02.11.1951
Sameinað þing: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í D-deild Alþingistíðinda. (3383)

58. mál, fræðslulöggjöfin

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja, áður en málið fer til n.

Samkvæmt fræðslulöggjöfinni frá 1946 eru börn og unglingar skólaskyld frá 7 til 15 ára aldurs. Í þessari till. er hins vegar gert ráð fyrir því, að skólaskyldan frá 13 til 15 ára aldurs verði felld niður, eða einmitt sá tími, þegar unglingarnir eru búnir að fá mestan þroska til þess að stunda námið. Þegar skólalöggjöf var fyrst lögleidd hér á landi, fyrir 40–50 árum, var ákveðið, að skólaskylda skyldi ná frá 10 til 14 ára aldurs, — það þótti hæfilegt þá, fyrir nærri 50 árum, að börn og unglingar væru skólaskyld til 14 ára aldurs. Nú gera flm. ráð fyrir því í till. sinni, að svo langt sé gengið aftur á bak, að skólaskyldan verði færð um heilt ár niður fyrir það, sem þótti hæfilegt 1907. Ég verð að segja, að flm. hafi ekki verið búnir að gera sér ljóst, að það væri þetta, sem þeir voru að leggja til, — að þeir hafi ekki verið búnir að kynna sér svo þessa löggjöf, að þeir séu búnir að átta sig á þessu atriði, því að þá hefðu þeir tæplega lagt fyrir Alþ. að færa skólahaldið niður um heilt ár ofan frá, frá því sem var 1907. — Nú kunna hv. flm. að ætla að verja sig með því að búið sé að færa skólaskylduna svo langt niður fyrir, frá því sem var, þar sem hún er nú komin niður í 7 ár, en þá vil ég benda á annað, sem sé það, að þau spor, sem stigin hafa verið í þá átt að færa aldurinn niður, hafa komið smátt og smátt vegna þess, að með breyttum þjóðfélagsháttum hefur reynslan orðið sú, að heimilin gátu ekki annazt þá undirbúningskennslu, sem þau töldust geta annazt, fyrst þegar skólalöggjöf var lögleidd hér á landi árið 1907. Og með bættri þekkingu í skólamálum hefur komið í ljós, að það þarf sérmenntaða menn til þess að annast þá undirbúningskennslu, sem talið var, að heimilin sjálf gætu annazt, fyrst þegar skólalöggjöf var lögleidd hér á landi 1908. — Og það þýðir þess vegna ekki að neita því, að þessi till. fer fram á, að stigið sé spor aftur á bak frá því, þegar skólalöggjöf var fyrst lögleidd hér á landi árið 1908.