16.01.1952
Sameinað þing: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (3265)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Pétur Ottesen:

Það mun hafa verið rætt um það um alllangt skeið, að gera þyrfti af hálfu þess opinbera einhverjar ráðstafanir til þess að létta það erfiðleikaástand, sem ríkir í atvinnumálum á Siglufirði. Eins og hv. þm. Siglf. upplýsti hér áðan, var hér um nokkurt skeið sendinefnd frá Siglufirði, sem ræddi við ríkisstj. og ýmsa aðra um þessi vandkvæði kaupstaðarins. Og tilefnið til þess, að ég hreyfi umr. hér um þetta mál á þessu stigi, er það, að ég hef heyrt það af þessum umr., að til mála hafi komið, að síldarverksmiðjur ríkisins yrðu aðili að því að leysa þessi vandkvæði. Mér er hins vegar ekki ljóst, hvert hlutverk síldarverksmiðjanna á að vera í þessari hjálparstarfsemi. Það mun hafa verið um það rætt, að auka þyrfti hraðfrystihúsakost á Siglufirði í því augnamiði meðal annars að frysta þar fisk úr togurum til atvinnuaukningar á staðnum. Ég vildi þess vegna í sambandi við þetta, sem rætt kann að hafa verið um samstarf við síldarverksmiðjur ríkisins í þessu efni, gera fyrirspurn um það til hæstv. forsrh., að hve miklu leyti hefur verið rætt um, að síldarverksmiðjurnar yrðu aðili að því að leysa þetta mál. Eins og þessi till. liggur hér fyrir, er ekkert gefið í skyn um það, að þar sé um neitt samstarf við síldarverksmiðjurnar að ræða, né slegið föstu, á hvern hátt þessum framkvæmdum verði fyrir komið, enda kom skýrt fram í ræðu forsrh., að enn er ekki búið að taka fullnaðarákvörðun um það. En ég vildi þegar á þessu stigi málsins slá varnagla við því, að síldarverksmiðjurnar eða þeir menn, sem eiga mest undir því, hvernig fer um rekstur þeirra, væru settir í nokkra hættu í sambandi við þetta, þannig að síldarverksmiðjurnar þyrftu að fara að taka á sínar herðar áhættu af hallarekstri, sem kynni að leiða af þessari hjálparstarfsemi við Siglfirðinga. Ég teldi ekki eðlilegt, að síldarútvegsmenn víðs vegar af landinu, sem leggja síld inn í verksmiðjur á Siglufirði, væru settir í þá aðstöðu, að þeir þyrftu að taka á sínar herðar skakkaföll og hallarekstur, sem kynni að leiða af þessari ráðstöfun.

Hér í þessari till. er gert ráð fyrir því að reisa hraðfrystihús á Siglufirði og talað um, að það muni kosta um 3 millj. kr. Mun þetta miðað við það að koma upp nýju hraðfrystihúsi á Siglufirði. Nú er það einnig kunnugt af viðræðum, sem orðið hafa um þetta mál bæði í ríkisstj. og annars staðar, að bent hefur verið á aðra leið til þess að bæta úr vandræðum Siglufjarðarkaupstaðar í þessum efnum, sem mundi kosta miklu minna fé en þetta, og það er að hagnýta betur frystihús, sem þar er á staðnum, en þarf nokkurrar endurbótar við, bæði aukinn vélakost og að einhverju leyti betri og aukinn útbúnað að því er snertir húsakynni, og að hægt væri með þeim hætti að ná sömu afkastagetu fyrir miklu minna fé en til þess þarf að koma upp nýju hraðfrystihúsi. Ég vildi þess vegna mælast til þess við ríkisstj., að hún í sambandi við ákvörðun um þetta máltæki þá leið einnig til athugunar. Það er mikil óhagsýni og beinlínis ráðdeildarleysi að stofna hér til meiri fjáreyðslu en nauðsynlegt er, auk þess sem það er mjög varhugavert að blanda ríkisverksmiðjunum nokkuð inn í þetta. Ef um slíka hjálparstarfsemi er að ræða, eiga aðilar á staðnum undir öllum kringumstæðum að bera sjálfir ábyrgð á fyrirtækinu, en hlutverk ríkisins það eitt að hjálpa til að koma því á fót.

Það var nú aðeins þetta, sem ég vildi segja við þessa fyrri umr. málsins, enda er mér greið leið til þess að athuga þetta nánar í sambandi við meðferð málsins í fjvn., en hæstv. forsrh. hefur þegar borið fram till. um það, að málinu verði vísað þangað.