10.12.1951
Efri deild: 40. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

17. mál, varnarsamningur

Frsm. minni hl. (Finnbogi H. Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. talaði ekki langt mál um þetta frv., og í því felst það, að hann leggur engan meginþunga á að andmæla nál. minni hl. Hann benti á það, að ég teldi í nál. mínu, að með samningi þessum væri sjálfstæði okkar stórlega skert.

Ég vakti sérstaklega athygli á því við 1. umr. málsins, að ég teldi þennan samning ekki gerðan að stjórnskipulegum hætti, með því að hér væri um að ræða fullkomið afsal á íslenzkum yfirráðarétti í hendur erlendu ríki, þar sem á vissum svæðum á Íslandi eiga að gilda útlend lög, þar sem íslenzk lög eiga annars að gilda samkvæmt ísl. stjórnskipunarlögum og almennum ísl. yfirráðarétti samkvæmt grundvallaratriðum þjóðaréttarins. Þetta er nefnt þjóðréttarleg kvöð, þegar annað ríki fer með yfirráðarétt á landi, þar sem önnur þjóð á yfirráðarétt, og það eru einmitt slíkar „kvaðir á landi eða landhelgi“, sem ræðir um í 21. gr. stjórnarskrárinnar.

Þó vildi hv. frsm. meiri hl. ekki mótmæla því, að yfirráð Íslendinga væru skert, þar sem amerísk lög ættu að ráða úrslitum á vissum svæðum á Íslandi; þó að íslenzk lög gildi þar að einhverju leyti. Víðast hvar hefur það nú verið lagt niður, að tvö ríki fari þannig með rétt í sama landi, og er staða Íslands að þessu leyti einna líkust því, sem nú er á Súezsvæðinu og í Marokkó og Súdan. Það er um þá samninga að segja, sem gilda um þau svæði, að voldug herveldi hafa neytt þessi ríki til þess að gera þessa samninga og afsala sér rétti í hendur herveldunum, sem þau telja sig hafa hag af og telja nauðsyn fyrir sig að hafa. Ég efast um, að nokkur vilji mótmæla því, að sjálfstæði þessara ríkja sé skert. Hitt er þó miklu alvarlegri hætta, sem í því felst, að erlendur her dveljist í landi undir því yfirskini að vernda sjálfsforræði þess og verja sjálfstæði þess og taki undir því yfirskini við öllum hervörnum þess. Með því er raunverulegt sjálfstæði lands og yfirráðaréttur skertur svo, að varla má meir verða. Það er sú hætta, sem við eigum nú að mæta, og þessi hætta var viðurkennd af öllum forráðamönnum okkar 1946 og þá haldið fram, að slíkt kæmi ekki til mála. Þá viðurkenndu þeir, að af þessu stafaði hætta fyrir sjálfstæði okkar og það mætti ekki koma fyrir. En ég vil halda því fram, að nú, þegar þeir eru komnir á þá skoðun, að þetta sé ekki hætta fyrir okkur, þá sé einmitt í því fólgin sérstök hætta. Ef það er þeirra skoðun, að nú sé ekkert sérstakt að óttast, af því að útilokað sé, að hinn erlendi her muni hafa áhrif á innanlandsmál okkar, þá segi ég, að það sé sérstakur háski á ferðum, að í því út af fyrir sig sé fólgin sérstök hætta. En það er svo að heyra nú á sumum formælendum þessa samnings, að ekkert sé að óttast. Þessi her sé kominn til að varðveita raunverulegt sjálfstæði okkar. Hins vegar hafa ýmsir aðrir þeirra viðurkennt, að nokkur hætta væri á ferðum, ef her dveldist í landinu, og að það væri jafnvel hætta fyrir sjálfstæði landsins. Og þeir hafa bent á. að þegar krafan um hersetuna kom fram, hafi það verið öllum ljóst, að dvöl erlends hers í landinu væri ósamrýmanleg sjálfstæði þjóðarinnar.

Hv. meiri hl. segir, að þessi samningur stafi af ákveðnum skuldbindingum, sem við höfum tekizt á hendur í Norður-Atlantshafsbandalaginu, og segir, að það hafi verið tekið fram í upphafi, að ekki væri um annað að ræða en varnarbandalag. Ég veit nú ekki nákvæmlega, hvaða skuldbindingar hv. meiri hl. á við í þessu sambandi. (JJós: Má ég skjóta því inn í, að Ísland hefur engan her.) Það var tekið fram af Íslands hálfu við undirskrift N.-Atlantshafssamningsins, að Ísland hafi ekki her og vilji engan her hafa, og þessi samningur er ekki afleiðing af þeim yfirlýsingum. Ég skil að vísu, hvers vegna hv. meiri hl. vill ekki ræða þau ákvæði N.- Atlantshafssamningsins, sem þessi samningur á að vera afleiðing af. Ég held, að það verði erfitt að benda á þær greinar. Ég hygg, að þar verði ekki fundnar þær skuldbindingar sem leiði af sér þennan samning. Ég hygg, að það verði ekki ráðið af þeim yfirlýsingum, sem gefnar voru, þegar sá samningur var gerður, af forustumönnum flokka hér á hv. Alþingi og af utanríkisráðherra í embættisnafni, að það hafi verið nein skylda fyrir Ísland að gera þann samning, sem hér liggur fyrir, sem afleiðingu af N.- Atlantshafssamningnum. Ég get skilið, hvers vegna hv. meiri hluti vill ekki minnast á þessar greinar og yfirlýsingar. Ég verð samt að gera ráð fyrir því, að allir viðurkenni, að það beri að skilja þann samning í ljósi þeirra yfirlýsinga, sem þá voru gefnar. Þær hafa sitt gildi, bæði réttarlega og pólitískt. Þegar sá samningur var gerður, fóru þrír af hinum íslenzku ráðherrum til Washington til að kynna sér, hvað hin einstöku ákvæði samningsins hefðu að þýða fyrir Íslendinga og hvaða skuldbindingar þeir tækjust með honum á hendur. Eftir að þessi för var farin, gaf hæstv. utanrrh. upplýsingar í útvarpsumr., og er ræða hans prentuð eftir handriti hans sjálfs. En hann segir svo um það, hvað niðurstöðurnar hafi að þýða, með leyfi hæstv. forseta:

