23.01.1952
Sameinað þing: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í D-deild Alþingistíðinda. (3287)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Það eru aðeins örfá orð út af þeim skilningi, sem hæstv. forsrh. virtist leggja í orðin „að verja fé úr ríkissjóði.“ Það er alveg nýr skilningur á þessum orðum hjá hæstv. ráðh., ef hann telur, að samkvæmt þeim geti ríkissjóður notað féð til lána. Þetta orðalag hefur hingað til eingöngu verið notað, þegar um óendurkræft fé hefur verið að ræða, og við það miðaði ég mína brtt. Það var líka auðheyrt á hv. 4. þm. Reykv., að hann lagði í þetta sama skilning og ég, því að hann talaði í þessu sambandi um óendurkræft fé. — Svo var það aðeins út af öðrum ummælum hæstv. forsrh., er hann lét falla út af orðum mínum um að blanda síldarverksmiðjunum á Siglufirði inn í þetta mál, sem ég vildi segja nokkur orð. Hæstv. ráðh. sagði að vísu, að þetta yrði ekki gert nema að yfirveguðu máli, og vil ég leggja áherzlu á það með honum. Ég vil endurtaka ábendingar mínar um það, að með þessum hætti, að fara að leggja fé til ríkisfyrirtækja í því augnamiði að bæta úr atvinnuerfiðleikum á vissum stöðum á landinu, er verið að fara inn á mjög hættulega braut. Ég vil vara við því fordæmi, sem með þessu mundi skapast, og geri ég það af ótta við, að fleiri óskir mundu koma um það, að siglt yrði í það kjölfar, að ríkið tæki á sínar herðar að leysa úr slíkum erfiðleikum á þennan hátt. Er ekki í fljótu bragði hægt að gera sér grein fyrir afleiðingum þess, að farið væri að opna ríkissjóðinn þannig upp á gátt fyrir kröfum manna, þegar eitthvað ber út af. Ég er líka hræddur um, að ef farið verður að blanda rekstri síldarverksmiðjanna inn í þetta, þá geti það bitnað harkalega á fyrirtækinu, og mundi þá ef til vill geta orðið erfitt að skilja á milli þessa rekstrar síldarverksmiðjanna og annars rekstrar þeirra, svo að þessi hjálparstarfsemi gæti orðið þungur baggi á þeim, sem leggja síld inn í verksmiðjurnar. — Ég skal svo ekki fara frekari orðum um þetta.