17.10.1951
Sameinað þing: 5. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í D-deild Alþingistíðinda. (3341)

14. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Allir eru án efa sammála um það, að í raun og veru ætti að haga svo málum þjóðarinnar, að ekki þurfi á atvinnuleysistryggingum að halda, og skipa þeim málum svo, að atvinnuleysi væri ekki til, heldur jafnan séð svo um, að vinnufærir menn, sem vilja vinna, ættu þess kost að vinna að gagnlegum störfum. Ég minnist þess, að þegar almannatryggingal. voru undirbúin á sínum tíma, 1944–46, þá var gert ráð fyrir því, að í sambandi við almannatryggingarnar yrðu einnig sett önnur l. um atvinnustofnun ríkisins, sem átti að hafa með höndum að gera ráðstafanir, í fyrsta lagi til þess, að vinnuaflið hagnýttist sem bezt, og í öðru lagi til þess að koma í veg fyrir, að til atvinnuleysis komi. Og sem þrautaráð var þá gert ráð fyrir því, að ef allar ráðstafanir brygðust til að afstýra atvinnuleysi, væri heimilt að stofna til atvinnuleysistrygginga undir sérstökum kringumstæðum.

Þegar almannatryggingal. voru samþ., náðist ekki samkomulag um lagasetningu um atvinnustofnun ríkisins, enda var því yfirlýst af þeirri ríkisstj., sem þá fór með völd, og hefur verið yfirlýst af flestum ríkisstj., sem síðan hafa farið með völd, að það væri þeirra meginverkefni að koma í veg fyrir, að atvinnuleysi myndaðist, og sjá um, að landsmenn hefðu nægileg störf við gagnlega vinnu. Það skal líka játað, að allt fram á síðasta ár var ekki neitt atvinnuleysi í landinu umfram það, sem eðlilegt verður að telja, þegar menn færast milli starfsgreina eða vinnustaða eða annað slíkt. En á s. l. vetri breyttist þetta stórkostlega. Þá var þegar komið mjög alvarlegt atvinnuleysi í ýmsum kaupstöðum og kauptúnum landsins. Tala atvinnulausra, sem skrásettir voru, var talsvert á annað þúsund manns, og skyldulið þeirra, sem átti afkomu sína undir þeim, var nálega 4000, þegar þessi skrásetning var gerð, en hún var ekki nálægt því að vera tæmandi, því að hún var aðeins frá nokkrum einstökum stöðum á landinu. Nú fer vetur í hönd, og það er bersýnilegt, að í þessum efnum verður ástandið í vetur stórum erfiðara en það var síðasta vetur. Nú þegar er svo komið í tveimur stærri kaupstöðunum, Siglufirði og Ísafirði, að tugir og hundruð manna hafa leitað burt af þessum stöðum til atvinnu annars staðar með misjöfnum árangri, og þrátt fyrir það voru skrásettir heima fyrir 400 atvinnulausir menn á Siglufirði.

Ég vil fullyrða, því miður, að fram undan er á þessum vetri atvinnuleysi, ef ekki eru ráðstafanir gerðar, — mjög tilfinnanlegt í flestum stærri kaupstöðum landsins. Þegar svo er komið, er ekki til neins að reyna að friða vonda samvizku með því að segja, að atvinnuleysistryggingar eigi að vera óþarfar. Það verður að gera ráðstafanir til að draga úr því böli, sem atvinnuleysið er, og hvort sem mönnum þykir það gott eða illt, þá er ekki til nema ein leið til að afnema atvinnuleysið í þjóðfélaginu, og þessi eina leið er að sjá atvinnulausum mönnum fyrir þannig löguðum styrkjum, að þeir geti lifað mannsæmandi lífi, þannig að heill og framtíð þeirra og skyldmenna þeirra sé ekki stefnt í voða. Það er með þetta fyrir augum, sem ég leyfi mér að flytja þáltill. á þskj. 14, og er hún að efni til á þá leið, að þegar verði skipuð nefnd til að semja frv. til l. um atvinnuleysistryggingar, og skal hún hraða störfum svo sem unnt er. Ég álít engan veginn útilokað, ef þetta mál fær afgreiðslu nú á fáum dögum, að unnt verði að leggja frv. um þetta fyrir Alþ. svo snemma, að Alþ. gæti afgr. það áður en það hættir störfum. Hins vegar, ef það ekki tekst, þá ætti að mega tryggja með þessu vandlega undirbúna löggjöf um þetta efni fyrir næsta Alþ. svo snemma, að það gæti komið til framkvæmda áður en erfiðleikarnir hefjast næsta haust. Ég skal þó játa það, að ýmislegt þarf að taka til athugunar og vel að íhuga í sambandi við atvinnuleysistryggingarnar, ef þær eiga að koma að því haldi, sem til er ætlazt. Þeir 4 aðilar, sem ætlazt er til að tilnefni menn í þessa n., eru: Alþýðusamband Íslands, Vinnuveitendasamband Íslands, Samband íslenzkra sveitarfélaga og Tryggingastofnun ríkisins. Þetta eru þeir aðilar, sem hafa aðstöðu til þess bæði að þekkja ástandið í þessum efnum og til þess að dæma um hin mismunandi sjónarmið, sem til greina koma við slíka lagasetningu. Því er lagt til í till., að n. verði skipuð með þeim hætti, sem þar greinir. En fimmti nm. skal skipaður af ríkisstj. án tilnefningar og sé hann form. n.

