29.10.1951
Neðri deild: 19. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (3329)

13. mál, lánveitingamál bankanna

Flm. (Einar Olgeirsson) [frh.]:

Herra forseti. Það voru tvö eða þrjú atriði, sem ég átti eftir að taka til athugunar í þeim umr., sem ég stóð í við hæstv. viðskmrh. Eitt atriðið, sem okkur greindi á um í umr., var um bátaútvegsgjaldeyrinn, — hvort bátagjaldeyririnn, eins og hann er settur á, sé settur á samkvæmt l. Hann var, eins og hv. þm. vita, settur á með reglugerð, sem birtist í Lögbirtingablaðinu 8. marz og gefin út af fjárhagsráði 7. marz 1951. Í upphafi þeirrar reglugerðar er ekki vísað í neina lagagr., heldur er sagt, að þetta sé samkvæmt ósk ríkisstj., þannig að fjárhagsráð reynir ekki að vísa til sérstakra l. í sambandi við sína reglugerð, heldur til óska ríkisstj. Ég hélt því fram, að þessi setning væri ólögleg, og hef skorað á hæstv. ráðh. að minnast á þær heimildir, sem hann telur þetta byggt á. Ég vil nú enn spyrja hæstv. ráðh.: Svo framarlega sem ríkisstj. hefur, að hans áliti, heimild til þess að gefa út reglugerð eins og þá, sem fjárhagsráð gaf út 7. marz, þar sem ávextir, grænmeti og ýmsar fleiri vörur voru settar á þennan lista, hefur þá ekki ríkisstj. jafnmikinn rétt, að hans áliti, til þess að gefa út reglugerð, þar sem allar vörur úr vefnaði væru settar á slíkan lista, eða allar vörur úr járni og stáli væru settar á slíkan lista? M. ö. o., ef fjárhagsráð hefur lagalega heimild til að gefa út reglugerð um þessa vöruflokka, hefur það þá ekki rétt til að gefa út reglugerð um allar vörur? Og hins vegar er með þessari reglugerð, í 4. kafla hennar, ákveðið, að settar skuli reglur, sem hækka leyfin í verði um 25–60%, eða leyfa einstökum mönnum að leggja 50–60% gjald á innflutninginn á ákveðnum vörutegundum. Hefur þá ekki ríkisstj. rétt til að láta fjárhagsráð setja 70 til 80 eða 100% gjald á slíkar vörutegundir og fleiri vörutegundir? Ef ríkisstj. hefur rétt til þess að gefa bátaútveginum þennan rétt, hefur hún þá ekki líka rétt til að gefa togaraeigendum hann? Og ef hún hefur rétt til að gefa hann sjávarútveginum, hefur hún þá ekki rétt til að gefa S. Í. S. og útflytjendum landbúnaðarafurða þennan rétt? M. ö. o., ef ríkisstj. lítur svo á, að hún hafi gert þetta samkvæmt heimild í fjárhagsráðsl., lítur ríkisstj. þá þannig á, að hún hafi rétt til, í fyrsta lagi að ákveða, að sérstakur listi skuli vera á hvaða innflutningsvörum sem henni þóknast, og hefur hún líka rétt til að ákveða, hvað háar prósentur hún álítur nauðsynlegt að leggja á útflutningsvörur bátaútvegsins, togaraeigenda eða bænda? — Ég álít rétt að taka þetta fram vegna þess, að svo framarlega sem ríkisstj. hefur þennan rétt, þá eru þar með allar aðgerðir, sem snerta alla lausn sjávarútvegsmála og allt, sem heitir gengisskráning, algerlega tekið úr höndum Alþ. Auðvitað er það gengisfelling á ákveðnum vörutegundum, sem við framkvæmum með þessu, og ef þetta sama er framkvæmt á öllum vörutegundum, þá er það almenn gengislækkun. Ef þess vegna ríkisstj. stendur fast á því, að hún hafi lagaheimild til að gefa út reglugerðina frá 7. marz, þá stendur hún þar með fast á, að hún hafi rétt til að láta leggja á, einstökum mönnum til handa, hvaða prósentu sem vera skal á hvaða innflutning sem vera skal og til að greiða uppbætur á hvaða vöru sem vera skal. Hafi ríkisstj. þetta lagalega vald, þá er aðeins spursmál, hvaða verð hún notar sér til þess að framkvæma almenna gengislækkun. Það fer að verða undarlegt, og mér skilst, að það falli burt í gengisskráningarl., að Landsbankinn eigi að skrá þetta, ef hún á að geta breytt genginu eftir því, sem henni þóknast.

Ég held þess vegna, að bátagjaldeyririnn sé, eins og ég hef áður bent á, algerlega ólöglegur, og ég held, að hann sé glappaskot, sem Benjamín Eiríksson hafi gert, og hann hafi nánast verið notaður til þess að reyna að fá alþjóðagjaldeyrissjóðinn til þess að loka augunum fyrir þessu, þó að það sé brot á þeim reglum, sem þeim sjóði eru settar. En þessi ráðunautur ríkisstj. hefur ekki gert sér ljóst, hvað hann er að gera.

