02.11.1951
Sameinað þing: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í D-deild Alþingistíðinda. (3353)

49. mál, bifreiðavarahlutir

Flm., (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þáltill. á þskj. 70 ásamt öðrum hv. þm., hv. 2. þm. Árn., sem hljóðar þannig: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að innflutningur á varahlutum til bifreiða verði frjáls frá næstu áramótum að telja.“ — Eins og kunnugt er, hafa bifreiðavarahlutar verið settir á bátagjaldeyrislistann, sem tók gildi á þessu ári, og hefur þetta orðið mjög tilfinnanlegt fyrir bílaeigendur og útgerðarmenn bifreiða eða þá, sem annast útgerð þeirra. Það er með öllu óskiljanlegt, að bifreiðavarahlutar skyldu vera teknir með á þennan lista. Allir, sem þekkja til þessara mála, vita, að bifreiðavarahlutar teljast til brýnna nauðsynja í okkar landi, sem hefur svo slæma vegi og hefur varla önnur samgöngutæki upp á að bjóða á landi. Eina afsökunin fyrir þessu er sú, að margir af hv. þm. hafi ekki að fullu gert sér ljóst, hvað kostar að gera út bifreiðar á þeim vegum, sem við verðum að notast við. Ég ætla þó, að eftir þá reynslu, sem fengizt hefur af þessu í nær ár, eigi hv. þm. hægara með að gera sér þetta ljóst og séu fáanlegir til að taka bifreiðavarahlutana út af listanum, svo framarlega sem hann eigi að vera í gildi á næsta ári. Nú ætla ég ekki að leggja neinn dóm á nauðsyn þess að halda honum áfram, en ekki þykir mér ótrúlegt, að sá háttur verði hafður á, sem nú er, þar sem ástandið hefur ekki breytzt til batnaðar fyrir útgerðina. En ef þessi háttur verður hafður á áfram, verður að taka þessar brýnu nauðsynjar út af listanum, því að það hefur áreiðanlega verið fyrir misgáning hjá hv. þm. að taka bifreiðavarahlutana með. Það var ákveðið með bátaútvegslistanum, að á hann yrðu settar þær vörur, sem ekki teljast til brýnustu nauðsynja, eða þær, sem áður voru aðeins fáanlegar á svörtum markaði eða með öllu ófáanlegar, og er það réttlætanlegt að hafa þar þær vörur, sem fólk getur neitað sér um. En nú er óhætt að segja, að 90% af þeim bifreiðavarahlutum, sem fluttir eru til landsins, séu í vörubifreiðar og sérleyfisbifreiðar, en aðeins 10% í fólksbifreiðar, enda slit á þeim mun minna. Það er augljóst, að það er óréttlátt að skattleggja þannig vöru- og sérleyfisbifreiðarnar, auk þess sem það hefur geigvænleg áhrif á framleiðslukostnaðinn og líf fólksins að leggja þannig 60% skatt á bifreiðavarahlutana með þessu. Bifreiðar eru eina samgöngutækið, sem við notum á landi, og slit á þeim hér mun meira en í öðrum löndum, þar sem vegir eru betri. Hverjum dytti í hug erlendis, þar sem járnbrautir eru aðalsamgöngutækin á landi, að skattleggja varahluta til þeirra eða járnbrautarteina, líkt og við skattleggjum aðalsamgöngutæki okkar, eða að skattleggja olíu og varahluta til strandferðaskipanna eða annarra flutningaskipa hér við land? Þetta er ekki gert, af því að augljóst er, að slíkt hefði svo alvarleg áhrif á dýrtíðina og afkomu fólksins, að enginn hefur látið sér detta slíkt í hug. Þetta er þó ekki fráleitara en með bifreiðavarahlutana.

Ég kem þá að því aftur, sem ég sagði, að hv. þm. hefðu ekki gert sér ljóst, þegar listinn var settur, hve mikil áhrif þetta hefði á dýrtíðina og atvinnulífið í landinu. T. d. er ljóst, að mjólk er seld dýrar af því, að varahlutar til bifreiðanna, sem flytja hana, eru skattlagðir þannig, svo að framleiðslan öll hlýtur að hækka sem því nemur. Þetta ýtir undir dýrtíðina, svo að hún fer upp, en ekki niður. Allir bifreiðaeigendur krefjast þess, að varahlutarnir verði teknir út af listanum, og þær kröfur verða ekki þagðar í hel. Hitt er svo annað mál, hvort bátaútvegurinn þarf að fá annað í staðinn, vegna þess að hans hlutur megi ekki vera minni. Um það ætla ég ekkert að segja né dæma um það. En megi ekki rýra listann, má bæta á hann öðrum vörum, sem ekki eru eins nauðsynlegar. Má áreiðanlega finna margt, sem ekki er eins nauðsynlegt fyrir allan almenning og bifreiðavarahlutar. Bezt væri þó að þurfa ekki að bæta neinu á listann, en þó vil ég ekki leggja neinn dóm á það á þessu stigi málsins. Bifreiðaeigendur gera kröfu til þess, að bifreiðavarahlutarnir séu teknir út af listanum og innflutningur á þeim gefinn frjáls, og því til sönnunar liggja hér frammi áskoranir frá fjölmörgum samtökum bifreiðaeigenda. Vörubílstjórafélagið Þróttur, bílstjórafélagið Hreyfill, félag sérleyfishafa og félag íslenzkra bifreiðaeigenda skora á Alþ. samþ. þessa till., sem ég ber hér fram. Sérstök samþykkt er frá Þrótti, og er það skýr og ákveðin áskorun um að samþ. till. þessa, og sé ég ekki ástæðu til að lesa það hér. Mér þykir ekki ólíklegt, að fleiri bifreiðarstjórafélög eigi eftir að senda svipaðar áskoranir til Alþ., en þetta er þó frá fjölmennustu samtökunum.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál að svo stöddu, en vænti þess, að hv. Alþ. taki till. með þeim skilningi að afgreiða hana og samþykkja hið fyrsta. Veit ég, að hæstv. ríkisstj. mun taka henni með velvilja. — Vil ég svo vænta þess, að umr. verði frestað og till. vísað til allshn.