23.01.1952
Sameinað þing: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (3284)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þessi till. hefur nú tekið nokkrum breyt. frá því, er hún var hér til fyrri umr. — Eins og hv. frsm. meiri hl. fjvn. tók fram, þá hefur n. haft samráð við ríkisstj. um þetta mál, og það varð samkomulag milli ríkisstj. og meiri hl. fjvn. um till. eins og hún er nú orðuð hjá meiri hl. Ég mæli því að sjálfsögðu með því, að till. verði afgr. í því formi, sem hún er nú. Henni hefur verið breytt í þá átt, að hún er nú ekki bundin við einn stað eins og hún var upphaflega, og í öðru lagi er um hærra fjárframlag að ræða, þannig að það má þá dreifa aðstoðinni meira en gert var ráð fyrir upphaflega.

Um einstök atriði, sem fram komu hjá hv. frsm. meiri hl., þá vil ég taka það fram hvað snertir ábyrgðarheimildina, sem var í till. okkar flm., að það var sett fram vegna þess, að það var miðað við einstakt fyrirtæki, og þótti því eðlilegt, að ábyrgðarheimild, sem nægði þar, yrði sett inn um leið, en líka á, eins og kom fram hjá hv. frsm., heimildin, sem nú er í fjárl., að nægja hvað þetta atriði snertir. Ég skal ekkert fara að ræða það, sem kom fram hjá hv. þm. Borgf., að það hefðu verið veittar 2 millj. kr. hærri ábyrgðarheimildir en Alþ. hefði ætlazt til. Ég hef ekki rannsakað það svo, að ég þori að fullyrða um það, en það er óhrekjanlegt, að það er um 8 millj. kr. ábyrgðarheimild að ræða í fjárl., og ég sé ekki annað en það hljóti að vera vítalaust fyrir ríkisstj. að nota sér þá heimild, ef á þarf að halda, sérstaklega þegar búið er að lýsa því yfir af form. fjvn. og frsm. meiri hl., að það sé beinlínis reiknað með því, að það megi nota þá heimild, og á þeim grundvelli er það, að ég tel eðlilegt, úr því að búið er að breyta till., að ábyrgðarheimildin sé felld niður, þar sem um sæmilega háar heimildir er að ræða.

Hv. frsm. tók fram, að n. liti svo á, að sjálfsagt væri, að fram færi athugun á því, hvernig ætti að skipta þessu fé, a. m. k. á þeim stöðum, sem sæktu um aðstoð, og er þetta alveg sjálfsagt, og vil ég lýsa því yfir, að ríkisstj. mun að sjálfsögðu láta slíka athugun fara fram, eftir því sem umsóknir berast, og leitast við að nota heimildina þannig, að hún sé notuð þar, sem þörfin er mest að hennar áliti og trúnaðarmanna hennar.

Hv. þm. Borgf. er með nokkra sérstöðu í þessu máli. Þó held ég, að það sé aðeins eitt atriði, sem hægt er að segja, að sé sérstaða, þó að hv. þm. lýsi því sem tveimur breyt., sem hann er með, frá því, sem meiri hl. leggur til. En ég tel hitt atriðið ekki neina breyt., þó að hv. þm. vilji orða það þannig: „Alþingi ályktar að heimila ríkisstj. að verja eða lána“ o. s. frv. Ég lít svo á, að orðalagið „að verja“ geti tekið yfir hvort sem væri að veita lán eða láta það sem beinan styrk af hálfu ríkisins, og ég vil lýsa því yfir, að ríkisstj. mun líta þannig á, að þetta orðalag, eins og það er í upphaflegu till. og eins og það er enn hjá meiri hl. fjvn., geti gripið yfir þetta hvort tveggja, og þar af leiðandi er það sjálfsagt, að það verði athugað, hvernig féð verður út látið og hvaða skilyrði eru sett fyrir því að ýmsu leyti, hvort féð verður endurgreitt o. s. frv. Ég álit því, að það þurfi ekkert að taka nánar fram um þetta atriði. — Hitt er meginatriði í brtt. hv. þm. Borgf., að hann vill binda þá aðstoð, sem veitt yrði samkvæmt þessari heimild, við það, að það sé bæjarfélag, sem rekur fyrirtækin og kemur þeim upp eða þá einstaklingar; m. ö. o., að það sé útilokað, að ríkið geti haft með það að gera eða ríkisfyrirtæki. Ég álít nú, að það sé alveg óþarfi að vera að útiloka þetta í þessari till., því að ég geri ráð fyrir því, að ríkisstj. fari svo með þessa heimild, að hún muni ekki fara inn á þá braut nema að yfirlögðu ráði, að henni þyki nauðsynlegt að gera það vegna einhverra sérstakra ástæðna á vissum stöðum. Og af því að hv. þm. nefndi sérstaklega Siglufjörð, þar sem till. í upphafi fjallaði um þann stað, þar sem eru starfandi fyrirtæki, sem ríkið á, eins og síldarverksmiðjurnar, þá vil ég taka það fram í þessu sambandi, að ríkisstj. mun, ef hún fær heimild eins og þá, sem meiri hl. leggur til, áreiðanlega hlusta á það, sem stjórn síldarverksmiðja ríkisins segir um þetta mál og hversu hún vill leysa málið. Í stjórn síldarverksmiðja ríkisins eru sérstakir trúnaðarmenn Alþ. og ríkisstj., og á stað eins og Siglufirði, sem er að fara í hundana, þegar þessi ríkisfyrirtæki hafa ekki verkefni, þá virðist ómögulegt að leysa þetta mál öðruvísi en þannig, að stjórn síldarverksmiðjanna þrauthugsi málið, og það verður að athuga, hvort hennar till. séu ekki heppilegar til úrlausnar. Á þann hátt tel ég því ómögulegt að útiloka það algerlega, að einhver ríkisfyrirtæki geti að einhverju leyti haft með rekstur stofnunar eða fyrirtækis að gera, sem komið yrði upp á grundvelli þessarar þál. — Ég vildi taka þetta fram almennt, en það er ekki af því, — og það held ég að hv. þm. Borgf. viti, — að ríkisstj. sé þannig skipuð, að hún sé sérstaklega áfjáð í að láta ríkið vera með allt of mikinn rekstur, meiri en ástæða gæti verið til. En eins og ástatt er í okkar þjóðfélagi, eins og ríkið kemur víða við um rekstur, þá álít ég ekki hægt að útiloka það algerlega, þegar um almennar ráðstafanir er að ræða, að einhver ríkisfyrirtæki komi til greina í sambandi við þetta.

