08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í D-deild Alþingistíðinda. (3398)

68. mál, brúarstæði yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi

Flm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þáltill. á þskj. 94, sem er um það, að rannsakað verði brúarstæði yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi. Til þess að gera það ljóst — því að þarna er um sérstakt nýmæli að ræða — hvaða þýðingu brú yfir Ölfusá á þessum stað hefur fyrir héruðin þarna fyrir austan, sjávarþorpin á suðurströndinni, þá er nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um þau og þróun hafnargerðar og útgerðar og slíkra framkvæmda á þessum stöðum.

Það kannast allir við hafnleysið á suðurströnd landsins, þannig að segja má, að frá Höfn í Hornafirði og til Reykjaness sé ekki um neinar hafnir að ræða. Þar brotnar alda úthafsins að austanverðu, á söndunum, alveg að landi, og á milli Þjórsár og Ölfusár á skerjagarðinum, sem er nokkuð frá landi, og má segja, að þetta sé ein brimstrandlengja, þegar þannig er í sjó, að ekki eru sérstakar landáttir, sem eru þær einu áttir, sem má segja að gefi færi á að sækja sjó á þessu svæði. Þarna hefur verið töluvert mikil útgerð í þessum þorpum, einmitt á Eyrarbakka, Stokkseyri og Þorlákshöfn. Og á tíma róðrarbátanna var mest útgerð í Þorlákshöfn. Þar gengu þá til fiskjar milli 30 og 40 skip. Eftir að mótorbátarnir tóku við, fækkaði róðrarskipum á öllum þessum stöðum og loks hurfu þau alveg, og var þá um tíma engin útgerð í Þorlákshöfn. En þannig hagar til á Eyrarbakka og Stokkseyri, að innan við brimgarðinn eru lón, þar sem legið geta mótorbátar á nokkuð öruggum stað, þó að hafátt sé og vont í sjó. En í Þorlákshöfn hagar þannig til, að ekki var um það að ræða að láta skip liggja þar fyrir utan, heldur varð að setja þau upp að kvöldi eða eftir endaðan róður. — Nú á seinni árum hafa hafizt töluvert miklar hafnarbætur í Þorlákshöfn, og hefur það einkum orðið síðan Árnes- og Rangárvallasýsla eignuðust Þorlákshöfn. Sýslufélögin hófust handa um hafnarbætur þarna, sem er bryggjugerð, sem ekki er nú nálægt því að vera sú hafnargerð, sem einu sinni var fyrirhuguð með ákveðinni teikningu, en hún var hugsuð þannig, að þar væri hafnargarður, sem brimið átti að mæða á, en fyrir innan þann garð átti að vera bryggja. Er þar byrjað á bryggju, og eru komnir af henni 110–120 metrar. En það hagar svo til í Þorlákshöfn. að nesið skýlir henni fyrir sunnanátt og vestanátt, en landið fyrir norðanátt. Er þess vegna víkin aðeins opin að austan, og er bryggjan skjól fyrir þeirri átt.

Undanfarin ár hefur verið nokkur útgerð í Þorlákshöfn, og hafa verið gerðir þar út fimm litlir mótorbátar. Þessi útgerð hefur gengið ágætlega hvað aflabrögð snertir. Síðastliðinn vetur höfðu hásetar í hlut á 22 tonna bátum þetta frá 12–20 þús. kr., og er álitið, að það sé ekki alls staðar betra en það, en á hinn bóginn er þar ekki pláss fyrir fleiri báta.

