02.11.1951
Sameinað þing: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í D-deild Alþingistíðinda. (3386)

58. mál, fræðslulöggjöfin

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af orðum, sem féllu hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. A-Sk. Hann vildi benda á það, sem að vissu leyti er rétt, að það er ekki samræmi í skólatíma þeim, sem er ætlaður börnum á þessu landi. Eins og nú standa sakir, þá fer þetta eftir því, hvar á landinu það er. Benti hann á, að sums staðar væri skólatíminn ekki nema 3½ mánuður, en annars staðar væri hann 9 mánuðir. Þetta er misskilningur. Þar, sem um 3½ mánuð er að ræða, þá er það vegna aðstæðna, og er ekki rétt að miða það við 9 mánaða skólatíma í Rvík, því að 9 mánaða skólatími í Rvík skiptist á börn á ýmsum aldri. Það er svo að segja ekkert barn í Rvík, sem á að vera 9 mánuði í skóla. — En hitt vil ég undirstrika, að það hefur ekki verið hrakið hér, að stefnt sé aftur á bak með till. þessari, ef fyrri hluti hennar verður samþ., því að hér er gert ráð fyrir, að barnaskólanámi ljúki einu ári fyrr en gert var ráð fyrir í löggjöfinni, sem sett var fyrir 44 árum, og virðist flm. ekki búinn að gera sér ljóst, að það er þó ekki eftir till. hægt að gera ráð fyrir, að minni þekkingar sé krafizt til barnaprófs en var fyrir 1946. Eins og upplýst var af 6. landsk. í umr. áðan, þá var einmitt dregið úr námsskyldu til barnaprófs, þegar fræðslul. voru samþ. 1946, vegna þess að aldurinn var færður niður um eitt ár. Og nú er gert ráð fyrir í till. að lögfesta þessar niðurfærðu námskröfur, sem lögfestar voru til barnaprófs 1946, en aftur á móti var þá lögfest námsskylda í unglingadeild, sem átti að bæta upp niðurfærsluna.

Enn fremur vildi ég segja út af því, sem hv. þm. sló fram till. um að leggja ákvörðun um skólaskyldu í unglingaskólum á vald fræðsluráðs, að það er atriði sem verður að athuga í þn., sem fær málið til athugunar. En ég verð að segja, að það er mjög hæpin tilhögun að ætla sér að láta áhugamenn í héruðum ákveða um skólaskyldu, þar sem sums staðar eru áhugamenn um námsskyldu, en á öðrum stöðum eru fræðsluráðin skipuð minni áhugamönnum í þessum efnum og sums staðar áhugalausum mönnum um þessi efni, því að með allri virðingu fyrir fræðsluráðamönnum úti á landi, þá eru þeir menn misjafnir eins og aðrir.

Hannibal Valdimarsson: Herra forseti. Það er aðeins eitt orð í ræðu hv. þm. A-Sk., sem ég ætla að víkja að. — Hann sagði á þá leið, að það þyrfti geysimikið átak til að hægt væri að framkvæma það skólakerfi, sem lög mæla fyrir um, í skólum landsins. Ég spyr hann því: Er tilætlunin með till. að komast hjá því átaki, og ef svo er, er það þá tilætlunin að komast hjá að veita ytri aðstöðu til verklegs náms? (SkG: Vill hv. þm. lesa grg.?) — Ég hef lesið hana.