29.10.1951
Neðri deild: 19. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (3330)

13. mál, lánveitingamál bankanna

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég stend ekki upp hér vegna þess, að mér þyki það svo merkilegt, sem hv. 2. þm. Reykv. var að segja hér áðan, því að sannast að segja er flest það, sem þessi hv. þm. segir, ekki svaravert. Hann tók það fram í útvarpsumr. hér um daginn, að ég hefði flúið úr d., þegar þetta mál var hér til umræðu síðast; ég hefði ekki treyst mér til að hlusta á hann. Ég skal segja þessum hv. þm. það, að það var ekki af hræðslu, sem ég hvarf á brott, heldur einfaldlega til að komast hjá þeim sálarkvölum að hlusta á hann, sérstaklega þegar hann talar um efnahagsmál. Ég býst við, að flestir hv. þm. kannist við það hljóð, sem kemur þegar verið er að skerpa sög, og finnist það ekkert þægilegt. Mér finnst alltaf, þegar 2. þm. Reykv. er að tala um efnahagsmál, eins og verið sé að skerpa sög rétt við eyrað á mér, og lái mér hver sem vill að forðast að hlusta á það.

Eitt af því, sem þessi hv. þm. leyfði sér að halda fram hér áðan, var það, að ég bannaði bönkunum að lána út fé. Sannleikurinn er sá, eins og ég hef sagt hér áður, að ég sendi þeim tilmæli um að hafa hemil á útlánastarfseminni. Hins vegar gat það komið til mála vegna hins mikla skorts á peningum að taka þetta mál fastari tökum, en það var ekki gert. Bankarnir hafa ekki meira fé, nema því aðeins að seðlabankinn yrði látinn gefa út og leysa þannig fjármálakerfið í sundur.

Það, sem 2. þm. Reykv. las hér áðan, sannaði alls ekki það, sem hann vildi sanna. Ríkisstj. átti ekki þessar 500 millj. kr., og því var ekki hægt að taka þær, nema þá traustataki. Þetta er því alveg út í loftið hjá hv. 2. þm. Reykv.

Ég ætla ekki að fara út í það við hv. þm. að deila við hann um, hvort ríkisstj. hafi haft lagaheimild til að koma á bátagjaldeyrinum. Það mál var rannsakað af lögfræðingum stj., og ég treysti þeim miklu betur en hv. 2. þm. Reykv.

Ég vil benda hv. 2. þm. Reykv. á það, að fjárhagsráð hefur heimild til að gefa þennan frílista út, og að það leggur ekkert gjald á hann. Hv. 2. þm. Reykv. er óhætt að lesa l. spjaldanna á milli, og ég veit, að hann mun hvergi rekast á lagagr., sem mælir þessu í mót.

Ég mun ekki taka framar þátt í þessum umr. við hv. 2. þm. Reykv., því að ég hef ekki þolinmæði til að hlusta tímunum saman á þennan þvætting hans.