23.01.1952
Sameinað þing: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (3282)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Eins og fram kemur í bæði nál. meiri hl. á þskj. 734 og nál. minni hl. á þskj. 754, þá varð samkomulag um það í fjvn. að gerbreyta till. að formi til, þannig að heimildin til handa ríkisstj. væri ekki bundin við ákveðna staði, heldur hefði hún heimild til að ráðstafa ákveðinni upphæð til atvinnuaukningar á þeim stöðum, þar sem talið væri, að þess væri brýn og óhjákvæmileg þörf, í sama skyni og fólst í upprunalegu till., sem flutt var hér í þinginu af tveimur ráðherrum. Það voru sem sé leidd rök að því, að það mundi vera svo erfitt atvinnuástand víðar en á Siglufirði, að ástæða væri til, ef farið er inn á þessa braut, að veita þá slíka aðstoð til fleiri staða, sem svipað væri ástatt um, enda líka víst, að ef slík aðstoð hefði verið veitt Siglufirði einum, þá hefðu komið fram beiðnir víðar að, sem erfitt mundi reynast að vísa algerlega á bug. Það varð því fullt samkomulag um að hækka þá upphæð, sem ætluð var í þessu skyni, úr l½ millj. í 4 millj. kr., eins og hv. frsm. meiri hl. hefur þegar gert grein fyrir. Um þetta tiltekna atriði varð fullt samkomulag í nefndinni. Aftur á móti voru nokkuð skiptar skoðanir um það, hvort bæri að setja skilyrði að því er snertir framkvæmd till.

Ég bar það fram í n., að þar sem svo stæði á, að þessi hjálp yrði veitt og henni yrði marið til þess að koma upp hraðfrystihúsum og fiskimjölsverksmiðjum, þá yrði það sett að skilyrði, að þau fyrirtæki væru eign einstaklinga á viðkomandi stað eða bæjarfélaga eða hlutafélaga og ræki eigandi fyrirtækisins það á eigin ábyrgð. Ég lít svo á, að þetta sé trygging fyrir góðum árangri af þessari aðstoð, að aðilar á þessum viðkomandi stöðum standi að þessu, reki það sjálfir og séu ábyrgir gagnvart þessum fyrirtækjum og ríkinu, sem lánar fé í þessu skyni, þannig yrði mest gagn að þessari aðstoð og þannig yrði það bezt tryggt, að hún komi að tilætluðum notum. Ég tel, að það sé ekki heppilegt eða hyggilegt að koma upp ríkisfyrirtæki á staðnum til þess að bæta úr atvinnuörðugleikunum. Ég held, að það verði affarasælla, að ábyrgðin á atvinnufyrirtækinu hvili á þeim sem á heima á þeim stað, þar sem bæta skal ástandið. Það eru fyrst og fremst þeir, sem á þessum stöðum búa, sem hafa hagsmuna að gæta, og það getur ekki orkað tvímælis, að stefnt er til meira öryggis og betri hátta, ef rekstur er í höndum ábyrgra aðila á staðnum.

Það var að gefnu tilefni, sem ég vildi slá þennan varnagla, því að það var um það rætt í n. að fara ef til vill að blanda síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði inn í þetta mál. Þetta taldi ég vera mjög óheppilegt og vildi þess vegna setja það skilyrði fyrir aðstoðinni, sem útilokaði, að þetta væri gert.

Það er vitað mál, að ef á að fara að ganga inn á þá braut að leysa þennan vanda með því að fara að setja upp ríkisstofnanir í því skyni og stíga í því efni fyrsta sporið með því að láta síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði taka að sér þetta hlutverk, þá er hætt við, að aðrir vildu fara að slást í förina og heimta, að settar yrðu upp slíkar stofnanir, sem ríkið ætti og bæri ábyrgð á að öllu leyti, til þess að leysa þann vanda, sem leiðir af erfiðu atvinnuástandi. Ég held, að það sé ekki heppilegt, að Alþingi fari að ýta undir og styðja slíkan hugsunarhátt. Hitt held ég, að sé réttara, að veita þessa hjálp með þeim hætti, sem ég legg til, að styðja atvinnurekendur á viðkomandi stöðum til að gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til þess að bæta úr atvinnuástandinu, þannig að þeir beri alla ábyrgð á rekstrinum og séu þess meðvitandi, að það velti á ráðdeild þeirra og fyrirhyggju, hvort aðstoð kemur að notum eða ekki.

