02.11.1951
Sameinað þing: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í D-deild Alþingistíðinda. (3384)

58. mál, fræðslulöggjöfin

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem hv. 5. landsk. (ÁS) tók fram, að verið væri með þessari till. að skerða skólaskylduna um eitt ár ofan frá. Hvaða ástæður lágu til þess, að breyting var gerð á skólaskyldualdrinum úr 10 árum í 8 ára aldur? Var það gert til þess að auka þvingun? Nei, það kom í ljós, að með því að binda skólaskylduna við 10 ára aldur varð reynslan sú í kaupstöðum og sveitum, að kannske meira en helmingur af börnunum var ólæs, og það, að þau voru ólæs, stóð þeim fyrir þrifum um allt annað nám, um notkun allra kennslubóka í skólanum. Þess vegna þótti þegar nauðsynlegt að færa skólaskylduna, fyrst niður í 8 ára aldur, en síðan var kaupstöðum heimilað að færa hana niður í 7 ára aldur, og hefur sú heimild síðan verið notuð, og loks þótti í þriðja lagi nauðsynlegt, með tilliti til undirbúningskennslu og byrjunar í reikningskennslu, að hafa öll börn skólaskyld frá 7 ára aldri.

Hver er svo ástæðan til þess, að mjög, margir vilja skólaskyldu til 15 ára aldurs? Ástæðan til þess er sú, að þjóðfélagsaðstæður eru þannig, að unglingar ganga þúsundum saman iðjulausir að vetrinum, hafa ekkert fyrir stafni, þar sem þjóðfélagið sér þeim ekki fyrir neinu til þess að uppalast við. Það er þess vegna gott, ef þeir nota tímann til þess að læra, og þess vegna var gert ráð fyrir því í nýju skólalöggjöfinni, að þessi skólaskyldualdur yrði að hálfu leyti notaður til verklegrar kennslu, það er tilætlunin með honum. Meðan meginþorri þjóðarinnar bjó í sveit, ólst hvert barn upp við hliðina á starfinu sjálfu, en í kaupstöðum, þar sem börnin alast ekki upp við hliðina á starfinu, þar eð vinna föðurins er að jafnaði utan heimilisins, alast þau upp „isóleruð“ út af fyrir sig og fá þar af leiðandi ekki aðstöðu til að taka þátt í starfinu frá blautu barnsbeini. Þeir þekkja því ekki atvinnuhætti, kunna ekki neitt til starfa, unglingar kaupstaðanna, og það vakti fyrst og fremst fyrir þeim, sem beittu sér fyrir skólaskyldu upp á við, að sá tími yrði að verulegu leyti notaður til verklegs náms. Enn er komin lítil reynsla í þessum efnum, en sú litla reynsla sýnir, að meginþorri unglinga æskir eftir þessari kennslu og stundar hana með gleði. Komið bara í eldhús skólahúsanna, þar sem verið er að kenna matreiðslu, komið í smiðastofurnar og komið í stofurnar, þar sem verið er að kenna að setja upp net, og þið munuð sjá, að alls staðar er gengið með gleði og fögnuði að starfi. Þið ættuð bara að sjá, þegar piltarnir sitja fyrir smíðakennurunum, er þeir eru á leið í skólann, til þess að reyna að tryggja sér að komast að smíðastofunni fyrir utan þann tíma, sem sérstaklega er ætlaður þeim til smíðanámsins. Og þetta vilja menn nema burt.

Þá viðurkenndi hv. flm. í ræðu sinni að þetta mundi valda röskun á skólakerfinu. (SkG: Það sagði ég ekki.) En það er staðreynd, að þannig mundi fara. Hann sagði: „Hver skólinn tekur þá við af öðrum.“ Það er einmitt það, sem mundi raskast. Nú er hægt að byggja á því, að allir standi á því þekkingarstigi, sem krafizt er sem lágmarks við unglingapróf. Nú kæmist kannske helmingur allra unglinga í framhaldsskóla, án þess að hafa fengið nokkra fræðslu að afloknu barnaskólaprófi. Hvernig ættu þá framhaldsskólar, þar sem nemendurnir standa á svo mismunandi þekkingarstigi, að geta. tekið við beint þar sem gagnfræðastiginu sleppir? Nú er búið að gera það að skilyrði fyrir prófi í marga sérskóla, að unglingarnir hafi gagnfræðapróf. Þetta yrði því beinlínis til þess að útiloka helming af unglingum landsins frá þeim möguleika að komast í sérskóla, t. d. stýrimannaskóla. Í þessu mundi einmitt birtast höfuðókostur þess að afnema skólaskyldu á unglingsárunum. Það væri allt að því glæpur að ætla sér að gera kröfu um gagnfræðapróf sem inntökuskilyrði í ýmsa sérskóla, sem miða að framgangi atvinnulífsins, ef ekki er nema í einstöku skólum séð fyrir slíkri fræðslu. Og ef það yrði svo, eftir að fræðsluráð væru setzt að völdum, að ekki nema helmingur af æskulýð landsins færi í unglingaskóla að afloknu barnaskólaprófi, yrði afleiðingin sú, að framhaldsskólarnir yrðu þegar í byrjun að taka upp kennslu í hinum almennu námsgreinum, t. d. í landafræði, náttúrufræði o. s. frv., á því þekkingarstigi, þar sem barnaskólaprófi sleppir. Þeir, sem hafa svo farið í gegnum gagnfræðaskóla, yrðu svo að stagla allt upp aftur vegna hinna, sem ekki hafa notið þessarar kennslu. Það gæti þess vegna ekki hver skólinn tekið við af öðrum, þar sem unglingarnir stæðu á svo mismunandi þekkingarstigi. Þetta skref, unglingastigið, væri ekki lengur til, og þá væri annaðhvort að byrja á tvíverknaði í þessu eða byrja aftur þar, sem þeir standa, sem hafa versta aðstöðu. — Ég er alveg sannfærður um það, að ef jafngreindur maður og hv. þm. V-Húnv. íhugar þetta, skilur hann, að margs konar glundroða mundi leiða af þessari breyt. og margs konar mannréttindaskerðingu af því að fella niður skólaskyldu að því er snertir unglingastigið. Ég held, að það sé því sjálfsagt að vísa þessari till. til nefndar, því að ég er sannfærður um, að lengri tíma þarf hv. þm. V-Húnv. ekki til þess að sannfærast um, að till. er ekki tímabær og vafasamt, hvort hún sé þjóðholl.