19.10.1951
Neðri deild: 15. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í D-deild Alþingistíðinda. (3320)

13. mál, lánveitingamál bankanna

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Það mun ýmsum þykja nokkuð kynlegt, að þessi hv. þm. (EOl) skuli vilja taka til fyrirmyndar aðferðir, sem notaðar eru í U. S. A., en þar eru rannsóknarn. sem þessar algengar. Manni væri nær að halda, að hann mundi sækja sér fyrirmyndir í austurátt. En hann gerir það ef til vill ekki af því, að þar hafa þm. ekki leyfi til að tala, bara til að hlusta, hafa heyrnartólið við borðið. — Það er ekki síður kyndugt, þegar þessi hv. þm. er að tala um menn, sem hann kallar stofulærða, þar sem hann sjálfur þekkir ekki einu sinni fyrstu stafina í stafrófi hagfræðinnar. Hér hafa ekki tíðkazt slíkar rannsóknarn., enda hagar hér öðruvísi til en í U. S. A., þar sem ráðh. eiga ekki sæti á þingi. Hér á landi sitja ráðh. aftur á móti á þingi, enda þótt þeir séu ekki alþm., og eru þar af leiðandi alltaf við til að gefa upplýsingar. Mismunurinn á framkvæmd þessarar heimildar í þessum tveimur löndum byggist því á mismunandi stjórnarháttum.

Ég verð að segja það, að mér finnst þessi þáltill. hið furðulegasta plagg, hér um bil ekkert annað en rangfærslur og útúrsnúningar. Hér er ráðizt persónulega á mann, sem ríkisvaldið hefur tekið í sína þjónustu og hefur orð á sér fyrir ágæta menntun í sínu fagi. Það er borið upp á Benjamín Eiríksson, að hann hafi verið í þjónustu amerísks banka. Fyrir þessu er enginn fótur, heldur er þetta bara kommúnistaáróður. Hér er um að ræða alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem flest ríki veraldar standa að, meira að segja Tékkóslóvakía. Ég man ekki betur en að kommúnistaflokkurinn íslenzki væri samþykkur aðild Íslands að alþjóðagjaldeyrissjóðnum 1945. Þetta hefur eitthvað ruglazt í höfðinu á 2. þm. Reykv. Ísland hefur ekki fengið neitt lán úr þessum sjóði. Honum er ætlað að hafa eftirlit með gjaldeyrismálum hinna ýmsu landa, og skiptir það ekki máli, hvort það eru t. d. Bretar eða Íslendingar, sem eiga hlut að máli. Þess vegna er þetta nánast alþjóðastofnun, en enginn banki, sem gefur fyrirmæli til sinna skuldunauta. Þess vegna er það furðulegt, að jafngáfaður maður og hv. 2. þm. Reykv. skuli vera með þær firrur, að alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi með lánum og leigum sett skilyrði varðandi lánastarfsemi bankanna á Íslandi. Hvers konar þvættingur er þetta eiginlega? Uppistaðan í ræðu 2. þm. Reykv. var sú, að Benjamín Eiríksson hafi hindrað lánastarfsemi bankanna til íbúðarhúsabygginga. Það má segja, að Benjamín Eiríksson sé orðinn voldugur maður. En þetta eru allt staðlausir stafir. Benjamín Eiríksson hefur ekki gefið bönkunum nein fyrirmæli. Hann hefur engin afskipti af bönkunum önnur en þau, sem heyra undir hann sem starfsmann viðskmrn. Það er því furðulegt, að þessi hv. þm. skuli bera slíkan þvætting á borð.