„Í Washington ræddum við ýtarlega hlut Íslands í þessum samtökum, ef til kæmi, o? skýrðum rækilega sérstöðu landsins. Við tókum fram, að Ísland hvorki hefði né gæti haft eigin her og mundi þess vegna hvorki geta né vilja fara með hernað gegn nokkurri þjóð, jafnvel þótt á þá yrði ráðizt. Ekki komi heldur til mála, að útlendur her fengi að hafa aðsetur á Íslandi á friðartímum né yrðu þar leyfðar erlendar herstöðvar.“

Þannig lögðu þessir þrír ráðherrar þetta fyrir utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Og hæstvirtur utanrrh. heldur áfram:

„Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Dean Acheson, tók berum orðum fram, að ríki, sem aldrei hefði haft her, mundi ekki þurfa að hafa hann samkv. samningnum. Hann sagði og, að ljóst væri, að ekki kæmi til mála, að neitt samningsríki óskaði að hafa her í öðru þátttökuríki á friðartímum eða herstöðvar.“

Hæstv. ráðh. dregur svo að lukum fram niðurstöðurnar af þessum viðræðum:

„Í lok viðræðnanna var því lýst yfir af hálfu Bandaríkjanna:

1. Að ef til ófriðar kæmi, mundu bandalagsþjóðirnar óska svipaðrar aðstöðu á Íslandi og var í síðasta stríði og að það mundi algerlega vera á valdi Íslands sjálfs, hvenær sú aðstoð yrði látin í té.

2. Að allir aðrir samningsaðilar hefðu fullan skilning á sérstöðu Íslands.

3. Að viðurkennt væri, að Ísland hefði engan her og ætlaði ekki að stofna her.

4. Að ekki kæmi til mála, að erlendur her eða herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum.“ Í þessari frásögn koma fram höfuðatriði í viðræðunum, sem fóru fram vestra. Hv. meiri hl. bendir ekki á þær gr. Atlantshafsbandalagssamningsins, sem hann telur felast í skuldbindingar til að gera slíkan samning sem þennan. Það er nú víst, að það eru ekki margar greinar, sem geta komið til mála í því sambandi. Í 5.–7. gr. er gert ráð fyrir því, að verði ráðizt á einhvern aðilann í bandalaginu, þá komi skuldbindingar, sem sérstaklega eru nefndar, til greina. En nú er það víst, að það hefur ekki til þessa dags, síðan samningurinn var gerður, verið gerð árás á bandalagsaðila, og því koma skuldbindingar samkvæmt 5.–7. gr. ekki til greina í þessu tilfelli. Af öðrum gr. samningsins geta þá ekki komið til athugunar í þessu sambandi nema 3. gr. í sambandi við 9. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, hvernig málum skuli hagað á friðartímum, en í öllum samningnum er gert ráð fyrir, að friðartímar séu þangað til einhver bandalagsaðilanna hefur orðið fyrir árás. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Mér þykir miklu miður, að hæstv. utanrrh. og hv. frsm. meiri hluta n. eru hér ekki viðstaddir. (Forseti: Þeir voru hér báðir, þegar ég frestaði fundinum.) Mér skildist á hæstv. utanrrh., að hann vildi hlusta n mína ræðu og svara henni, svo að ég vildi spyrja, hvort þessir hv. þm. væru hér í húsinu, svo að hægt væri að koma til þeirra orðum, hæstv. utanrrh. og hv. frsm. meiri hluta n.

Ég hafði hugsað mér við þessa umr. málsins að ræða fyrst og fremst meginákvæði þessa samnings og einstök atriði hans. En það er nú svo að í samningnum sjálfum er í forsendum vikið að þeim ástæðum, sem taldar eru þar að hafi verið fyrir því, að hann var gerður. Og í nál. meiri hlutans var einnig, eins og ég gat um í upphafi máls míns, vikið að því, að þessi samningur væri eðlileg afleiðing af því, sem fram var tekið í upphafi, þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið, eins og þar segir. Ég vildi því rifja upp það, sem fram var tekið, þegar þessi samningur var gerður, og spyrja hv. meiri hluta n., hvaða ákvæði eða greinar Atlantshafssamningsins það væru, sem hann ætti við, þegar hann t.d. talaði um, að með þátttöku sinni í Atlantshafsbandalaginu hefðu Íslendingar tekið á sig ákveðnar skyldur, sem beint leiða til þessa samnings.

