16.01.1952
Sameinað þing: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í D-deild Alþingistíðinda. (3266)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég var nú ekki kominn, þegar hv. þm. Borgf. hóf mál sitt, en hann bar fram fsp. varðandi það, hvað hæft væri í því, að síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði tækju að sér að einhverju leyti að koma upp slíku iðjuveri og bæru að einhverju leyti ábyrgð á því. Ég gerði það með ráðnum hug að fara ekkert inn á þetta, því að ekki hefur verið tekin um það nein ákvörðun enn þá í ríkisstj., hvernig með þetta verður farið, en ég hef boðizt til að gefa fjvn. fyllri upplýsingar, ef óskað væri eftir.

Ég get viðurkennt, að þetta mál hefur verið undirbúið mikið í vetur, fyrst og fremst af hendi Siglfirðinga sjálfra, sem vita bezt, hvar skórinn kreppir að, og hafa fengið tillögur frá verksmiðjustjórninni um þetta mál, þar sem reiknað er með nokkurri samvinnu milli ríkisstj. annars vegar og síldarverksmiðjanna hins vegar, sem stæðu að því að koma upp slíku húsi, en ekki þannig, að síldarverksmiðjurnar tækju að sér nokkra áhættu um sjálfan reksturinn. Það hefur alltaf verið skýrt fram tekið af hálfu verksmiðjustjórnarinnar, að til þess kæmi ekki, að borinn yrði uppi halli af síldarverksmiðjunum sjálfum.

Það er rétt, að komið hefur fram hugmynd um að leysa þetta mál á öðrum grundvelli, þ. e. með gömlu hraðfrystihúsi, sem prívatmaður á á Siglufirði, og munu skiptar skoðanir um, hvort það sé leið, sem hægt er að fara í þessum efnum, en Siglfirðingar virðast vera henni fremur mótfallnir. En ég get fullvissað hv. þm. Borgf. um, að það hefur ekki flögrað að ríkisstj., að síldarverksmiðjur ríkisins tækju á sig ábyrgð á rekstri eins og þessum, heldur frekar hitt, að þær gætu lagt fram hús að einhverju leyti eða yfirstjórn þessa máls, án þess að það þyrfti að kosta nokkuð verulegt, þar sem er ráðið starfslið hjá verksmiðjunum, sem hefur það með höndum. — En. sem sagt, allt þetta er óráðið enn, og vegna þess að höfð munu verða samráð við síldarverksmiðjustjórnina, bæjarstjórn Siglufjarðar og aðra þá aðila, sem koma til með að standa að þessu máli, lítum við svo á, að heimildin eigi að vera í því formi, sem nú er, þannig að það sé algerlega óbundið, hvernig þetta mál verði leyst.

Ég skal taka fram, að þótt farið sé fram á, eins og grg. ber með sér, að verja megi 1½ millj. kr. í þessu skyni af fé ríkissjóðs, er ekkert leyndarmál, hvað um er að ræða. Það má kannske segja, að þetta fé sé frá ríkissjóði, en raunverulega er hér um að ræða það fé, sem síldarverksmiðjurnar hafa endurgreitt til ríkisins s. l. ár af skuldum sínum, þannig að segja má, að hér sé ekki algerlega um venjulegt framlag að ræða úr ríkissjóði.

Ég sé ekki ástæðu til að tefja málið með því að fara um það fleiri orðum, þar sem till. fer nú til fjvn. og verður vitanlega tekin þar til meðferðar. — Ég sé ekki heldur ástæðu til að fara að ræða hér það, sem hv. 6. landsk. (HV) sagði hér áðan. Mér eru að ýmsu leyti vel ljósir erfiðleikar Ísafjarðarkaupstaðar í þessu sambandi og get vel skilið, að hann komi með till. í sambandi við þetta sem fulltrúi fyrir það pláss. En þetta mál hefur verið mjög vel undirbúið af hálfu Siglufjarðarkaupstaðar, sem hefur sótt það mjög fast og lagt töluvert í að fá það rækilega undirbúið, t. d. í sambandi við verksmiðjustjórnina. Þetta er því sérmál, sem er komið miklu lengra áleiðis en þær óskir, sem hafa komið frá Ísafirði og fleiri stöðum um fyrirgreiðslu í þessum efnum. Ég vildi því vona, ef mönnum sýnist rétt að gera eitthvað fyrir Siglufjörð eins og þar er ástatt og útlitið því miður ekki þannig, að hægt sé að vænta að minnsta kosti skjóts bata, — að þá verði ekki farið að hengja aftan í þetta till., sem yrði til þess eins, að allt dagaði hér uppi.