Hins vegar er það ekkert launungarmál, að um það leyti, sem frílistinn kom fram, sendi viðskmrn. þau tilmæli til bankanna að auka lánveitingarnar ekki um of. En síðan gengislækkunarl. voru samþ., hafa útlán bankanna hækkað um 376 millj. kr. Hér er ekki um neina smáræðis upphæð að ræða, þegar hún bætist ofan á há útlán áður. Útlán bankanna námu 30. sept. 1951 1288 millj. kr. Það þarf ekki lærðan hagfræðing, það þarf ekki annað en venjulegt brjóstvit til þess að sjá, að bankarnir verða að hafa eitthvert fé til þess að lána út, ef þeir eiga að gera það. Og þeirra útlán byggjast á því fé, sem þeir hafa yfir að ráða, ef þeir eiga að fylgja heilbrigðri fjármálastefnu. En ég vil halda, að enginn banki, sem fylgir heilbrigðri fjármálastefnu, mundi vilja fara inn á þá braut, sem hv. 2. þm. Reykv. leggur til. En hverjir eru þá fjármunir bankanna til þess að lána út? Þessar 1288 millj. kr. Sparisjóðseign í bönkunum er 480 millj. kr. Á hlaupareikningi eru 375 millj. kr., en frá þessu dregst mótvirðissjóður, 193 millj. kr., svo að í sparisjóðsdeildum og á hlaupareikningi eru um 662 millj. kr., en það er aðallega það fé, sem bankarnir hafa til útlána. Það er það fé, sem menn leggja inn í bankana. Svo er það fé í sjóðum, sem þeir hafa aflað og er nú um 160 millj. kr. Seðlaveltan er nú um 193 millj. kr. Mótvirðissjóður er nú rúmar 200 millj. kr. Þetta er það, sem bankarnir hafa til þess að lána út, og þetta er spennt upp í topp.

Hv. 2. þm. Reykv. virðist ekki gera sér grein fyrir því, .að það muni þurfa einhverja fjármuni til þess að auka útlánin. Ef útlánin ætti að auka nú, frá því sem er, þá væri hægt að gera það, en aðeins á einn hátt, sem ég tel, að þessi hv. þm. mundi telja ágæta ráðstöfun: með því að auka seðlaveltuna. Ég álít nú ekki, að ég eigi að fara út í þá sálma að dispútera um það við hann, hvernig áhrifin yrðu af slíkri ráðstöfun á peningamálin í landinu, ef við færum að prenta seðla umfram það, sem enn er orðið. En ég hygg, að þótt hv. 2. þm. Reykv. réði yfir peningamálunum og léti gera það nú, þá mundi ekki vera hægt að reisa margar íbúðir fyrir það, því að ef á að reisa þær, þá verður að vera til byggingarefni, en það borgum við ekki með prentun á bankaseðlum.

Það var mjög einkennandi fyrir þennan hv. þm. og þá stefnu, sem hann fylgir í þessum málum, er hann sagði: Við eigum að reka harðvítuga fjárfestingarpólitík; við eigum að festa alla okkar peninga í fasteignum og húsum. — Af hverju er þessi lánsfjárkreppa. Hún er af því, að við höfum fest of mikið fé í fasteignum, meira fé en við höfum efni á, þannig að við höfum reist okkur hurðarás um öxl. Þess vegna kreppir að okkur nú með rekstrarfé, ekki aðeins um fé til þess að byggja íbúðir og fjárfestingarfyrirtæki, heldur líka rekstrarfé til þess að reka almennan rekstur í landinu. Þetta er ekki bönkunum að kenna og þetta er ekki ríkisstj. að kenna eða þeim fyrirmælum, sem hún hafi gefið bönkunum. Þetta er vegna þess, að fjármunirnir raunverulega eru ekki til. Ef við ættum að bæta úr þessu ástandi, þá yrðum við að fá fé annars staðar frá, lán erlendis, ef við ættum að geta bætt úr þessu á þann hátt eða í þeim mæli, sem hv. 2. þm. Reykv. benti á. Ríkisstj. hefur aldrei farið fram á það við bankana, sem hv. 2. þm. Reykv. minntist á í sinni ræðu, að þeir skyldu ekki lána út á húsbyggingar. Það hefur aldrei komið neitt til umræðu. Hins vegar er vitað, að bankarnir hafa ekki lánað neitt út á húsbyggingar í mörg ár, að öðru leyti en því, sem veðdeild Landsbankans hefur lánað út á hús gegn veðdeildarbréfum. Svo að hér er ekki um neitt í þessu efni að ræða, sem ríkisstj. hafi komið á framfæri. Þetta er regla, sem bankarnir hafa lengi haldið. Hér er því ekki ástæða fyrir neina rannsóknarnefnd. Hér er ekki neinn leyndardómur og ekkert falið. Sú ásökun, sem kemur fram í till. hv. þm., er staðlausir stafir, og ég get sagt það, að Benjamín Eiríksson hefur ekki á nokkurn hátt haft afskipti af þessum málum á þann hátt, sem hv. þm. lýsir í grg. sinni og tók fram í ræðu sinni.