Ég get, á meðan ekki næst til þeirra hv. þm., sem ég tala hér til og mun tala til, rifjað upp, hvar ég var kominn í minni röksemdafærslu um þessi atriði. Ég sýndi fram á, að það gæti ekki verið 5. og 6. gr. Atlantshafssamningsins, sem hér væri átt við, því að þær greinar voru hvorki í maí 1951 né eru í dag komnar til framkvæmda. En einmitt í þeim liggur skilgreining á því, hvað það er, sem skilur á milli friðartíma og ófriðartíma, því að þar er skarplega skilið á milli í ákvæðum samningsins. Skuldbindingar koma þá fyrst til greina samkvæmt 1. grein þessa samnings, að tilefnislaus árás hafi verið gerð á einhvern samningsaðilann. Ég hafði rakið það, hvaða skýringar fylgdu ákvæðum þessa samnings yfirleitt af hálfu þeirra stjórnmálamanna, sem stóðu að því að gera hann, þeirra ráðherra, sem tóku sér ferð á hendur til Washington til þess að fá upplýsingar um, hvaða hugsanlegar skuldbindingar Íslendingar sérstaklega tækju á sig eftir að hafa gengið í bandalagið. Ég hafði þegar lesið yfirlýsingar hæstv. utanrrh. um það, hvaða árangurs þessi rannsóknarför hinna þriggja ráðherra hefði leitt til. En þær yfirlýsingar voru veittar af sjálfum utanrrh. Bandaríkjanna, ekki aðeins fyrir hönd Bandaríkjanna, heldur fyrir hönd allra væntanlegra samningsaðila að þessum samningi. — — - Herra forseti! Hefur ekki tekizt enn að ná til hv. frsm. meiri hlutans að minnsta kosti? (Forseti: Það er upplýst, að hann er ekki í húsinu og ekki hæstv. utanrrh. heldur, en ég hef gert ráðstöfun til þess að láta þá vita.

Ég kem hér að atriði, sem ég álít, að skipti höfuðmáli, þegar rætt er um þetta mál. (Forseti: Ég skal gjarnan gefa fundarhlé í 5 mín. Þá ættu þeir að geta verið komnir. Á hinn bóginn get ég ekki komið þeim hingað nauðugum.) — [Fundarhlé.]

Ég þóttist hafa sýnt fram á það, að ef leitað væri að því, hvaða greinar Atlantshafssamningsins það væru, sem leitt gætu til skyldu til þess fyrir Íslendinga að gera þennan nýja samning, þá gætu það að minnsta kosti ekki verið 5. og 6. gr. samningsins, sem hefðu orðið tilefni eða forsenda þessa varnarsamnings, þ.e.a.s. að samningsaðilar, einn eða fleiri, hefðu orðið fyrir tilefnislausri árás. Það hefur ekki átt sér stað enn. Og það kemur ekki til mála, að það hafi verið vegna þess, sem í þessum greinum felst, að þessi samningur hafi verið gerður eða að fram á það hafi verið farið með tilvísun til þessara greina, að hann yrði gerður.

Þá get ég ekki séð, að um aðrar greinar sé að ræða í þessu efni en 3. gr. N.- Atlantshafssamningsins, sem sé hugsanlegt tilefni til þessa samnings. En hún er svo hljóðandi:

„Í því skyni að ná betur markmiðum samnings þessa munu aðilar, hver um sig og í sameiningu, með stöðugum og virkum eigin átökum og gagnkvæmri aðstoð varðveita og efla möguleika hvers um sig og allra í senn til þess að standast vopnaða árás.“

Það var þessi grein samningsins, sem var tilefni til þess, að margir óttuðust það og beittu sér gegn því, að Íslendingar gerðust aðilar að þessum samningi. Töldu þeir, að í henni gæti falizt það, að þess kynni að verða krafizt af Íslendingum á friðartímum, — þ.e.a.s., eins og ég sýndi fram á áðan, áður en 5. og 6. gr. kæmu til framkvæmda, — að Íslendingar tækju við her eða herstöð í landinu. En það var áður rætt mál hér á landi, fullupplýst og alkunnugt, að fram á það hafði veríð farið af Bandaríkjunum árið 1945. En nú vill svo til, að einmitt hæstv. utanrrh. skýrði sérstaklega þessa grein samningsins í umræðum um samningsgerðina 1949. Ég vil því leyfa mér að minna á skýringar hans einmitt á þessari grein, og hann sagði svo í sinni ræðu, með leyfi hæstv. forseta:

„Menn eru að tala um það hér, að samkvæmt þessari grein væri hægt að skylda okkur til þess gegn vilja okkar að hafa erlendar herstöðvar, erlendan her og jafnvel að vígbúast sjálfir. Því er haldið fram, að aðrir gætu skipað okkur að gera þetta samkvæmt þessari grein. Nú er þessi grein auðvitað ekki samin með okkur fyrir augum. Hún er samin með allt annað fyrir augum. Hún er fyrst og fremst samin með það fyrir augum, að samkvæmt henni eiga Bandaríkin að láta öðrum þjóðum í té vopn og aðra aðstoð.“

Og síðan heldur hæstv. ráðh. áfram að sýna fram á, hver fjarstæða það væri, að Bandaríkin létu smáríkin í bandalaginu skylda sig til eins eða annars samkvæmt þessari grein. Og hann segir:

„Enda hafa þeir aldrei hugsað sér neitt því líkt, vegna þess að jafnvel þótt litið sé á 3. greinina eina, þá er það greinilegt, þegar gætt er venjulegra lagaskýringa og þess, að samningurinn er gerður milli fullvalda ríkja, að hvert ríki hefur úrslítaákvörðunarvald um það, sem það lætur í té samkvæmt henni.“

M.ö.o., það er ekki hægt að skylda neitt ríki samkvæmt þessari grein til þess að láta eitt eða annað í té. Og hann segir, eins og rétt er, að þessa grein verði að skýra í sambandi við 9. gr. samningsins, sem er um nýja stofnun, Atlantshafsbandalagsráðið, og hann heldur áfram:

