23.01.1952
Sameinað þing: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í D-deild Alþingistíðinda. (3301)

165. mál, hótelhúsnæði

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Allshn. hefur tekið till. þessa til athugunar, og mælir hún einróma með samþykkt hennar. Í grg. till. á þskj. 590 er gerð skýr grein fyrir þeirri ástæðu, sem lá til þess, að þessi till. var lögð fram, og þarf ég ekki að endurtaka það hér eða flytja frekari skýringar frá nefndinni. Ég vil geta þess, að það er ein missögn í grg. till., þar sem segir í sambandi við stúdentagarðana, að þar muni vera um 170–180 herbergi fyrir hótelgesti, en á að vera, að garðarnir rúmi um 170–180 gesti, en herbergin munu vera um 100. Það er mjög mikilvægt, að þessi till. verði samþ. nú, eins og málið liggur fyrir. Það ætti ekki að vera hér um neina áhættu fyrir ríkissjóð að ræða, þótt hann ábyrgðist lán, sem stjórn stúdentagarðanna kynni að vilja taka í þessu skyni, en þetta mun tvímælalaust ódýrasta leiðin til að tryggja, að bætt verði úr þeim vandræðum, sem hér eru í höfuðborginni varðandi móttöku erlendra gesta, en eins og mönnum er kunnugt, hefur ríkisvaldið sjálft stutt að því að fá erlenda gesti hingað til lands, og er því þess vegna málið skylt. — Mun ég svo ekki hafa þessi orð mín fleiri, en vil mælast til þess, að hv. alþm. sjái sé fært að styðja þessa till., og eins og ég sagði áðan, mælir allshn. með henni.