02.11.1951
Sameinað þing: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (3382)

58. mál, fræðslulöggjöfin

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 1. landsk. hefur nú horfið frá því, sem hann sagði fyrst, að með till. væri verið að afnema skólaskylduna. Hann segir nú, að með till. sé gildandi fræðslulöggjöf raskað. Ef hann athugar þetta nánar, spái ég því, að hann sjái, að þetta er ekki heldur rétt. Skólarnir eru til og taka við hver af öðrum eins og áður, þó að skyldunám í unglingaskólum verði numið úr lögum.

Hv. þm. spurði, hvort svo bæri að skilja þetta, að ég væri andvígur skólaskyldu barna. Í till. er ekki lagt til, að skólaskyldan verði afnumin, eins og glöggt kemur fram. Við teljum, að ekki sé hægt að tryggja lágmarksfræðslu án skólaskyldu, en teljum heppilegt að stytta skólaskyldutímann. Það er ekki vikið að því, með hvaða hætti hann skuli styttur, en það er hægt með tvennu móti: með því að fækka árum og með því að stytta námstímann ár hvert.

Hv. 6. landsk. (HV) virtist bera kvíðboga fyrir því, að þetta mundi leiða af sér, að í framhaldsskólum og sérskólum yrði að byrja að kenna nemendunum það, sem þeir hefðu átt að vera búnir að nema áður. En þetta vakir ekki fyrir okkur. Að sjálfsögðu yrðu gerðar sömu kröfur t. d. í stýrimannaskólanum og nú. Og ég sé ekki, að það skipti máli fyrir stýrimannaskólann, hvort þessi þekking er fengin með skyldunámi eða ekki. Skólinn getur gert þessar lágmarkskröfur. — Annars tók hv. 6. landsk. till. að ýmsu leyti vinsamlega og virtist vera okkur flm. sammála um, að skólatími barnaskólanna væri nú lengri en heppilegt gæti talizt. Hann óttast þó, — og vel getur verið, að það sé rétt, — að einhverjir, sem nú eru í unglingaskólunum, verði þar ekki, ef skólaskyldan er afnumin, og að námslöngun kunni að vakna hjá þeim síðar. Ég held þó, að takmarkaður árangur verði af námi þeirra unglinga, sem sitja í skóla vetur eftir vetur gegn vilja sínum. Ég held, að það sé eins heppilegt fyrir þá að sinna öðrum verkefnum. Ég held, að reynslan hafi sýnt það nægilega, að vafasamur árangur sé af því að þvinga unglinga til skólavistar. Og ég held, að komið hafi í ljós við barnaskólana, að þekking þeirra, sem eru þar 8–9 mánuði ár hvert, er ekki hlutfallslega meiri en hinna, sem eru þar jafnmargar vikur.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða frekar um málið á þessu stigi. Þetta er yfirgripsmikið mál, og ég tel það svo mikilsvert, að athuga þurfi það vel. Ég vænti þess, að n., sem um það fjallar, geri það.