„Þarna segir berum orðum, að þessi samkoma má eingöngu gera till., — og til hverra gerir hún till.? Til hinna einstöku ríkja, sem hvert um sig hefur úrslitaráðin varðandi það efni, sem það ríki snertir eða á að láta í té. Til viðbótar þessu, sem er alveg ótvírætt, þá spurðum við ýtarlega um þetta, og af hálfu bandalagsríkjanna var því lýst yfir og lögð áherzla á, að samkvæmt þessari grein væri fyrst og fremst um siðferðilega yfirlýsingu að ræða, þess efnis, að ríkin vildu standa saman, en jafnframt væri gengið út frá því, að hver aðili gerði það, sem hann gæti, eftir því sem sanngjarnt mætti teljast. Ef hins vegar væri neitað um aðstoð, gætu hin ríkin ekkert gert við því frá lagalegu sjónarmiði, og væri t.d. ljóst, að ekki væri hægt að bera málið undir dómstól, og í því sambandi var svo sérstaklega tekið fram, að það yrði ekki talið sanngjarnt að krefjast þess af Íslendingum, að þeir létu í té her og herstöðvar á friðartímum eða vígbyggjust sjálfir.“

Og hann heldur áfram: „3. gr. skýrir sig auðvitað sjálf í augum þeirra manna, sem kunna að skýra samninga. Hún verður enn þá ótvíræðari, þegar hún er borin saman við 9. gr., en eftir þau samtöl, sem átt hafa sér stað, og þær ótvíræðu yfirlýsingar, sem við höfum gefið, — og þær ótvíræðu yfirlýsingar, sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur gefið og hans aðstoðarmenn, — allir í embættisnafni og í nafni allra bandalagsþjóðanna, — þá er það svo ótvírætt sem frekast er unnt, að þess verður aldrei óskað af Íslendingum, að þeir stofni eigin her, að þeir vígbúist, að þeir hafi erlendan her hér á friðartímum eða þeir hafi erlendar herstöðvar hér á fríðartímum.“

Ég veit ekki, hvernig ætti að skýra þessa grein skýrar og afdráttarlausar á þann veg, að samkvæmt henni verði aldrei hægt að fara þess á leit við Íslendinga, að þeir hafi herstöð hér í landinu. Hæstv. ráðh. skýrði frá því, að þessi yfirlýsing hafi verið gefin af utanrrh. Bandaríkjanna, ekki aðeins í nafni Bandaríkjanna, heldur fyrir hönd allra samningsríkjanna. Hér er því um viðbótarsamkomulag eða samning að ræða milli þeirra og Íslands um skilning á þessari grein, að því er Ísland snertir. Það getur því ekki verið, að af þessari grein hafi í maí 1951 leitt neina skyldu til þess fyrir Íslendinga að gera þennan samning, sem hér liggur fyrir og felur í sér það, að Íslendingar taki við erlendum her. Og hér er alltaf tekið fram, að það eigi við friðartíma. Eins og ég hef sýnt fram á, þá getur orðið „friðartími“ ekki þýtt annað ástand í þessum samningi en það, sem er, þangað til 5. og 6. gr. koma til framkvæmda. Þangað til er að skilningi þessa samnings friðartími, friðartími á Atlantshafssvæðinu öllu, — þangað til eitthvert ríki á því svæði hefur orðið fyrir tilefnislausri árás. Það kemur ekki þessu máli við, hvort friður er alls staðar í heiminum á sama tíma, því að ófriður annars staðar í heiminum utan Atlantshafssvæðisins er ríkjum Atlantshafssvæðisins óviðkomandi og leiðir ekki neina skuldbindingu af sér samkvæmt þeim samningi. Það leiðir af sjálfu sér, að stríðið í Kóreu og Japan, þó að það hefði breiðzt út og Bandaríkin hefðu átt hlut að því og allt logaði í stríði í Austur-Asíu, þá hefði það ekki leitt til þess, að ófriðartímar væru komnir á Atlantshafssvæðinu samkvæmt ákvæðum Atlantshafssamningsins.

Ég get því ekki séð, að það fái staðizt, sem hv. meiri hluti n. heldur fram, að í Atlantshafssamningnum séu nokkrar skyldur, sem hafi leitt af sér það, að Íslendingar þyrftu að undirgangast slíkan samning sem hér liggur fyrir, jafnvel þótt fram á það hafi verið farið af Atlantshafsráðinu. Þannig að ég álít, að hað hefði verið sjálfsagt af forsvarsmönnum Íslendinga að vísa þá Atlantshafsráðinu, ef það hefði farið fram á slíkt, á þær yfirlýsingar, sem ég las áðan eftir hæstv. utanrrh. og hann hafði eftir sjálfum utanrrh. Bandaríkjanna fyrir hönd allra bandalagsríkjanna. En hv. forkólfar þessa samnings hafa sagt og í samningnum sjálfum er sagt, ekki að það sé ófriðartími, heldur að það sé „tvísýnt útlit“ í alþjóðamálum. En ef litið er á ástandið í alþjóðamálum í maí 1951 og það borið saman við ástandið í alþjóðamálum í apríl 1949, þegar þessi Atlantshafssamningur var gerður og leitað var eftir skýringum á skuldbindingum hans og þær fengnar, eins og ég hef rifjað upp, — var þá skuggalegra útlitið í alþjóðamálum árið 1951 heldur en 1949? Til hvers var Atlantshafsbandalagið stofnað? Það var talið nauðsynlegt að stofna til samtaka ríkjanna beggja vegna Atlantshafsins og sérstaklega í Vestur-Evrópu, vegna þess að í Vestur-Evrópu væru sama og engar varnir og að það ástand. að það væru ekki nema nokkrar herdeildir í Vestur-Evrópu, væri beinlínis freisting fyrir Austur-Evrópuríkin til þess að taka fyrirhafnalítið og á skömmum tíma þessi lönd. Og hvað hefur verið gert síðan? Það var að vísu svo 1949, að það virtist ekki vera gífurleg hætta 9 ferðum, því að það var ekki farið hart af stað, þar sem mestallt árið 1949 leið svo, að ekkert hafði verið gert. En siðan hefur verið unnið að því að koma upp fullbúnum herjum í Vestur-Evrópu og það svo, að nú í sumar lýsti einn æðsti fulltrúi Atlantshafsbandalagsins því yfir, eftir því sem stórblaðið Times hafði eftir honum og ég hef áður í umræðu hér á Alþingi nýlega sagt frá, að styrkleiki Atlantshafsríkjanna væri svo margfaldur og svo yfirgnæfandi miklu meiri orðinn nú í ágúst 1951 heldur en járntjaldsríkjanna og þeirra bandalagsríkja, eins og þar var komizt að orði, að það væri kominn tími til þess, að menn hættu að tala með hræðslu og móðursýki um þessi mál eins og menn gerðu stundum. M.ö.o., það er engin ástæða í þessum efnum til hræðslu. Styrkur þessara Atlantshafsríkja er svo mikill nú, að hættunni í VesturEvrópu á árás er fullkomlega afstýrt.

