09.01.1952
Sameinað þing: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (3462)

105. mál, eftirlitsbátur fyrir Norðurlandi

Flm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Ég flyt þessa þáltill. ásamt þremur öðrum þm., og gengur hún út á það, að ríkisstj. sé heimilað að gera út eftirlitsbát fyrir Norðurlandi fyrir haust- og vetrarmánuðina, sem jafnframt landhelgisgæzlunni annist eftirlits- og björgunarstörf fyrir fiskibáta.

Ég skal ekki fjölyrða mikið um þessa till. Það hefur verið mikið rætt um þetta mál á Norðurlandi, bæði af slysavarnardeildunum þar og ýmsum öðrum aðilum, sem áhuga hafa á málinu. Stafar það af því, að alltaf er nokkuð mikið sóttur sjór á þessum slóðum haust og fyrri hluta vetrar, og er þá stundum gott fiskirí. Þetta er mikið stundað af litlum bátum, og það segir sig sjálft, að ef eitthvað ber út af með veður, sem oft getur orðið, ekki sízt að vetri til, þá er full þörf fyrir skip, sem geti veitt þessum bátum aðstoð, ef á þarf að halda.

Slysavarnafélagið hefur athugað þetta mál, m. a. í samráði við slysavarnardeildina á Siglufirði, og er það almenn skoðun, að þarna geti verið mannslíf í hættu, ef ekki er skip, sem getur aðstoðað þá báta, sem hlekkist á, að landi. Það hefur að vísu ekki orðið neinn bátstapi á þessum vetri, en þetta er engu að síður mál, sem ekki má láta aðgerðalaust, cg má ekki dragast að setja varðbát til að annast þetta starf, sem um er að ræða.

Við, sem þessa till. flytjum, töldum, að ekki þyrfti nánari ákvörðun, en ef þessi till. yrði samþykkt, þá annaðist ríkisstj. útgerð bátsins á þann hátt, sem haganlegastur yrði og sem minnstur tilkostnaður fyrir ríkið, og yrði útgerðarkostnaður jafnan greiddur úr ríkissjóði.

Ég legg til, að þessari till. verði að lokinni umr. vísað til hv. fjvn., og vænti þess, að nefndin afgr. hana sem fyrst, svo að hún geti hlotið afgreiðslu á þessu þingi.