23.01.1952
Sameinað þing: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í D-deild Alþingistíðinda. (3286)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að benda á, að ágreiningurinn milli meiri hl. fjvn. og hv. þm. Borgf. er ekki svo mikill. Hann vill fyrirbyggja, að hægt sé að láta þessi verk fara fram í sambandi við síldarverksmiðjur ríkisins. Ég hygg þó, að ef rannsókn leiddi í ljós, að hægt væri að gera stærra átak með minna fé og tryggja enn betri atvinnumöguleika á viðkomandi stað með því að láta það fyrirtæki hafa á hendi framkvæmdir, og um leið væri það tryggt, að þetta gæti ekki haft áhrif á síldarverðið til sjómanna, — þá hygg ég, að hv. þm. Borgf. mundi einnig sætta sig við þá meðferð málsins. En það vildi ég taka fram við hæstv. forsrh., og það er þess vegna, sem ég kvaddi mér hljóðs, að ef svo skyldi fara, að þetta yrði framkvæmt af síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði, — þessar atvinnubætur sem hér um ræðir, — þá verður að halda reikningshaldinu sér í sambandi við það mál, — það er mjög mikilsvert atriði til þess að fyrirbyggja, að tortryggni kunni að koma upp í sambandi við aðrar framkvæmdir verksmiðjanna. Sýndi það sig, að þessi viðskipti yrðu til óhags fyrir ríkisverksmiðjurnar, þá er ég viss um, að ríkisstj. og Alþ. væru viðmælandi síðar um að láta það ekki ganga út yfir síldarverksmiðjurnar, heldur yrði því breytt á annan hátt og þá kannske eitthvað svipað því, sem hv. þm. Borgf. leggur til. En ég legg að sjálfsögðu mikið upp úr því, að um þetta mál geti verið fullkomin eining á Alþ., en vil vænta þess, að hæstv. ríkisstj. hagi málinu þannig, að ekki verði blandað saman þeim rekstri við annan rekstur síldarverksmiðjanna.

Það er rétt að taka það fram, að hér hafa orðið á formgallar í sambandi við 22. gr. fjárlaga, en ég tel ekki fjarstæðu, þótt ríkisstj. noti þessa heimild alla, ef þörf krefur, eftir þær yfirlýsingar, sem hér hafa komið fram, þegar við þekkjum fordæmi fyrir því, að ríkisstj. hefur látið nægja að fá skriflegt samþykki fjvn. fyrir ýmsum upphæðum, án þess að samþykki Alþ. hafi verið til fyrir þeim.

Ég vil svo að lokum benda hæstv. forsrh. á það, þótt það sé óskylt þessu máli, að hér hefur verið rætt mikið um ýmsar ráðstafanir til atvinnuaukningar, m. a. að flýta fyrir byggingu iðnskóla og heilsuverndarstöðva í því skyni, og ég hygg ég mæli fyrir hönd allrar heilbr.- og félmn. Ed., er ég segi, að það hefur valdið okkur nokkrum vonbrigðum, að hann og heilbr.- og félmn. Nd. skuli hafa stöðvað svo áriðandi mál sem frv. um hæli fyrir drykkjusjúka menn er, þegar það er vitað, að framgangur þess máls mundi hafa gert það tvennt í senn að bæta atvinnuástandið í landinu og leysa úr mjög aðkallandi máli, og þegar það er líka vitað, að hér liggja í sjóði um 2 millj. kr. til þessarar framkvæmdar, þá er það enn óskiljanlegra, að slíkt mál skuli vera stöðvað í nefnd, meðan unnið er að því að ráðstafa fleiri millj. kr. úr ríkissjóði. Ég vil því eindregið mælast til þess við hæstv. ráðh., að hann reyni allt til þess að knýja málið fram á þessu þingi eða þá að öðrum kosti hefji þær framkvæmdir í þessu máli, sem þegar er hægt að ráðast í, og hrindi þannig málinu áleiðis, um leið og slíkt mundi verða til atvinnuaukningar.