Ég gæti nefnt mörg ummæli hershöfðingja og ráðh. Atlantshafsríkjanna, sem mjög eru á þessa leið. Alveg nýlega rakst ég á ummæli í dönsku blaði eftir einum ráðh. úr brezku stjórninni, mjög mikils metnum ráðh., þar sem hann lýsir yfir, að hann telji ekki hættu á styrjöld næstu 10 ár, og telur enga ástæðu til að ætla, að kommúnistaríkin séu að undirbúa neina styrjöld. Þetta var sir Hartley Shawcross, viðskmrh. í Attlee-stjórninni. Á sömu lund tók amerískur hershöfðingi til orða einmitt sömu dagana og hv. alþm. hér hafa setið við að gera þennan samning á þeim forsendum, að nú væri einhver gífurleg styrjaldarhætta. Síðustu dagana í apríl mætti Mac Arthur frammi fyrir nefnd Bandaríkjaþings til yfirheyrslu vegna þess, elns og menn vita, að honum var víkið frá. Mestöll n. var á einu máli um, að það hefði verið rétt af þeim ástæðum, að það þótti hafa verið hætta á því, að hans herstjórn leiddi til styrjaldar í Asíu. Menn segja, að Kóreustríðið sé nýtt atriði síðan 1949, þegar N.-Atlantshafssamningurinn var gerður, og það sé ein ástæðan til þess, að þessi samningur hafi verið gerður, — eins og ég veit að hæstv. utanrrh. hefur bent á, — að það sé bein styrjöld í Asíu og þess vegna séu ekki friðartímar í heiminum. En ef rætt er um Kóreustyrjöldina, má t.d. taka til athugunar og samanburðar, hver styrjaldarhættan var í maí 1951 og í des. 1950, þegar Mac Arthur vildi hefja árás á nágrannalönd Kóreu. Þá — í des. 1950 — var talin svo mikil hætta á því, að það, sem hann gerði og vildi gera, leiddi til styrjaldar, að forsrh. Bretlands taldi rétt að fljúga til Washington til að láta Bandaríkjastjórn vita, að Bretland yrði ekki með í styrjöld, sem hlytist af slíku frumhlaupi. En það varð til þess, að Mac Arthur var vikið frá og þessi hætta á heimsstyrjöld, vegna Kóreustyrjaldarinnar, leið hjá. Ef þetta er tekið til athugunar, þá kemur í ljós, að sjaldan hefur verið friðvænlegra í heiminum síðan 1945 en einmitt í maí í vor, þegar mönnum varð orðið ljóst, að Kóreustyrjöldin — eina stríðið í heiminum — mundi lognast út af. Og eins og ég benti á áðan, þá hefur styrkur Atlantshafsríkjanna aldrei verið svo yfirgnæfandi, að því er sjálfur yfirhershöfðinginn álítur, og þess vegna ekki líkur til þess, að á þau verði ráðizt.

Ég veit, að það er auðvelt að koma af stað hræðslu, stríðshræðslu og móðursýki, svo að notuð séu orð hershöfðingjans. Það hefur verið gert á óskammfeilinn hátt í vissum blöðum hér á landi að ala á stríðsótta og móðursýki. Ég minnist þess, að haustið 1948 skrifaði rithöfundur eirin ferðasögu í ísl. blað um för sína til Englands. Hann lýsti því, hvernig hér hefðu allir verið skjálfandi af ótta við stríð, en þegar hann kom til Englands var eins og að koma í annan heim. Þar talaði enginn um stríðshættu.

Það væri hægt að benda á mörg ummæli í þá átt, að stríðshættan siðan 1945 er ekki mest nú. Það hefði mátt tala um hana 1947–48.

