09.01.1952
Sameinað þing: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í D-deild Alþingistíðinda. (3436)

103. mál, ræðuritun á Alþingi

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki stofna til neinnar þrætu, því að þetta mál fer til n. og verður þar athugað, hvort hægt er að komast að sameiginlegri niðurstöðu um afgreiðslu þessa máls. Þó eru það tvö atriði, sem ég vil segja nokkuð um.

Það hafa fleiri en einn hv. þm. látið í ljós, að það væri undarlegt, að þetta mál væri hér til umræðu þing eftir þing. En þetta er ekkert undarlegt, því að það hefur ekki tekizt að ganga frá því hér og það af því — sem komið hefur fram hér í umr. — að þingmenn eru mjög á öndverðum skoðunum í þessu máli, svo að ekki hefur fengizt nein niðurstaða um að gera ákveðnar breytingar. Hér hafa komið fram menn, sem telja ekki annað viðunandi en vélræna upptöku á ræðum alþingismanna, en aðrir vilja ekki fara út á þá leið og vilja heldur hafa æfða hraðritara. Það er því ekki undarlegt, þó að þetta mál sé rætt á mörgum þingum.

Einu vil ég mótmæla, sem hér hefur komið fram hjá hv. 5. þm. Reykv. og 1. þm. N-M., að þeir vilja setja alla þingskrifara undir sama númer og telja allt ómögulegt, sem frá þeim kemur. Þessu vil ég mótmæla, því að við höfum haft hér ágæta þingskrifara, bæði hraðritara og aðra, og það má ekki sýna þeim það ranglæti að telja þá alla ómögulega, þó að hér hafi verið innan um einhverjir þeir menn, sem ekki hafa unnið sitt verk eins og vera ber. Ég vil mótmæla því, að þetta ranglæti sé sýnt, og ég segi ekki, að það sé víst, að allir hraðritarar séu góðir og allir hinir slæmir, því að þetta fer mikið eftir greind manna og því, á hve samvizkusamlegan hátt þeir vinna sitt verk.

Það er síður en svo, að ég vilji draga úr því, að þetta mál sé gaumgæfilega athugað í n., og ég skal vinna með henni eins og tækifæri gefast til. En varðandi þá reynslu, sem fengin er af því að taka þingræður upp á vélrænan hátt, þá hefur enginn forsetanna upplýsingar um það, heldur er það skrifstofa Alþingis, sem hefur látið gera það, og þar getur allshn., sem fær mál þetta til meðferðar, fengið þær upplýsingar, sem fyrir liggja í því efni.