02.11.1951
Sameinað þing: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í D-deild Alþingistíðinda. (3381)

58. mál, fræðslulöggjöfin

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mér skilst, að megintilgangur hv. flm. með þessari till. sé að stytta eða afnema skólaskylduna á framhalds- og unglingastigi og stytta a. m. k. um eitt ár skólaskylduna á barnafræðslustigi og stytta skólaárið í barnaskólum um einn mánuð eða svo á ári. Þetta þrennt skilst mér, að endurskoðunin eigi að styðjast við.

Hv. flm. talaði um, að það væri nauðsynlegt að létta af þeirri þvingun, sem fylgdi skólaskyldunni. Vitanlega yrði henni ekki aflétt, þó að þessar breytingar yrðu gerðar. Skólaskyldan var lögleidd hér á landi 1908 og var frá 10–14 ára aldurs. Átti hún að tryggja öllum íslenzkum þegnum lágmarksþekkingu, sem allir, ríkir jafnt sem snauðir, áttu að öðlast. Svo hafa breyt. verið gerðar, eftir því sem kröfurnar hafa aukizt, og þær hafa gengið í þá átt að lengja skólaskylduna, en ekki stytta. Með l. frá 1926 var hún færð úr 10 ára aldri niður í 8 ára aldur og heimilað að færa hana niður í 7 ára aldur, og gerðu það nokkur bæjarfélög.

Með l. frá 1946 gerðist það, að skólaskylda barnaskólastigsins var stytt um eitt ár, en jafnframt var hún látin ná til tveggja ára unglingastigsins. Skólavistin lengdist þannig um einn vetur. Í stað þess, að börnin voru áður 7 ár í barnaskóla, eru þau nú 6 ár þar, en síðan tekur við tveggja ára unglingastig. Þetta er bein afleiðing af því, að 1946 var talið, að skólaskyldan, eins og hún var þá, tryggði ekki þá lágmarkskunnáttu, sem krefjast yrði. En reynslan af skólaskyldunni frá 7 til 15 ára er stutt og í molum. Það var heimilað að byrja í febr. 1946 og átti að koma henni í framkvæmd á árunum 1946–53. Framkvæmdir hafa þó orðið seinni. Það voru bara tveir skólar, sem hófu framkvæmdir strax, Gagnfræðaskóli Ísafjarðar og Gagnfræðaskóli Akureyrar. Þessir skólar eru fjögurra ára skólar, og nemendur, sem notið hafa þar náms, eru því nú rétt komnir upp. Fyrsti árgangurinn yfirgaf skólann á s. l. vori. Í öllum öðrum skólum eru nemendur á leiðinni, og enginn árgangur hefur verið útskrifaður. Í mörgum kaupstöðum hefur þetta ekki verið framkvæmt enn, ég held t. d., að það hafi ekki verið gert í Vestmannaeyjum, nema það sé nú gert í fyrsta sinn í vetur. Og nú í haust er hér verið að gera fyrstu tilraunirnar með verknám, og eru það á annað hundrað nemendur, sem fara í þetta verklega nám.

Ég held því, að það sé of fljótt að hrófla við þessu nú. Þó að okkur sé öllum illa við þvingun, er þörf á einhverri skólaskyldu, um það eru væntanlega allir sammála, þótt deila megi um, hve löng hún skuli vera. En ef það er alvara, að verkmennta eigi æskulýðinn, tel ég, að það eigi að fara fram á skyldutímanum. Ef afnema á námsskyldu í unglingaskólunum, yrði því verknámið að fara fram í efstu bekkjum barnaskólanna.

Ég hef fengið nokkra reynslu í þessum málum við minn skóla frá því 1947. Það var að vísu svo, að flestallir voru í gagnfræðaskólanum meðan það var frjálst; þeir, sem ekki voru þar, voru innan við 10%, en nú eru þeir líka með. Nemendur geta valið milli verknámsdeildar og bóknámsdeildar. Árgangarnir eru flestir í þremur deildum, og reynslan hefur orðið sú, að tvær þeirra eru verknámsdeildir, en ein bóknámsdeild. Það er því þannig nú, að 3/4 fara í verknámsdeild, en 1/4 í bóknámsdeild. — Ég held, að það sé rétt að bíða, þangað til frekari reynsla er fengin í þessum efnum frá fleiri stöðum.

Það má vera, að annað gildi um sveitirnar, þar sem æskulýðurinn fær tækifæri til verknáms utan skólanna. Þar þarf ekki heldur að vernda unglingana frá iðjuleysi, og er ekki svo ástatt, að unglingarnir eigi flesta vetur ekki kost á neinum störfum. Ef til vill væri það rétt, að um þetta væru tvenn lög, ein lög fyrir þéttbýlið og önnur fyrir sveitir. Ég held þó, að það sé fljótræði að endurskoða fræðslul. nú og afnema námsskylduna í unglingaskólunum. Enn hefur þetta ekki verið reynt að fullu nema á tveimur stöðum. Alls staðar annars staðar er ekki byrjað að framkvæma l. eða það hefur aðeins verið gert í eitt eða tvö ár.

