09.01.1952
Sameinað þing: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í D-deild Alþingistíðinda. (3433)

103. mál, ræðuritun á Alþingi

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Við hv. 1. þm. N-M. (PZ) höfum í nokkur ár flutt till. um að bæta úr því, sem okkur hefur virzt ábótavant, og færa til lækkaðs kostnaðar við þingskriftir og framkvæma þær í öðru formi, en það hefur — með allri virðingu fyrir hæstv. forsetum Alþ. — verið mesti hægagangur á framkvæmdum í þessum efnum. Nú vildi ég, áður en þetta mál fer til n., aðeins hreyfa þessu, hvort ekki væri kostur á því, þar sem þingið á hér sjálft upptökutæki, að láta nú í byrjun næsta þings reyna að taka þingræðurnar upp á plastþráð og láta vinna úr þeim jafnóðum, taka t. d. fyrir vikutíma í byrjun þingsins og láta vinna úr þeim rækilega, jafnframt því sem skrifað væri eins og venjulega og sjá, hvor aðferðin dygði betur. Þessu þyrfti ekki að vera samfara mikill kostnaður, það þyrfti aðeins að leggja fram þráðinn og hafa einn mann til þess að sjá um upptökuna, og þá fyrst sést, hvaða kostnaður fylgir þessu. Þetta yrði svo sennilega vélritað á eftir, eftir ráðstöfunum hæstv. forseta. Ég held, að þá komi í ljós, hvor aðferðin er öruggari og hvor ódýrari.

Hv. flm. þessarar till. minntist á það, — ég hef því miður kannske ekki heyrt það nákvæmlega, mér heyrðist hún í óskörulegra lagi flytja sína ræðu, — mér heyrðist hún minnast á það, að farið væri að nota hraðritunarvélar úti í löndum. Það er þá nýtt fyrirbrigði, — ég hef ekki heyrt getið um það, — en það er kannske það allra bezta, sem nú gæti verið í uppsiglingu, og um þetta ætti hv. n., sem málið fer til, að afla upplýsinga hjá þm., sem hefur séð þetta og athugað það vel.

Þessu vil ég beina til hv. n., sem kann að fá málið til meðferðar, og tel, að við svo búið megi ekki standa um ræðuritunina eins og verið hefur hingað til og að það verði að kippa þessu í lag. En hitt get ég tekið undir með hv. þm. A-Húnv., að það er vafasamt að fara nú að hætta við hina eldri þingskrifara, sem hafa reynzt traustir, þó að ekki séu hraðritarar. Ég held að minnsta kosti, að gera ætti tilraun til að prófa, hvort það verði ekki véltæknin, sem sigrar, áður en farið er að ráða árslaunaða hraðritara sem skrifara við þingið.