17.01.1952
Sameinað þing: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (3279)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mér er það vel ljóst, að ég á ekki rétt meiri ræðutíma, þar sem ég hef þegar talað tvisvar og auk þess gert athugasemd. Ég þakka því hæstv. forseta fyrir það, að hann gefur mér kost á að segja hér nokkur orð.

Ég er þakklátur hv. þm. Vestm. fyrir þá skörulegu ræðu, er hann flutti hér í dag málstað Ísafjarðar til stuðnings. Ég er enn fremur þakklátur hv. þm. N-Ísf. fyrir þann hluta ræðu hans, er hann mælti með brtt. þeirri, sem ég hef hér lagt fram, en ég er ekki jafnþakklátur honum fyrir þann hluta ræðunnar, er hann vék að því, að ég hefði ekki áður haft áhuga fyrir fiskiðjuveri á Ísafirði. Þetta er með öllu ósatt, því að ég hef frá öndverðu haft áhuga fyrir fiskiðjuveri á Ísafirði. Í sambandi við þann sundrungardraug, sem hv. þm. gat um, vil ég upplýsa það, að deilan um þetta efni stóð aðeins um það, hvort fyrirtækið skyldi rekið sem hlutafélag eða samvinnufélag, og taldi ég, að réttara væri að reka það á samvinnugrundvelli og tryggja þannig, að sjómönnum á staðnum væri opin leið að félaginu um alla framtíð, í stað þess að með hlutafélagi væri reksturinn allur í höndum nokkurra eigenda og afkomenda þeirra, sem síðan gætu kannske orðið viðskila við sjálfa útgerðina, og ættu allir að sjá eðlismuninn þar á. Ég tel, að bæjarstjórn Ísafjarðar ráði ekki yfir útgerð togarafélagsins, og það sem togarafélagið ber fyrir, er það vill ekki leggja upp aflann á Ísafirði, er það, að aðstaðan til þess sé þar ekki nógu góð. Úr þeirri aðstöðu þarf nauðsynlega að bæta. Það var mikil þörf fyrir fiskiðjuver á Ísafirði, þegar það mál var fyrst á döfinni, en nú er þörfin tvöföld, þar sem nú eru komnir togarar í kaupstaðinn, sem nauðsynlega þurfa að fá aðstöðu til þess að leggja þar upp afla sinn. Og um það erum við hv. þm. N-Ísf. sammála, að hraðfrystihúsið þar sé ófullnægjandi og að eitthvað þurfi að gera til þess að bæta úr þessum málum. En deilumálið, sem hann minntist á, er löngu dautt og grafið og engum til gagns að fara að taka það upp að nýju. Nú er aðeins um það að ræða, hvort ríkisstj. getur fengizt til þess að veita lán og aðstoð til þess að koma upp þessum fiskiðnaðarfyrirtækjum. Við biðjum ekki um neinar gjafir til þessa, heldur aðeins lán.