Það er alveg víst, að það var ekki af neinni sérstakri, yfirvofandi stríðshættu, að þessi samningur var gerður. En það var önnur hætta yfirvofandi. Það var hætta á því að Keflavíkursamningurinn félli úr gildi. Í gær birtist í Morgunblaðinu smáfrétt þess efnis, að nú væri í Þýzkalandi allt undirbúið undir það að fella hernámsreglugerðina amerísku þar úr gildi. Þegar þetta átti að gerast, þá átti Keflavíkursamningurinn að falla úr gildi samkvæmt ákvæðum hans. Það var forsendan fyrir honum, að hann gilti meðan á Bandaríkjunum hvílir skylda til herstjórnar og eftirlits í Þýzkalandi. Þegar hann var gerður, þá var ekki gert ráð fyrir því, að það ástand, að Bandaríkin hefðu herstjórn í Þýzkalandi, héldist lengur en þau 61/2 ár, sem gert er ráð fyrir að samningurinn gildi. Ef honum væri sagt upp, eins og gert var ráð fyrir í uppsagnarákvæðum hans, þá gat hann falli ð úr gildi snemma á árinu 1953. En hann hefði fallið úr gildi hvenær sem hernámsreglugerðin í Þýzkalandi er felld úr gildi, og þetta vissu Ameríkumenn í fyrrasumar, því að þeir höfðu stefnt að því um nokkurn tíma að láta hernám Þýzkalands af þeirra hálfu falla niður og lofa Þjóðverjum sjálfum að koma upp her að einhverju leyti. Þetta var hin yfirvofandi hætta frá sjónarmiði Bandaríkjanna. Þess vegna þurfti að hafa til samning við Ísland um hernaðarafnot af Íslandi, sem kæmi í stað Keflavíkursamningsins. Ég veit ekki, hvað þingmönnunum 43, sem mættu á fundi hér í vor út af þessum samningi, hefur verið sagt um yfirvofandi stríðshættu eða um yfirvofandi hættu á árás á Ísland í byrjun þess stríðs, ef til stríðs kæmi. En ég efast um, að þeim hafi verið sagt neitt um það, að það gæti komið til þess, að Keflavíkursamningurinn félli niður.

Ef litið er á þennan samning í meginatriðum, þá held ég, að enginn muni neita því, að með honum sé Bandaríkjunum veitt svipuð aðstaða á Íslandi eins og þau höfðu með herverndarsamningnum 1941. Einmitt þessi orð voru notuð af hæstv. utanrrh. í sambandi við þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu 1949. Það var vitanlega ekki gerður um það samningur, en hann komst svo að orði í yfirlýsingu hér á Alþ., að það væri fastmælum bundið, að ef til ófriðar kæmi, þá fengju Bandaríkin svipaða aðstöðu eins og þau hefðu haft í síðustu styrjöld, þ.e., að þá kæmi væntanlega samningur, sem veitti þeim svipaða réttarlega aðstöðu, en aðeins ekki fyrr en ófriður væri skollinn á. En í þessum samningi sjálfum er gert ráð Fyrir því, að þessi aðstaða verði veitt þegar og hvenær sem þau atvik verða, sem gert er ráð fyrir í 5.–6. gr. Atlantshafssamningsins, þ.e.a.s., ef ófriðarástand kemst á af þeim sökum, að einhver samningsaðili hefur orðið fyrir árás. Það sést ekki annað af þessum samningi en hann eigi að gilda þegar til styrjaldar kæmi og hann sé því að öllu leyti sambærilegur við herverndarsamninginn frá 1941. Bæði af 7. gr. þessa samnings, þar sem það er ákveðið, að hann gildi hvenær sem kæmi til ófriðarástands vegna Atlantshafssamningsins, jafnvel þótt Bandaríkin hafi áður farið með her sinn af landinu, og síðast í greinum viðbótarsamningsins, þar sem talað er um tjón, sem hljótist beinlínis eða óbeinlínis af Bandaríkjaliði í orrustu, virðist mega draga þá ályktun, að þessi samningur eigi ekki aðeins að gilda á friðartímum, heldur einnig ef til ófriðar kæmi. Því ætti að vera heimilt að bera hann saman við herverndarsamninginn frá 1941.

Efni herverndarsamningsins frá 1941 var í fáum greinum, og honum fylgdi ekki svo nákvæmur samningur eins og viðbótarsamningurinn, sem fylgir þessum samningi. En ég verð þó að efast um, að með þessum samningi séu betur tryggðir hagsmunir Íslands og Íslendinga heldur en með herverndarsamningnum. Herverndarsamningurinn var þó gerður á stríðstíma og að vissu leyti með nauðung, a.m.k. var það upplýst, að sumir forráðamenn Íslands á þeim tíma hafi þótzt mjög nauðugir til að gera hann. En 5. gr. hans var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Bandaríkin taka að sér varnir landsins Íslandi að kostnaðarlausu og lofa að bæta hvert það tjón, sem íbúarnir verða fyrir af völdum hernaðaraðgerða þeirra.“

En í 2. gr. þessa samnings, sem hér liggur fyrir, segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ísland mun afla heimildar á landssvæðum og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að í té verði látin aðstaða sú, sem veitt er með samningi þessum, og ber Bandaríkjunum eigi skylda til að greiða Íslandi, íslenzkum þegnum eða öðrum mönnum gjald fyrir það.“

Í herverndarsamningnum var lofað að bæta hvert það tjón, sem íbúarnir yrðu fyrir, og allar athafnir Bandaríkjahers á Íslandi skyldu vera Íslandi að kostnaðarlausu. Skv. þessum samningi er þessu alveg snúið við. Nú skal allt þetta Bandaríkjunum að kostnaðarlausu.

