17.01.1952
Sameinað þing: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (3273)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að blanda mér í þær umr., sem eru að hefjast hér á Alþingi um bæjarmál Ísfirðinga. En það er út af örfáum ummælum, sem féllu hér í gær. Ég skal fyrst taka það fram, hvað viðvíkur brtt. hv. 6. landsk. þm., er hann bar hér fram, að hún hefur verið lögð fyrir fjvn., og mun ég því ekki á þessu stigi málsins ræða hana. En ég vil taka það fram út af ummælum hv. 4. þm. Reykv. í gær, þar sem hann beindi fyrirspurn til ríkisstj. út af atvinnuástandinu hér í Reykjavík og spurði: „Hvað hyggst ríkisstj. gera í þessu máli?“ — í sambandi við þetta vil ég geta þess, að um það leyti sem hv. þm. flutti ræðu sína, þá var hringt til mín frá fulltrúaráði verkalýðsfélaganna hér og óskað eftir samtali við ríkisstj. Ég ákvað að eiga viðtal við sendimenn frá þeim fyrir hádegi á morgun, og mun ég því ekki gefa nein svör í þessu máli að svo komnu. En ríkisstj. gerir það, sem hægt er, til að greiða. úr þessu máli, en vill fyrst heyra, hvað nefndin segir um málið, sem kemur til fundar í fyrramálið.

Hv. þm. Barð. mælti nokkur orð varðandi þetta mál í gær og spurði, hvort ekki ætti að skilja ummæli mín svo, að þetta mál ætti ekki að afgreiða í sambandi við aðrar ráðstafanir. Ég hafði tekið fram, að ríkisstj. ætlaði sér ekki að taka fleiri ákvarðanir en þær, sem hér er um að ræða. Þetta vildi ég taka fram, ef menn hafa misskilið þau ummæli, er ég hafði hér í gær. Og einnig vil ég taka það fram, að ríkisstj. hefur tekið til athugunar þær till., sem fram hafa komið, og undirbúið, eftir því sem hún hefur séð sér fært. En þá spurði hv. þm. Barð. einnig, hvað mundi leiða af því, ef sjómannafélag Siglufjarðar segir upp samningum og boðar verkfall frá 15. febr. n. k. Hv. þm. talaði á þá leið, hvort þá þýddi að vera með ráðstafanir til að stofna stórvirk atvinnufyrirtæki eins og hér er um að ræða. Ríkisstj. lítur svo á, að ekki eigi að setja slíkt í samband hvað við annað. Þarna er um að ræða samninga milli atvinnurekenda og sjómanna, og ríkisstj. getur ekki gripið inn í þau mál, fyrr en um þjóðartjón er að ræða. Þess vegna get ég ekki upplýst, hvað verður gert í þessu sambandi. En það er víst, að fari svo, að þessi atvinnufyrirtæki stöðvist bæði á Siglufirði og annars staðar og togararnir liggi í höfn óvirkir, þá stöðvast ýmsar framkvæmdir, sem ráðgert hefur verið að koma í framkvæmd, Og sú heimild, sem ríkisstj. er hér að leita eftir, getur þá verið í þeim flokki. — Ég vil því láta þá skoðun mína í ljós, að ef gjaldeyrisöflunin stöðvast, þá mun af því stafa margt, eins og okkur öllum er kunnugt.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að lengja þessa umr. á þessu stigi. Ég tel að till. eigi að fara til fjvn., og þarf ég því ekki að taka fleira fram nú í sambandi við þetta mál.