08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (3370)

55. mál, æskulýðshöll í Reykjavík

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil aðeins með örfáum orðum mæla með samþykkt þessarar till., sem hér er til umr. Ég skal ekki halda langa ræðu um málið, en vil þó láta í ljós þá skoðun mína, að hér sé um að ræða hið mesta nauðsynjamál. Sannleikurinn er áreiðanlega sá, að unglingar borgarinnar séu í hinum mesta vanda með það, hvernig þeir eigi að verja tómstundum sínum. Allir gera sér ljóst, hver nauðsyn er á, að vinnu- og skólatíma sé vel varið. En það er engu síður nauðsynlegt fyrir eflingu manngildis og menningarþroska, að tómstundunum sé vel varið. Bygging æskulýðshallar hér í Reykjavík er einmitt ein af þeim framkvæmdum, sem gæti orðið til mikils gagns á þessu sviði. Þess vegna vildi ég nú mæla eindregið með þessu máli.