 2. umr. og fjvn.