Það eru tvennar skoðanir uppi um það, á hvern hátt atvinnuleysistryggingunum væri bezt fyrir komið. Ýmsir telja bezt, að einstök verkalýðsfélög og stéttarfélög, styrkt af hinu opinbera, komi upp atvinnuleysistryggingum og hafi frjálsar hendur um notkun þeirra og hverjum reglum hlýtt skuli. Aðrir eru þeirrar skoðunar, að bezt sé að hafa eina miðstöð fyrir allt landið, er annist atvinnuleysistryggingarnar og annist þá helzt einnig vinnumiðlun og skrásetningu vinnuafls. Mig furðaði, vegna ástandsins í fyrra, hvernig ríkisstjórnin þá brást við tillögu Alþfl. um atvinnustofnun ríkisins, og ekki nóg með það, að tillagan næði ekki fram að ganga, heldur voru einnig felld niður afskipti ríkisins af vinnumiðlun. Að gera slíkt, eins og ástand og horfur voru þá, tel ég með öllu óafsakanlegt. Ég álít, að sú stofnun, er hefur atvinnuleysistryggingarnar, eigi einnig að fara með vinnumiðlun, því að eina réttláta prófunin á því, hvort maður er atvinnulaus, er að bjóða honum vinnu. Ég vildi nú þegar gera grein fyrir þessum tvennum skoðunum, hverjir skuli hafa atvinnuleysistryggingarnar, vegna nefndar þeirrar, sem með málið á að gera. Annað atriði er svo, hvernig skipta skuli kostnaðinum á aðila. Eðlilegast er, að atvinnurekendur og verkalýðurinn að einhverju leyti annist kostnaðinn með styrk frá sveitarsjóðum og ríkissjóði. Það er að sjálfsögðu mál, sem þarf að athuga, hvernig þessum kostnaði verði skipt og hverjar tekjur náist inn.

Það hefur verið sagt við mig, að eðlilegast væri, að Tryggingastofnunin tæki að sér atvinnuleysistryggingarnar. Ég játa, að þetta er eðlilegt, en vil þó benda á tvö atriði, sem sjálfsagt er að taka til greina. Áhættan við atvinnuleysistryggingarnar er allt önnur en við tryggingar vegna sjúkleika og slysa. Um þær er hægt að gera áætlun, en um atvinnuleysistryggingarnar ekki. Atvinnuleysið er að mjög verulegu leyti komið undir pólitísku ástandi í landinu, og getur stefna stj. á hverjum tíma ráðið miklu um það, hvort atvinnuleysi er í landinu eða ekki. Það liggur því í hlutarins eðli, að ómögulegt er að reikna út með nokkrum rökum, hver áhætta fylgir atvinnuleysistryggingum á hverjum tíma, og því algerlega undir tilviljun komið, hvort atvinnuleysistryggingarnar kæmu að nokkru haldi. Ég hygg því eðlilegast að fela þetta sérstakri stofnun. Eigi atvinnuleysistryggingar að koma að fullu haldi, verða þær að vera í nánu sambandi við vinnumiðlunina.

Skal ég svo ekki orðlengja þetta meira. Ég hygg, að allir hv. þm. geti verið mér sammála um, að sú hugmynd, að allt geti lagazt í þjóðfélaginu af sjálfu sér, sé ekki veruleiki. Ástandið er þannig, að ekkert vit er í að segja við atvinnulausan mann: „Þú skalt finna mann, sem getur útvegað þér vinnu.“ Ég vænti þess, að hæstv. stj. og alþm. séu mér sammála um, að sjálfsagt sé að samþykkja þessa tillögu og ráða hið bráðasta bót á þessu. — Ég legg til, að málinu verði vísað til hv. allshn., og vil vænta þess, að hún hraði störfum eins og hún sér sér fært.