02.11.1951
Sameinað þing: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (3378)

58. mál, fræðslulöggjöfin

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mig langar til þess að taka fram þegar við þessa umr., að ég er andvígur þeirri stefnu, sem er mörkuð í fyrri hluta þessarar þáltill., þ. e. að skólaskylda í unglingaskólum skuli numin úr l. og skyldunámstími í barnaskólum styttur. Ég tek undir þau ummæli hv. 1. landsk. þm., að það er stórt spor aftur á bak, ef gera á ráðstafanir til þess að stytta mjög verulega skólaskyldu barna og unglinga. Það hefur verið stefnan í öllum nálægum menningarlöndum að lengja fremur skólaskylduna en stytta hana. Ýmsar merkar menningarþjóðir hafa lengri skólaskyldu en við. Annað mál er það, að ýmsir gallar á fræðslulöggjöfinni frá 1946 hafa komið í ljós, og er ég alls ekki á móti því, að á henni fari fram endurskoðun. Þó held ég, að það séu ekki fyrst og fremst l. sjálf, sem þurfi að bæta, heldur ýmsar framkvæmdir á sviði sjálfra fræðslumálanna. L. eru í sjálfu sér ekki annað en mjög ófullkominn rammi, sem síðan verður að fylla út í með kennslu og starfi. E. t. v. mætti stuðla að endurbótum þessum með breyt. á löggjöfinni en fyrst og fremst þarf að taka til breyttra skipulagshátta á þessu sviði. Ef till. þessi væri um, að endurskoða ætti fræðslul., gæti ég fylgt henni, en hún gengur lengra. Í henni er lagt til, að hæstv. ríkisstj. sé falið að gera tilteknar ráðstafanir, m. a. að stytta skólaskylduna. Þetta get ég ekki samþ. og lýsi því yfir andstöðu minni þegar á þessu stigi málsins.