Ég vonast til þess, að hæstv. ráðh. tilgreini nú í þessum umr., hvaða lagabókstafur það er í fjárhagsráðsl., sem hann vill styðja þetta við, því að hann verður að gá að því, að það er ekki þægileg aðstaða til þess að koma bátagjaldeyrinum til umr. hér, þegar vitað er, að ríkisstj. er að draga málið út úr þinginu.

Ég vil leyfa mér hér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp svar hæstv. viðskmrh. við fsp., er þáv. þm. S-Þ. bar fram í Ed. hinn 22. sept. 1944 um það, hvernig ráðstafa ætti þeim innstæðum, sem ríkið átti þá. Hæstv. viðskmrh., sem þá var bæði fjmrh. og viðskmrh., svaraði fsp. á eftirfarandi hátt, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrirspurn sú, sem hv. þm. S-Þ. hefur sett hér fram: „Hvenær og með hverjum hætti hafa ríkissjóði áskotnazt 580 millj. kr., án þess að þessarar fjárhæðar sé getið í skjölum Alþingis,“ — virtist mér í fyrstu nokkur gáta. Það hvarflaði að mér, hvort ég hefði framið stórkostleg embættisafglöp að leyna eða tapa þessari upphæð í völundarhúsi ríkissjóðsins. En þó að þar sé leitað eftir henni með logandi ljósi, er hún ekki til staðar. Þess vegna er ekki um það að ræða, að þessu fé verði ráðstafað á þann hátt, sem spurt er eftir í síðari hluta fyrirspurnarinnar. En samkv. tilvitnun hv. þm. til útvarpsræðu fulltrúa Sósfl. svipar upphæðinni mjög til þess fjármagns, sem ríkið eða landsmenn eiga í erlendum innstæðum. Það fé er þó nokkuð ólíks eðlis. Það er ekki eign bankanna né ríkisins, heldur eign sjómanna, verkamanna, útgerðarmanna, bænda og fjölmargra fleiri landsmanna, og þessum eignum verður ekki ráðstafað án samþykkis eigenda, nema ríkisvaldið ætli að taka þær traustataki til að ráðstafa þeim á líkan hátt og gert virðist ráð fyrir í fyrirspurninni.“

Hæstv. núv. viðskmrh. hafði í september 1944 verið viðskmrh. í tvö ár, — hafði í tvö ár verið æðsti yfirmaður viðskiptaráðs og því haft aðalráðstöfunarrétt á þessum innstæðum, en þó dettur honum ekki í hug að nota þær, þegar till. kemur fram um slíkt. (Viðskmrh.: Hvar stendur þetta? Er þetta ekki einhver misskilningur hjá hv. 2. þm. Reykv.?) Nei, þetta fé var allt saman eign bankanna. En viðskmrh. áleit þá, að það næði ekki nokkurri átt að ráðstafa þessu fé meðan hann sat í ráðherrastól, — taldi það einberan kommúnistaáróður að verja því fé til nytsamra framkvæmda. Hvernig væri komið fyrir þjóðinni sem heild nú, ef þá hefði verið farið að ráðum hæstv. viðskmrh.? En hæstv. viðskmrh. er ekki fyrr hættur að starfa sem ráðh. og farinn að vinna sem privatmaður að sínum eigin atvinnurekstri en hann skilur þetta. Hann tók þátt í því að kaupa togara, sem keyptur var fyrir atbeina l., sem hann var andvígur meðan hann var í ráðherrastól. Nú er verið að gera það sama og árið 1944. Það er verið að loka lánsfjármarkaðinum. Eins og ég hef getið um áður, þá skrifaði hæstv. viðskmrh. bönkunum bréf í þann mund, sem gengið var fellt. Það er nauðsynlegt að fá að vita, hvað það var, sem hæstv. viðskmrh. lagði fyrir bankana. Það er opinbert leyndarmál, að í sambandi við mótvirðissjóð hafa Ameríkumenn sett skilyrði í sambandi við lánveitingar seðlabankans. Þegar það eru 200 millj. kr. í mótvirðissjóði, er lítill vandi fyrir bankana að auka útlán sín og fara þannig í kringum fyrirmælin frá U. S. A. Það er vitanlegt, að hugmyndir alþjóðabankans um starfsemi bankanna hér á landi hljóta að byggjast á upplýsingum frá Benjamín Eiríkssyni. Þegar hæstv. viðskmrh. viðurkennir, að hann hafi sett bönkunum fyrirmæli um útlánastarfsemi sína, gerir hann það þá sem viðskmrh., eða gerir hann það vegna þess, að hann hafi fengið um það fyrirmæli erlendis frá? Um þetta verðum við að fá upplýsingar. Hæstv. viðskmrh. verður annaðhvort að lesa þessi plögg upp hér í hv. Alþ. eða afhenda þau hv. fjhn. Ég vona svo, að þessi plögg verði lögð fram, svo að hv. alþm. geti kynnt sér þau.