10.12.1951
Efri deild: 40. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

17. mál, varnarsamningur

Frsm. minni hl. (Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. lauk máli sínu með því að segja, að svo mikið djúp væri milli skoðana okkar, að það yrði ekki brúað. Þess sé því ekki að vænta, að brtt. mínar séu bornar fram í sama anda og samningurinn, sem hér liggur fyrir. Það má vera, að ég hafi aðra skoðun en hann virðist hafa á fyrirætlunum Bandaríkjanna, eins og þær hafa komið í ljós í ótviræðum yfirlýsingum og kröfum til Íslendinga um það, að þau vilji hafa og þykjast þurfa að hafa hér herstöðvar næstu 100 árin. Ég held, að vissir menn vilji reyna að gleyma þessum staðreyndum, og ég er á þeirri skoðun, að Bandaríkin muni leita ýmissa ráða til að koma fram þessum vilja sínum gagnvart okkur, en reyni að láta þær aðgerðir líta nógu sakleysislega út, þótt þær hafi þann tilgang að ná þeim ítökum, sem Bandaríkin telja nauðsynlegt að hafa hér á landi. Þarna er að finna meginskoðanamuninn á milli mín og hæstv. ráðh. Meginskoðanamunurinn milli mín og stuðningsmanna þessa frv. er sá, að þeir álíta, eins og hv. frsm. meiri hl. varnarsamningsnefndar sagði í kvöld, að hið bandaríska herlið sé nauðsynlegt til að verja sjálfstæði landsins, en ég held, að það sé mjög hættulegt sjálfstæði landsins. Og mín skoðun samrýmist einmitt skoðun hæstv. ráðh. og annarra stuðningsmanna þessa frv., eins og hún var til skamms tíma, að það væri stórhættulegt að hafa hér her á friðartímum, en þeir eru bara búnir að snúa við blaðinu núna.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri hin mesta firra að halda því fram, að sjálfstæði Íslands væri skert með þessum samningum, og benti hann á máli sínu til stuðnings, að það væri amerískt herlið í Bretlandi og Frakklandi og hefði verið síðan stríðinu lauk. Það gegnir allt öðru máli um þetta herlið, þar sem það eru eftirstöðvar af herliði stríðsáranna, og því er það alls ekki sambærilegt við okkar herlið. Bretar og Frakkar hafa ekki falið Bandaríkjunum hervarnir sinna landa, eins og við höfum gert, og það er reginmunur.

Þá taldi hæstv. ráðh., að dvöl ameríska herliðsins hér væri sambærileg við það, að bandamenn hafa haft síðan stríði lauk og hafa enn herlið í sigruðum löndum, og minntist á Þýzkaland í þessu sambandi. Nú veit ég, að hæstv. ráðh. hefur alls ekki meint það, sem hann sagði. Það herlið, sem dvelst í Þýzkalandi, er þar beinlínis samkvæmt samningum, sem bandamannaríkin gerðu sín á milli eftir stríðið til þess að tryggja það eða að reyna að tryggja það, að Þýzkaland risi ekki upp aftur sem stórt herveldi. Og þegar hæstv. ráðh. talar um rússneskt herlið í Þýzkalandi í þessu sambandi, þá er það vitanlega öldungis ósambærilegt við hið bandaríska herlið hér, þar sem herlið Rússa dvelur þar samkvæmt samningum, sem bandamannaríkin gerðu sín á milli, og ég hef ekki haft fregnir af því, að rússneska herliðið hafi gengið þar feti framar en leyfilegt er samkvæmt þeim samningum. Þessi samanburður hæstv. ráðh. var því alveg út í loftið.

Þá ræddi hann um afstöðu mína til Atlantshafsbandalagssamningsins og taldi mig og aðra andstæðinga þess samnings hafa alveg snúið við blaðinu. Í öllu því, sem ég hef sagt um þann samning, hef ég verið að benda á skýringar þær, sem hæstv. ráðh. gaf á samningnum, þegar hann var gerður. Á þeim skýringum hef ég byggt minn málflutning hér í kvöld, að ef þær skýringar hæstv. ráðh. voru réttar, þá leiddi ekki af samningnum þá skyldu fyrir Íslendinga að ganga til þessa samnings, sem nú liggur fyrir, um herlið á friðartímum. Hins vegar vildi ég ekki trúa því, er Atlantshafssamningurinn var gerður, að öruggt væri, að það yrði aldrei farið fram á það af Atlantshafsbandalaginu, að hér yrði her á friðartímum, og reynslan hefur sýnt, að þessu var ekki trúandi. En hæstv. ráðh. lét þá svo, að til þessa kæmi aldrei. — Hæstv. ráðh. minntist á það, að í sambandi við inngönguna í Atlantshafsbandalagið hefði hann og meðráðh. hans lofað því, að ef til ófriðar kæmi, þá yrði Bandaríkjunum veitt svipuð aðstaða hér á landi og þau höfðu í síðasta stríði. Það, sem ég lagði áherzlu á í minni ræðu, voru þessi loforð hæstv. ráðh., að ef til ófriðar kæmi, þá skyldi þessi aðstaða veitt, en nú hefur hún þegar verið veitt, án þess að til ófriðar sé komið, því að ég veit, að hæstv. ráðh. geta ekki talið, að nú sé komið til ófriðar. Þótt skilgreining á því, hvað sé ófriður og hvað ekki, kunni að valda ágreiningi, þá verður því ekki mótmælt, að til ófriðar á sama hátt og árið 1941 er ekki komið. Á þessum atriðum hef ég byggt minn málflutning hér í kvöld.