Aðalmismunurinn á minni till. og till. meiri hl. er fólginn í þessu, sem ég nú hef skýrt frá. Ég hef auk þessa flutt aðra brtt. Í brtt. meiri hl. er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. sé heimilt að verja allt að 4 millj. kr. í þessu skyni. Þetta þýðir það, að ríkið leggi fé þetta fram þannig, að það sé óendurkræft. Þetta tel ég ekki heppilegt, að þetta sé endilega lagt fram sem óendurkræft fé, því að það liggur ljóst fyrir, að það er hægt að ná í sumum tilfellum sama árangri með því að lána féð. Ég tel því, að hér sé um ofrausn að ræða.

Þess vegna hef ég lagt til, með hliðsjón af framansögðu, að tillagan verði orðuð svo: „Alþingi ályktar að heimila ríkisstj. að verja eða lána af ríkisfé, annað hvort eða hvort tveggja, allt að 4 millj. króna til þess að bæta úr atvinnuörðugleikum í landinu, eftir því sem nauðsynlegt er. Þegar slík aðstoð er veitt til þess að koma upp fyrirtækjum, skal hún því aðeins látin í té, að bæjar- eða sveitarfélag eða félag einstakra manna eigi eða reki fyrirtækið. Ríkisstjórnin getur sett þau skilyrði fyrir aðstoð þessari, um mótframlög, tryggingar og annað, sem hún telur nauðsynleg.“

Ég hef haft orðalag þessarar till. þannig, að sett eru ákveðin skilyrði fyrir framkvæmd hennar, sem miða eiga að því að tryggja raunhæfan árangur af henni, og að þar séu báðir möguleikar opnir um lán eða framlag, þannig að hægt sé að leysa vandann eftir báðum þessum leiðum, eftir því sem við á. En eftir till. meiri hl. er aðeins hægt að gera þetta með þeim hætti, að féð sé ekki endurkræft. Ég vænti þess, að Alþ. geti fallizt á, að heppilegra sé að hafa þennan hátt á.

Ég hef svo ekki miklu fleira að segja um þann mun, sem er á minni till. og till. meiri hl. Það, sem þar ber á milli, er fólgið í þessum atriðum, sem ég hef nú gert grein fyrir.

Ég skal geta þess, að í nál. meiri hl. er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. hafi 8 millj. kr. ábyrgðarheimild í þessu skyni samkv. 22. gr. fjárlaganna. Þetta er misskilningur, þó að svo hafi til tekizt, að þessar tölur standi þar. Á fjárlagafrv., eins og, stjórnin bar það fram, var á 22. gr. 2 millj. kr. ábyrgðarheimild í þessu skyni. Fjvn. bar fram brtt. um að hækka þessa upphæð í 6 millj. kr. En það fór svo í meðförunum. að þessar 6 millj. voru settar þarna inn sem nýr liður, en áfram stóð 2 millj. kr. heimildin. Það hefur því aldrei farið fram atkvgr. um hærri upphæð en 6 millj., og þessar 2 millj. eru engan veginn til ráðstöfunar. Skrifstofan hefur þegar vakið athygli á þessu og telur eðlilegt, að þessu verði breytt, þegar fjárlögin eru prentuð upp í stjórnartíðindum. Þarna er því ekki nema um 6 millj. kr. ábyrgðarheimild að ræða. Þetta vildi ég upplýsa fyrir þeim, sem hafa ekki gert sér grein fyrir þeim mistökum, sem hér eru á orðin.

Ég hef ekki fleira að segja um þetta mál, en ég vænti þess, að Alþ. fallist á, að heppilegra sé að orða þessa heimild á þann hátt, sem ég hef lagt til á þskj. 754.