Þegar aflabrögð eru af fiski, er mjög hægt að sækja á Selvogsbanka, og eiga engir styttri leið að fara en bátar frá Þorlákshöfn. Og það kemur fyrir, að fiskur gengur svo nærri landi, að ekki er nema 5–10 mínútna stím á miðin, en venjulega stendur það ekki lengi, en þá er þess að gæta, að ekki er styttra á fjarlægari mið annars staðar frá. Það þykir ef til vill undarlegt, að á aflabeztu mið Vestmannaeyinga eiga bátar frá Þorlákshöfn styttra að sækja. Allt stuðlar þetta að því, að þaðan er hægari sjósókn en frá flestum stöðum öðrum sunnanlands. Þá má minna á það, að höfn í Þorlákshöfn hefur í för með sér aukið öryggi fyrir vertíðarbáta frá bæði Eyrarbakka og Stokkseyri. Þar er svo brimasamt, að oft er það, þó að bátar rói þaðan í góðu veðri að morgni, að þá er komið svo mikið brim að kvöldi, að ekki er viðlit að lenda þar. Þessi óvissa með landtöku hefur haft það í för með sér, að lítið fjör hefur verið í útgerð þar á undanförnum árum. Þetta er nú að breytast þannig, að þótt bátar rói þaðan að morgni, geta þeir lent í Þorlákshöfn að kvöldi og skipað þar upp afla sínum og róið þaðan daginn eftir, enda eru dæmi þess, að svo gekk til á síðustu vertíð. Þetta sýnir, að hafnargerð í Þorlákshöfn leysir hafnarvandræði þessara tveggja staða, sem ávallt hefur verið rætt um að þyrfti að bæta, en um stórfelldar framkvæmdir mun nú ekki verða að ræða, úr því að höfn er komin í Þorlákshöfn.

Landsamgöngurnar eru nú þannig milli þessara staða, að vegur liggur frá Þorlákshöfn á Suðurlandsbraut hjá Hlíðarenda í Ölfusi, að Selfossi og þaðan til Stokkseyrar og Eyrarbakka. Þá er leiðin til Eyrarbakka og Stokkseyrar um 50 km.

Nú þurftu útgerðarmenn á þessum stöðum að fara þessa leið á síðastliðinni vertíð með allt, sem bátar þeirra þurftu með. Enn fremur var farið þessa leið með öll bein og úrgang frá þessum stöðum til Þorlákshafnar, því að beinamjölsverksmiðjan þar keypti öll bein þaðan. Ef það kom nú fyrir, að bátur varð að halda til þarna, varð hann að láta flytja afla sinn á bílum og fékk þjóðin beitt send á bílum að heiman alla þessa leið. Þetta er auðvitað miklum erfiðleikum bundið, þar sem um svo langa leið er að ræða.

Nú lá gamla þjóðleiðin ekki þessa leið, heldur eftir ströndinni og þar sem nú er hugsað, að þessi brú komi. Þessi leið væri ekki nema 16 km, ef brú væri þarna á ánni, og væri þá breytt samgöngunum milli Eyrarbakka og Þorlákshafnar á þá leið, að hún væri 16 km í stað 50 nú. Þá mundi og leiðin milli Stokkseyrar og Þorlákshafnar styttast úr 50 km, eins og hún er nú, í 21–22 km.

Nú er því ekki að leyna, að við hafnarbætur í Þorlákshöfn eru bundnar vonir allra Sunnlendinga um bætta aðstöðu til flutninga. Eins og nú hagar, eru vörurnar teknar hér í Reykjavik og fluttar á bílum austur yfir Hellisheiði. Ef hins vegar skip gætu lagzt að bryggju í Þorlákshöfn, mundi þessi vandi mikið leystur og þar gætu í góðu veðri lagzt að bryggju allt að 1000 tonna skip, ef bryggjan væri lengd um 60 metra, sem er næsti áfanginn. Er þar um að ræða skip á stærð við Fossana, og þegar svo væri komið, er ekki vafi, að vörur mundu að miklu eða öllu leyti verða teknar þar upp.

Þá má benda á fjárhagslega hlið málsins til að sýna, að brú á Ölfusá hjá Óseyrarnesi kostar ekki meira en allar þær tugþúsundir, sem fara í allan þann kostnað, sem nú þarf til þeirra bila, sem flytja alla þessa leið, þ. e. það, sem til þeirra þarf bæði í benzíni, varahlutum o. fl. Það þyrfti ekki að líða langur tími til þess, að þessi brú borgaði þann kostnað.

Ég þykist nú hafa sýnt fram á, hvaða þýðingu brú hefur á þessum stað, og ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það að sinni. — Leyfi ég mér svo að leggja til, að þessari þáltill. verði vísað til hv. fjvn.