Þá vék hæstv. ráðh. að skoðun minni á gerð þessa samnings, og þótt hann færi viðurkenningarorðum um rök mín í því sambandi, vildi hann ekki fallast á niðurstöður minar, því að þegar Alþ. hefði staðfest þennan samning, tæki hann sitt gildi, en hann efaðist um, að hann hefði gildi fyrr. Þetta sagði ég einmitt, að ég gerði ráð fyrir, að gengið yrði út frá því, að samningurinn tæki ekki sitt gildi fyrr en Alþ. hefði samþ. hann, en stjórnskipulega séð breytir þetta engu, því að Alþ., með því að samþ. samning, sem gerður var fyrir sjö mánuðum, gefur hér fordæmi, sem hefur stjórnskipulega þýðingu. Það er hægt að breyta stjórnskipulagi í einu landi án þess að breyta stjórnarskránni, og ef Alþ. staðfestir þennan samning nú, löngu eftir að hann hefur verið gerður, er það með þeim hætti að breyta stjórnskipulaginu. Það verður hægt að vitna til þeirrar aðgerðar síðar. Og einn hv. nefndarmanna í varnarsamningsnefnd vildi meira að segja halda því fram, að samningurinn mundi hafa sitt gildi í 18 mánuði frá því hann var gerður, þótt Alþ. samþ. hann ekki. Ég vildi við 1. umr. þessa máls leggja sérstaka áherzlu á það, hve varhugavert væri að samþ. þennan samning, vegna þess að það hefði þá stjórnskipulegu þýðingu, sem mundi felast í þessu fordæmi, að hægt væri að gera samninga slíka sem þennan án þess að hafa samþykki Alþ. til þess. Hæstv. ráðh. reyndi að láta sýnast sem svo, að ég teldi, að ríkisstj. hefði verið óheimilt að gera ráðstafanir til varnar Íslandi, ekki aðeins af stjórnskipulegum ástæðum, heldur og að henni hefði verið óheimilt að gera nokkuð til varnar Íslandi, eins og hann sagði. Þetta er ekki rétt túlkun á mínum orðum. Ég hef aðeins haldið því fram, að það hafi ekki hvílt nein skylda á Íslendingum samkvæmt Atlantshafsbandalagssamningnum að ganga til þessa samnings, eins og ha. frsm. meiri hl. og fleiri hafa viljað halda fram. Hitt er svo annað mál, hvaða ábyrgð ríkisstj. var reiðubúin til að taka á sig í þessu efni og hvaða mat hún lagði til grundvallar því, að rétt væri að gera þessar ráðstafanir. Ég hef beðið eftir því, að hæstv. ríkisstj. sýndi fram á, hvaða ástæður lágu til grundvallar því, að hún gerði ráð fyrir yfirvofandi styrjöld. Ég hef haldið, að ríkisstj. hljóti að hafa metið svo styrjaldarhættuna, að óumflýjanlegt væri annað en gera þær ráðstafanir, sem áður var ekki gert ráð fyrir að gera fyrr en út í ófrið væri komið. Mat hæstv. ráðh. og annarra stuðningsmanna þessa samnings á ástandinu í heiminum í vor hlýtur að hafa verið það, að heimsstyrjöld væri sama sem skollin á. Og hverjar voru ástæðurnar fyrir slíku mati? Hvaða ástæður lágu fyrir því, að hæstv. ríkisstj. hélt, að styrjöld væri yfirvofandi? Hvað getur réttlætt það spor, sem hún steig þá, því að ríkisstj. hafði ekki gert ráð fyrir því 1949, þegar Atlantshafssamningurinn var gerður, að stíga slíkt spor fyrr en ófriður væri skollinn á? Sé nokkurt mark takandi á yfirlýsingum hæstv. utanrrh. og félaga hans frá 1949, virðist það ótvírætt, að hæstv. ráðh. töldu ástandið í vor samsvara því, að ófriður væri skollinn á.