Í 3. gr. herverndarsamningsins er því lofað, að Bandaríkin hlutist ekki til um stjórn Íslands, hvorki meðan herinn er í landinu né síðar, og í viðbótarsamningi við þann samning er þetta tekið fram eins afdráttarlaust eða enn þá afdráttarlausar. Þar segir: „og með þeim fulla skilningi, að amerískt herlið eða sjóher, sem sendur er til Íslands, skuli ekki á nokkurn hinn minnsta hátt hlutast til um innanríkismálefni íslenzku þjóðarinnar.“

Í b-lið 1. gr. viðbótarsamningsins við varnarsamninginn eru tilsvarandi ákvæði. Þar segir: „Liði Bandaríkjanna og skylduliði liðsmanna á Íslandi ber að virða íslenzk lög og hafast ekkert það að, sem fer í bága við anda þessa samnings, og einkum skulu þeir forðast að hafa nokkur afskipti af íslenzkum stjórnmálum.“ — Liðsmenn og skyldulið þeirra skal forðast að hafa afskipti af íslenzkum stjórnmálum, en ekkert sambærilegt ákvæði er um það, að Bandaríkin sjálf og herstjórnin lofi að hlutast ekki á nokkurn minnsta hátt til um innanlandsmál Íslands.

Samanburður á þessum samningum gefur líka góða hugmynd um það, að samningsaðstaðan virðist hafa verið erfiðari nú í maí 1951 heldur en í miðju stríðinu 1941.

Í 4. gr. herverndarsamningsins skuldbinda Bandaríkin sig til þess að styðja hagsmuni Íslands á allan þann hátt, sem í þeirra valdi stendur. Ef nú er gengið út frá því, að þessi samningur og viðbótarsamningur, sem gerður var í maí í vor, eigi einnig að gilda á ófriðartímum, þá held ég, að það finnist ekki í honum neitt sambærilegt ákvæði þessu. En á þetta ákvæði herverndarsamningsins frá 1941 var lögð sérstök áherzla t.d. af atvmrh. þáverandi, Ólafi Thors, þegar flokksmenn hans á þingi 1941 létu í ljós vissa andstöðu við herverndarsamninginn. Og þetta væri vissulega höfuðatriði, ef þessi samningur á að gilda á stríðstímum eins og herverndarsamningurinn gerði 1941.

Í 4. gr. herverndarsamningsins skuldbundu Bandaríkin sig til þess að haga vörnum landsins þannig, að þær veiti íbúunum eins mikið öryggi og frekast er unnt og að þeir verði fyrir sem minnstum truflunum af völdum hernaðaraðgerða, og séu þær gerðar í samráði við íslenzk stjórnarvöld að svo miklu leyti sem mögulegt er. En í hinum nýja herverndarsamningi eru engin ákvæði um það, að herstjórn Bandaríkjanna sé skyldug til að taka tillit til óska íslenzkra stjórnarvalda um tilhögun hervarna, þar eru engin ákvæði um, að hervörnum skuli haga i samráði við íslenzk stjórnarvöld. En þetta er í mínum augum mjög mikið atriði, og skal ég koma að því í sambandi við brtt. mínar.

1. gr. herverndarsamningins frá 1941 er um það, að Bandaríkin skuldbindi sig til að hverfa héðan undireins og ófriðnum er lokið. Ef þessum nýja samningi er ætlað að gilda, eins og hann vafalaust mun gera, bæði í friði og ófriði, þá er uppsagnarákvæði hans á engan hátt sambærilegt við þetta, því að af því verður ekki annað ráðið en það, að þó að Íslendingar vildu segja upp samningnum í styrjaldarlok. þá yrði að bíða a.m.k. 18 mánuði eftir því, þangað til að hann félli úr gildi. Það yrði enn fremur að bíða eftir því, að ráð Atlantshafsbandalagsins gerði till. um það, hvort þessi samningur mætti falla úr gildi. — Það ber svo undarlega við, að þetta ákvæði — uppsagnarákvæði þessa samnings — er nærri því samhljóða ákvæði í samningi, sem gerður var milli Bretlands og Egyptalands 1936, þar sem var um að ræða herstöðvar við Súez. Þar var hliðstætt ákvæði, nema að því breyttu, að það atriði, að ef aðili óskaði endurskoðunar þess samnings, átti að bera það undir ráð Þjóðabandalagsins, hvort ástæða væri til þess, að Egyptar tækju við yfirráðum í sínu landi. Sá samningur hefur verið skýrður af Bretum á þann hátt, að vitanlega haldi samningurinn áfram og það bandalag, sem með honum var stofnað, jafnvel þó að ráð Þjóðabandalagsins, sem Egyptaland var tekið í, mælti með því eða teldi ástæðu til að endurskoða samninginn, af því að þetta bandalag og samstjórn Breta og Egypta á þessu svæði væri ekki háð samþykktum Þjóðabandalagsins. Ef ráð Atlantshafsbandalagsins teldi nú ekki rétt, að þessi samningur félli niður, mundu þá þeir menn, sem hafa komið Íslandi í Atlantshafsbandalagið, telja ráðlegt, að það væri farið gegn till. ráðs þess bandalags? En hvað er ráð Atlantshafsbandalagsins? Eins og ráð Þjóðabandalagsins var fyrst og fremst Bretland, þá er ráð Atlantshafsbandalagsins fyrst og fremst Bandaríkin. Ef þau telja ekki ráðlegt, að ameríski herinn fari af Íslandi, þá er ólíklegt, að ráð Atlantshafsbandalagsins geri till. um það, að svo skuli vera, svo að ég held, að með því uppsagnarákvæði, sem fylgir þessum samningi, þá geti hann orðið nokkuð langær og nokkuð torsótt að komast undan honum. En það er, eins og við andstæðingar þessa samnings höfum bent á í nál., alkunnugt, að Bandaríkin hafa árum saman talið það sína hagsmuni að hafa herstöðvar á Íslandi. Það er sú staðreynd, sem við þurftum að gera okkur ljósa, þegar er þær kröfur komu fram, að það yrði erfitt að standa á móti þeim. Þegar Bandaríkin gerðu slíkar kröfur til Íslands árið 1945 og héldu því fram, að það væri þeim nauðsynlegt að hafa hér herstöðvar, þá var það mín sannfæring, að þau mundu ekki hverfa fljótt frá þeim kröfum né láta þær niður falla. Úr því að þau dirfðust að láta það í ljós frammi fyrir heiminum, að þau vildu fá hér herstöðvar í 100 ár, á sama tíma sem þau áttu skv. gerðum samningum að vera horfin burt af Íslandi með her sinn frá stríðsárunum, þá var augljóst, að hershöfðingjar Bandaríkjanna teldu nauðsynlegt, hvað sem það kostaði, að fá því framgengt, að Bandaríkin fengju herstöðvar hér, og mundu ekki fljótlega hverfa frá þeirri kröfu. Það er þetta, sem verið er að gera, og það verður ekki horfið frá því í bráð. Það eru ekki nema 6 ár síðan kröfur komu fram um þetta, og það er enn unnið að því í Bandaríkjunum með ýmsum ráðum að hafa herstöðvar á Íslandi í friði og ófriði, næstu 100 árin, vegna þess að herveldi, sem telur það bráðnauðsynlega hernaðarlega hagsmuni sína að hafa herstöðvar í einu landi, er ekki strax horfið frá því. Allar líkur benda til þess, að Bandaríkin haldi áfram að vera þeirrar skoðunar, að herstöðvar á Íslandi séu þeim nauðsynlegar. Þetta er sú staðreynd, sem við þurfum að gera okkur ljósa og sameinast um að standa gegn, því að í mínum angum er það ekki aðeins sú hætta, sem af veru herliðsins sjálfs stafar um skemmri tíma, sem er aðalhættan í þessu sambandi, heldur hitt, að stórveldi telur sér nauðsynlegt um langan, ófyrirsjáanlegan, ókominn tíma að hafa tök og völd í þessu landi vegna sinna hagsmuna.