Þetta vildi ég baka fram út af till. hv. þm. Borgf., og af þeim ástæðum er það, að ég hlýt að mæla á móti henni og tel hana óheppilega og að hún gæti orðið til þess að gera erfiðara fyrir að koma þessu máli fyrir á þann hátt, sem heppilegast sýndist, þegar málið væri skoðað til hlítar. Ég held það sé svo ekki meira um þetta atriði að segja.

Hv. 4. þm. Reykv. mælti nokkur orð út af þeirri brtt., sem hann og annar þm. úr Alþfl. fluttu hér við fyrri umr. málsins. Virtist mér, að hann væri svona við því búinn að taka till. aftur, a. m. k. annan hluta hennar, en óskaði eftir svörum við þeim atriðum, sem fram eru tekin í fyrri hluta brtt. á þskj. 659. Ég lýsti því yfir við fyrri umr., að n. frá fulltrúaráði verkalýðsfélaganna hefði óskað eftir samtali við ríkisstj. Það samtal fór fram daginn eftir, og þá voru m. a. rædd þau atriði allnákvæmlega, sem felast í þessari till. hv. 4. þm. Reykv. Ég get ekki gefið alveg full svör við því, hvenær hægt sé að leysa úr þeim atriðum, sem þar eru nefnd, en að þessu hefur verið unnið af ríkisstj. og er unnið að því að leysa þetta mál þannig, að togararnir leggi hér upp afla, en það hefur verið lítið um afla hjá ýmsum togurum, sem annars hafa ákveðið að leggja fisk upp í fiskvinnslustöðvar hér í Reykjavík og víðar. En að þessum málum verður reynt að vinna, eftir því sem mögulegt er, og stuðla að því, en hvað mikill árangur næst, þori ég ekki að fullyrða, en við væntum þess fastlega, ef nú stillir til og veður verður sæmilegt og þá sæmilegur afli, og þá sérstaklega þegar bátaflotinn fer af stað, að úr þessu muni bráðlega rætast. Þetta er óvenjulegt ástand síðan um áramót vegna hins tryllta veðurofsa, sem verið hefur, svo að enginn bátur hefur komizt á sjó, nema lífshætta fylgi.

Út af byggingarframkvæmdum hér í Reykjavík og að vinna gæti hafizt við þær, þá var því lýst yfir á fundi með n. frá fulltrúaráðinu, að það mundi alls ekki standa á því, að fé úr ríkissjóði yrði greitt, hvenær sem hægt væri að vinna að byggingarframkvæmdum eins og iðnskólanum og jafnvel fleiri byggingum, sem hægt er að vinna að að vetrarlagi innanhúss, og ég get fullyrt, að það mun ekki standa á því. Hvort einhverjar aðrar ástæður hindra, að hægt sé að hefjast handa, það er mér ekki kunnugt, enda ekki á vegum ríkisstj. út af fyrir sig. — Þessi atriði vildi ég aðeins nefna í sambandi við það, sem hv. 4. þm. Reykv. tók hér fram. Að öðru leyti skal ég ekki eyða tíma þingsins að þessu sinni.