Hæstv. ráðh. mun ekki geta sannað það, að Keflavíkursamningurinn hafi ekki átt að falla úr gildi, þegar skylda Bandaríkjanna til að halda uppi herstjórn í Þýzkalandi félli niður. Þegar sú skylda var útrunnin, féll niður forsendan fyrir Keflavíkursamningnum, og það voru einmitt þau rök, sem urðu til þess, að menn samþ. þann samning, að þarna væri þannig ástatt fyrir Bandaríkjunum, þar sem þau væru skyld til að halda uppi hernámi í Þýzkalandi, að annað væri ógerningur en veita þeim þessa aðstöðu; þau þyrftu óhjákvæmilega að hafa hér flugstöðvar, svo að þau gætu haldið uppi flugsambandi milli Bandaríkjanna og Þýzkalands vegna þessarar skyldu sinnar. Það, sem gerist svo við það, að hernámsreglugerðin í Þýzkalandi fellur úr gildi, er það, að Bandaríkin eru ekki lengur skyld til að hafa áfram her í Þýzkalandi, þótt þau hafi her þar áfram, en sá her er þar ekki sem hernámslíð Bandaríkjanna. Bandaríkin höfðu fulla ástæðu til að ætla, að Íslendingar vildu losna við Keflavíkursamninginn, og ef ekki yrði búið að gera annan samning fyrir þann tíma, þegar hann félli úr gildi, vegna þess að skylda Bandaríkjanna til herstjórnar og eftirlits í Þýzkalandi félli niður, var sýnilegt, að ítök Bandaríkjanna, sem þau hafa samkv. Keflavíkursamningnum, mundu glatast.

Hæstv. ráðh. mótmælti því, að þau ummæli, sem ég hafði eftir Eisenhower, hefðu stuðzt við góðar heimildir, en ég sé þó ekki ástæðu til að fara að endurtaka þær góðu heimildir hér. Mér þykir trúlegt, að mér gefist tækifæri einhvern tíma síðar til að sýna hæstv. ráðh., að þessi ummæli stóðu í Times í sumar, þann 14. ágúst. — Þá vildi hann rengja það, að Churchill hefði í huga að setja reglur um herstöðvarnar í Bretlandi, sem bönnuðu kjarnorkuárás á önnur lönd frá þeim stöðvum. Ég held það hafi verið í Manchester Guardian, sem ég sá þetta, en þar var birt eins konar prógram í þrem liðum, þegar Churchill tók við stjórnartaumunum. En ég hef hér hjá mér blað, sem þrír ráðh. í verkamannaflokksstj. gáfu út sem sína stefnuskrá fyrir kosningarnar í Bretlandi, þar sem sett er fram sú krafa, að brezka stjórnin geri Bandaríkjunum ljósan óskoraðan rétt sinn til að banna amerískum flugvélum að fara til árása frá þessum stöðvum nema með leyfi brezku stjórnarinnar. Þetta var á þeirra stefnuskrá, og þetta er krafa fjölda manna í Bretlandi, og það er vegna þess, að þau ár, sem liðin eru síðan styrjöldinni lauk, hefur brezku þjóðinni orðið það betur og betur ljóst, að viðhorfið í þessum málum er allt annað en það var í síðasta stríði. Brezka þjóðin tók á móti flugárásum í síðasta stríði, en mönnum er það nú ljóst, að ef slíkar árásir yrðu gerðar á hana með atómvopnum, mundi það kosta líf hennar. Ég held því, að það muni koma á daginn, að það verði settar reglur um það, að Ameríkumönnum verði ekki leyfilegt að fara í árásarflug frá brezkum stöðvum, samsvarandi reglur og ég legg til að við setjum, að ekki verði leyfilegt að fara í árásarflug frá okkar landi. Og ég álít, að þótt okkar land sé strjálbýlla en Bretland, þá megum við ekki frekar verða fyrir slíkum áföllum sem sprengjuárásir geta haft í för með sér og eiga það á hættu, að okkar þjóð verði þurrkuð út. Við höfum síðasta áratuginn verið að gera tilraun til að hefja nýtt þjóðlíf hér á landi, m.a. með því að stofna sjálfstætt ríki. Við vitum ekki enn, að hve miklu leyti það tekst. En við vitum, að við megum ekki við slíkum áföllum. Og því eigum við ekki að blanda okkur inn í hersamtök við aðrar þjóðir, sem gætu leitt af sér þau áföll, sem við megum ekki við.

Ég ætla ekki að fara að deila öllu meira við hæstv. ráðh. um þetta mál. Ég hef gert grein fyrir mínum skoðunum á því, og ég veit, að hér verður engu breytt. Það bætir ekkert úr, þótt ég haldi hér uppi meiri rökræðum um málið. Þessi samningur er gerður, og þeir, sem hann hafa gert, bera alla ábyrgðina á honum. Við vitum ekki, hvað hann muni geta leitt af sér. En ég veit það með vissu, að það mundi ekki þyngja þá ábyrgð, sem Alþ. tekur á sig með afgreiðslu þessa máls, ef minar brtt. yrðu samþ., en það mundi þýða aukna ábyrgð, ef þær væru felldar.