08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (3393)

63. mál, gjaldskrá landssímans

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í till. þessari er farið fram á það, að ríkisstj. geri ráðstafanir til þess, að gjaldskrá landssímans verði breytt þannig, að ekki verði innheimt fjarlægðargjald af símanotendum í þéttbýlustu byggðahverfunum í nágrenni Reykjavíkur.

Till. samhljóða þessari fluttum við hv. 4. þm. Reykv. seint á síðasta þingi, en tími vannst ekki til að afgreiða hana.

Í nágrenni Reykjavíkur eru ýmis þéttbýl byggðahverfi, fyrst og fremst í Kópavogi og fyrir ofan Elliðaár. Notendur síma á þessum stöðum verða að greiða nokkurt aukagjald vegna símaafnotanna, auk þess sem þeir greiða nokkru hærra stofngjald en aðrir símanotendur, sem bæjarsímakerfið nota. Veldur þetta því, að notkun síma í þessum hverfum verður óeðlilega dýr. En segja má með miklum rétti, að fáir hafi meiri þörf síma en þeir, sem búa í úthverfum þessum. Slíkt fjarlægðargjald var áður innheimt á nokkru stærra svæði en nú er gert í nágrenni og útjöðrum Reykjavíkur, en því hefur verið hætt. Fjarlægðargjaldið var áður innheimt í nágrenni Hafnarfjarðar, en því hefur einnig verið hætt. Það hefur verið stefnan á undanförnum árum að verðjafna nokkuð kostnað við símanotkun, og okkur flm. þessarar þáltill. virðist tími til þess kominn að gera þessa verðjöfnun fullkomna í Reykjavík og nánasta nágrenni hennar og afnema þannig fjarlægðargjöld af símanotum í þessum þéttbýlustu byggðahverfum í nágrenni Reykjavíkur.

Fleiri orð sé ég ekki ástæðu til að hafa um þessa þáltill., en leyfi mér að óska þess, að henni verði vísað til hv. allshn.