17.10.1951
Sameinað þing: 5. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í D-deild Alþingistíðinda. (3362)

54. mál, mannréttindi og grundvallarfrjálsræði

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Samningur sá, sem hér er lagt til að Ísland gerist endanlega aðill að, hefur verið gerður innan Evrópuráðsins og var undirritaður af öllum aðilum þeirra samtaka 4. nóv. s. l. Samningurinn er alllangur, einar 66 gr., en aðalefni hans er það, að þar eru tiltekin viss mannréttindi og grundvallarfrjálsræði, sem samningsaðilar skuldbinda sig til að hlíta og sjá um að fylgt sé í löggjöf landa sinna, og um þetta eru aðallega fyrirmæli í 1. kafla samningsins. Í síðari köflunum eru svo ákvæði um það, hvernig að skuli fara, ef á móti þessum skuldbindingum er brotið, og er þá heimilt, eftir því sem nánar segir, með ýmsum fyrirvörum, sem ekki skulu raktir hér, að skjóta málum undir sérstaka n., sem til þess er sett að fara með slík mál; eða dómstól, sem í þessu skyni er stofnaður.

Um þau réttindi, sem hér eru talin, er það í stuttu máli að segja, að í öllu því, sem nokkru máli skiptir, þá eru þau réttindi nú þegar beinlínis veitt borgurunum berum orðum í íslenzkri löggjöf og að nokkru leyti í sjálfri stjskr., eða þá að það eru slík grundvallarréttindi, að þau eru talin felast í meginreglum íslenzkra laga, jafnvel þó að ekki sé berum orðum fram tekið. Þess vegna má segja, að 1. kafli þessa samnings sé hér á landi engin nýjung, því að þar eru talin upp þau réttindi, sem borgararnir þegar hafa notið og talin eru sjálfsagður þáttur í verndun íslenzkra borgara gegn ofurvaldi ríkisvaldsins eða ásælni af annarra hálfu. Það mætti því spyrja um það, hvort ástæða væri til þess fyrir Ísland að gerast aðili að þessum samningi, úr því að hér á ekki að veita borgurunum neitt annað en þeir þegar hafa. En þó að borgararnir hafi nú þessi réttindi samkvæmt íslenzkri löggjöf, þá er með þessum samningi tekin á sig alþjóðleg skuldbinding til þess að virða réttindin, meðan þessi samningur er í gildi, og ríkið undirgengst gagnvart öðrum samningsaðilum að fylgja þessum réttindum. Og ef Ísland gerist endanlega aðili að þessum samningi, þá verður landið ekki aðeins — eða ríkisvaldið — skuldbundið inn á við gagnvart sínum þegnum, heldur tekur það einnig á sig skuldbindingu gagnvart öðrum aðilum og öðrum réttarríkjum, sem eru aðilar að þessum samningi, til þess að halda þessum réttindum í heiðri og una þeim vissu viðurlögum, ef á móti þessum skuldbindingum verður brotið, þannig að ekki getur leikið á tveim tungum, að réttindin verða betur tryggð eftir en áður, ef Ísland gerist endanlega aðili að samningnum.

Spyrja mætti hins vegar, hvort það væri ekki óþarfi að veita þessa frekari réttarvernd, sem með þessu stendur til að veita. Því er þar til að svara, að þó að við Íslendingar, eða meginhluti landsfólksins hér, teljum þessi réttindi sjálfsögð, þá er því ekki að leyna, að bæði er uppi hér á landi og annars staðar öflug pólitísk hreyfing, sem hefur það fyrir meginkjarna í sinni stefnu að afneita þessum réttindum. Og þó að ekki séu líkur til þess, að þessi flokkur eða þessi hópur verði hér á landi svo öflugur, að hann geti náð þeim vilja sínum að svipta borgarana þessum réttindum, þá er þess að gæta, að víðs vegar í öðrum löndum hefur þessum mönnum orðið svo mikið ágengt, að þeir hafa komið vilja sínum fram og svipt fólkið þar þessum rétti. Þannig að jafnvel þau frumréttindi eins og að menn eigi að njóta réttaröryggis varðandi líf sitt gegn misþyrmingum og ósæmilegri meðferð, að þeir eigi að hafa tryggingu gegn því, að þeim sé haldið í þrældómi, þvingunar- eða þrælkunarvinnu; að menn eigi að hafa tryggingu fyrir persónulegu frelsi og öryggi; að það eigi að leiða mann fyrir dóm, ef hann er hafður fyrir sök; að hann eigi rétt á því að fá að vita, fyrir hvað hann er hafður fyrir sök og að sá dómur eigi endanlega að vera í heyranda hljóði; að maður hafi hugsana-, samvizku- og trúfrelsi; að maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar; að menn megi safnast saman og mynda ýmiss konar félagsskap; að mönnum sé ekki mismunað í sambandi við þjóðfélagsstöðu sína og ýmislegt annað — allt eru þetta atriði, sem er afneitað af valdhöfum mikils hluta heimsins. Það er því engan veginn að ófyrirsynju, að þau ríki, sem eru meðlimir Evrópuráðsins, bindist samtökum til þess að halda þessum réttindum í heiðri og standa á móti því, að réttur einstaklingsins sé frekar troðinn undir fótum af ósvífnum ofbeldisvaldhöfum en orðið er. Það er því vissulega gleðilegt tímanna tákn, að þjóðirnar bindast samtökum um það að gera slíkan samning og gera slíkar mannréttindaskrár sem hér um ræðir. Og þar sem meginþorri Íslendinga telur þau réttindi, sem hér um ræðir, vera sjálfsögð og þess vegna engar óeðlilegar skuldbindingar á okkur lagðar með því að undirgangast þennan samning, þá tel ég vist, að yfirgnæfandi meiri hluti þingheims verði ásáttur um að fallast á það, að Ísland verði endanlega þátttakandi í þessari samningsgerð. En eins og fram hefur komið, þá eru allir samningar gerðir innan Evrópuráðsins og hafa bæði verið þar til meðferðar og á fulltrúaþinginu, og hafa íslenzku fulltrúarnir, sem þessar stofnanir hafa setið, þegar gert nokkra grein fyrir þessu máli í alþjóðaráheyrn, og eins hefur ráðherranefndin og Evrópuráðið síðan fallizt á samninginn.

Ég sé ekki á þessu stigi ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta, en legg til, að málinu sé vísað til 2. umr. og utanrmn.