08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í D-deild Alþingistíðinda. (3412)

79. mál, verðlagsuppbót á lífeyri starfsmanna ríkisins

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Till. sú, sem borin er fram á þskj. 127, er um greiðslu uppbótar á lífeyri starfsmanna ríkisins.

Það háttar svo til, að laun starfsmanna ríkisins og lífeyrir og bætur, sem greiddar eru samkvæmt lögum um almannatryggingar, er greitt með fullri vísitöluuppbót, en þeir, sem taka lífeyri úr lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, hafa orðið útundan með þessar uppbætur. Nú er ósanngirni, að það fólk, sem tekur laun sín úr þessum sjóði, fái ekki þarna hina sömu uppbót, ekki sízt þar sem laun þessa fólks eru nú orðin óeðlilega lág. Nú vill svo illa til, að af vangá hefur þetta aðeins verið miðað við lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en þar koma auðvitað aðrir hliðstæðir sjóðir til. Hv. 4. þm. Reykv. hefur hins vegar flutt brtt. við þessa till. og telur þar upp þá sjóði, sem hér er um að ræða. Þetta er alveg rétt hjá honum, og var þessi líka meining okkar, þó að þeir féllu niður af vangá. Ég þakka honum þessa ábendingu, og er ekki síður ástæða til að taka þetta mál til athugunar, þar sem svo margir eru í sama flokki.

Það hefur verið gert ráð fyrir einni umr. um þetta mál, en ég held, að það eigi vel heima í hv. fjvn., og geri það að till. minni, að því verði vísað til hennar.