Skólaskyldunni er nú lokið með unglingastiginu, og var ætlunin, að hægt væri að byggja á því í öllum framhaldsskólum, sjómannaskólanum, iðnskólunum o. s. frv. Þessir skólar þyrftu þá ekki að eiga von á því, að nemendurnir væru mismunandi undir námið búnir, einn hefði t. d. gagnfræðapróf, annar unglingapróf, þriðji barnaskólapróf og sá fjórði farskólapróf, en það mundi hafa í för með sér, að taka þyrfti upp þráðinn, svo að þeir, sem verst væru undirbúnir, gætu haft full not af kennslunni. Ef skólaskyldan í unglingaskólunum verður afnumin, kemur tvíverknaðurinn upp aftur. Það yrði þá að byrja á að kenna almennar námsgreinar þar, sem farskólunum sleppti. Skipulagsbreyt. sú, er l. hafa í för með sér fyrir framhaldsskólana, er enn ekki komin til framkvæmda, en þegar það verður, er auðséð, að kippa má út námsgreinum, sem nú eru kenndar vegna þess, hve nemendurnir eru mismunandi undirbúnir, þegar þeir koma í skólana. Þó að ekki væri annað en þetta, tel ég það umhugsunarefni, hvort rétt sé að afnema skólaskylduna til 15 ára aldurs.

Mín skoðun er annars sú, að skólarnir eigi ekki að starfa lengur en 7½ mánuð á ári. Ég álít, að lífið veiti betri upplýsingu en skólarnir, ef unglingarnir hafa tækifæri til þess að taka þátt í lífrænu starfi. Sumarið á að vera starfstími, og ef skólarnir starfa í 9 mánuði, er atvinnulífið komið í gang áður en skólatíminn er á enda, og því er ekki lokið þegar skólinn tekur til starfa á ný. Með því móti verða unglingarnir af vor- eða sumarvinnu, og sá síðasti hálfi mánuður, sem því veldur, er dýrt keyptur að mínu áliti.

En ég er ekki trúaður á, að kennslan í barnaskólunum geti fullnægt sömu kröfum, ef skólaskyldan er stytt um eitt ár. Það yrði að minnka námsefnið og slaka á kröfunum. Sú er líka reynslan nú, að minni kröfur eru gerðar t. d. í íslenzku og reikningi en áður, þegar skólaskyldan var frá 7–14 ára aldurs.

Mér er ljóst, að l. frá 1946 hljóta að koma til endurskoðunar, þegar nægileg reynsla hefur fengizt. En þar sem l. hafa ekki enn komið til framkvæmda víðast hvar á landinu, held ég, að ekki sé hægt að mynda sér skoðun um, hvaða breyt. er þörf. Á meðan svo er, tel ég ekki rétt að breyta l. og stíga spor aftur fyrir það, sem ákveðið var í skólalöggjöfinni frá 1907.

Hvað sem menn segja um skólaskylduna, verður því ekki neitað, að það er nokkuð algengt með unglinga, að þótt þeir hafi ekki námslöngun á unglingsárunum, komi hún siðar, og þá getur þörfin verið brýn. En þá getur það verið orðið of seint að afla sér undirbúningsmenntunar. Skólaskyldunni fylgir sá kostur, að menn eru skyldaðir til að nota þjóðfélagsleg réttindi, sem ekki væru notuð, ef byggt væri á frjálsum vilja. Við þekkjum allir mörg dæmi um það, að fullorðnir menn segja: Ég vildi bara, að ég hefði farið í skóla. Það kemur mér nú í koll, að ég gerði það ekki. — Unglingarnir eru því betur settir, ef þeir eru skólaskyldir til 15 ára aldurs, og það er betra fyrir þá, sem fátækir eru og yrðu að neita sér um skólagöngu, ef hún væri ekki skylda, því að þá yrði reynt að nota vinnuafl þeirra til að hjálpa til að framfleyta fjölskyldunni, þó að ekki sé mikil stoð í því að vetrinum í atvinnulausum kaupstöðum.

Ég býst við, að við fáum aldrei skólalöggjöf, sem allir verða sammála um, og hygg, að við fáum hana ekki, þó að endurskoðun fari fram. Ég er því andvígur því, að endurskoðun fari fram, fyrr en núverandi lög hafa komið til framkvæmda sem víðast. Það er rétt að láta reynsluna skera úr um það, hvað vel gefst og hvað illa, og breyta síðan löggjöfinni með hliðsjón af því, ef þurfa þykir.