Ég vil nú fara nokkrum orðum um þær brtt., sem ég hef flutt, en ég tel þær svo ljósar, að þær þurfi varla skýringar við.

Fyrri till. er um það, að samningssvæðin verði ákveðin að lögum. Það er ótækt, að þessi svæði skuli ekki vera tiltekin í samningnum. Ég tel það sjálfsagt, að það sé Alþ., en ekki ríkisstj., sem ákveður, hvar íslenzk lög skuli gilda og ekki gilda á Íslandi, og ég tel, að á friðartímum þurfi það ekki að vera neitt hernaðarleyndarmál, hver þessi svæði eru. Það mætti kannske segja, að á ófriðartímum væri ástæða til þess, en alls ekki nú.

Önnur brtt. mín felur í sér, að það verði skýrt tekið upp í samninginn, að ekki verði undir neinum kringumstæðum gerðar árásir að fyrra bragði frá Íslandi. Ég stend í þeirri trú, að það sé tvímælalaust vilji íslenzku þjóðarinnar, að Ísland verði ekki notað til árása. Ég er reiðubúinn að viðurkenna, að á meðan Ísland hélt uppi hlutleysi, sem ég tel og hef alltaf talið langæskilegast, þá breyttust viðhorf manna, þegar árásir voru gerðar á skip hlutlausra ríkja, og menn komust á þá skoðun, að hin hlutlausu ríki hefðu leyfi til að leita til varnaraðila til að halda uppi nauðsynlegum samgöngum. Ég tel því, að um árás sé að ræða, ef ráðizt yrði á íslenzk skip eða loftför fjarri heimalandi sínu, þar sem þau eru í löglegum erindagerðum.

Síðasta hluta síðari till. minnar tel ég langþýðingarmestan, en þar segir: „Flugárásir á önnur lönd með kjarnorkuvopnum er með öllu óheimilt að gera frá Íslandi, nema landið hafi áður orðið fyrir slíkri árás.“ Það er kunnugt, að hernaðaráætlun Atlantshafsbandalagsins byggist að sumu leyti á kjarnorkuárásum með flugvélum til annarra landa. Ég álít það því ekki tilefnislaust, að slík till. komi fram, né ástæðulaust, að þetta komi fram í samningnum. Það er kunnugt, að Bandaríkjamenn hafa í Bretlandi stöðvar, sem þeir ætla til kjarnorkuárása, en nú eru uppi miklar kröfur um það í Bretlandi, að Bretar búi svo um, að þeir geti bannað árásir frá þessum stöðvum, vegna þess að þeir óttast, að ef þær yrðu notaðar til árása, þá kalli þær árásir í sömu mynt yfir Bretland. Það er því enn ríkari ástæða en ella að fá þetta ákvæði inn í samninginn, því að ef svo færi, sem allt útlit er fyrir, að Bandaríkjamönnum yrði bannað að gera kjarnorkuárásir frá stöðvum í Bretlandi, þá liggur það beinast við, að þeir fái augastað á Íslandi.

Að síðustu vil ég benda á það, að þessar till. eru í fullu samræmi við yfirlýsingu ríkisstj. þegar samningurinn var gerður, þar sem lýst var yfir, að hér væri eingöngu um varnarsamning að ræða og stöðvar hér yrðu aðeins notaðar í varnarskyni. Ég álít því, að þetta megi koma inn í frv. sjálft, því að ég get ekki séð, að neinn hafi á móti því, að það, sem aðilar eru sammála um, komi inn í samninginn.

Ég vona svo, að hv. þdm. taki ekki á sig þá ábyrgð að fella till. mínar.