29.10.1951
Neðri deild: 19. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í D-deild Alþingistíðinda. (3332)

13. mál, lánveitingamál bankanna

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki langan tíma til að afgreiða hæstv. viðskmrh. — Fyrst er það bréfið til bankanna. Það hefur hæstv. viðskmrh. enn ekki fengizt til að leggja fram, en hann varð tvísaga um efni bréfsins. Fyrst sagði hann, að hann hefði sent bönkunum tilmæli um að hafa hemil á lánastarfsemi sinni, en rétt á eftir sagðist hann hafa sent bönkunum tilmæli um að hækka ekki mikið útlán frá því, sem áður var. Og svo sagði hann, að hann hefði ekki heimild til að fyrirskipa bönkunum neitt í þessum efnum, enda hefur hann það ekki sem íslenzkur ráðh. En hann hliðraði sér hjá að nefna, að hann hefði verið þarna milligöngumaður fyrir ríkisstj., sem þegið hefur fé af erlendri ríkisstj. með skilyrðum varðandi fjármálalíf landsins.

En hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. hafa gert meira en þetta. Hann og hæstv. ríkisstj. hafa ráðið til sín ráðunaut gegn jafnvel hærri launum en ráðh. hafa sjálfir, og þessi ráðunautur hefur verið eins og sporhundur í bönkunum til að fylgjast með lánveitingum og klaga fyrir öðrum aðilum. Hæstv. ríkisstj. hefur þannig skipulagt njósnir í bönkunum og ráðið til sín sporhund á hæstu launum til þess að hindra. að lán séu veitt til byggingar íbúðarhúsa. — Það er skiljanlegt, að hæstv. ráðh. hefur valið þann kostinn að flýja burt úr d. En það skal hæstv. ráðh. vita, að hann kemst ekki undan, hann skal verða á flótta allt þingið út:

Hæstv. ráðh. sagði, að bankarnir hefðu ekki peninga. En bankarnir hafa hindrað útflutning fyrir 100–200 millj. kr. með því að koma í veg fyrir, að aflinn væri lagður hér upp og verkaður, og það samkv. fyrirmælum þessa hæstv. ráðh. Þetta hefur skapað atvinnuleysi í landinu, en hæstv. ráðh. hefur samt brjóst í sér til að lýsa því yfir, að ekkert atvinnuleysi sé.

Ég sagði í fyrstu framsöguræðu minni, að málum væri nú svo komið, að betra væri, ef hér væri prívatbanki og lánsfrelsi út á við. Það eru fullir möguleikar á því að fá lánsfé erlendis út á framleiðsluna, ef sú afturhaldssama ríkisstj., sem nú situr, ætlar að banna bönkunum hér að lána út á hana. Og ég vil skora á hæstv. stj. að veita Íslendingum frelsi til að útvega sér erlent lánsfé.

Svona er þá ástandið í dag. Sú leppstjórn, sem hér situr að völdum, er svo ofurseld bandarísku fjármagni, að hún hindrar framleiðsluna og við búum við verri kjör en ef hér væri enginn ríkisbanki. Það er skiljanlegt, að hæstv. ríkisstj. vill ekki standa fyrir máli sínu.

Þá minntist hæstv. ráðh. á nýsköpunina. Það er með hann eins og Bourbonana, hann hefur ekkert lært og engu gleymt síðan hann hrökklaðist út úr stj. 1944. Þá skildi hann ekki, að rétt var að kaupa ný atvinnutæki til landsins; nú skilur hann ekki, að mögulegt sé að nota þessi tæki. Hann heldur, að ekki sé hægt að framleiða meira, af því að bankarnir geti ekki lánað.

Þá er það bátaútvegsgjaldeyririnn. Ég hef aldrei vitað ráðh. aumari. Hann sagðist hafa haft þar um ráð góðra lögfræðinga, og ég trúi því. Við í fjhn. vitum, hvers konar hrákasmiði kemur frá þeim, og í dag höfum við þurft að leiðrétta hér hvert frv. af öðru. En hæstv. ráðh. ætti að muna, til hvaða lagagr. þeir hafa skírskotað. Nei, hann treystir sér ekki til að benda á þessa lagagr., en ég mun gefa honum tækifæri til að senda þessa lögfræðinga á fund fjhn. til þess að upplýsa þetta, fyrst hann stendur hér uppi sjálfur eins og skólastrákur á gati.

Síðan sagði hæstv. ráðh., að með þessu væri bara verið að gefa vörurnar frjálsar. En útvegsmönnum er ekki gefinn þessi gjaldeyrir frjáls, hann er bundinn við kaup á ákveðnum hlutum. Og um innflutninginn gildir skilorðsbundinn frílisti, svo að frjáls innflutningur þýðir, að öllum neytendasamtökum landsins og smákaupmönnum er bannað að flytja inn vörurnar nema með leyfi frá öðrum aðilum. Þetta er því einokunarlisti, og bannað er að kaupa vörurnar beint og frjálst inn í landið.

Svo klykkti hæstv. ráðh. út með því, að hvergi væri í reglugerðinni minnzt á neitt gjald. Í 4. kafla reglugerðarinnar hljóðar 3. setningin svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þó skulu þau halda gildi sínu, ef innflytjendur skuldbinda sig til að skila b-skírteinum sínum innan níu mánaða frá tollafgreiðslu vörunnar og setja tollstjórum tryggingu, sem nemur 25% ai fob-verðmæti pöntunarinnar, sé hún flutt inn frá clearing-landi, en 50% af fob-verðmæti annars innflutnings.“

Það stendur því skýrum stöfum í reglugerðinni, hvaða gjald skuli leggja á, en þrátt fyrir það gefur hæstv. ráðh. hér yfirlýsingu um það, að í reglugerðinni sé ekki minnzt á neitt gjald. Hæstv. ráðh. hefur þannig orðið sannur að því að fara með ósannindi og vita ekki, við hvað hann styðst í þessu máli. Hann hefur nú flúið út úr d., og ég spái því, að það sé undanfari þess, að hann flýi alveg út úr þingsölunum og treysti sér ekki að standa fyrir máli sínu.