09.01.1952
Sameinað þing: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (3463)

105. mál, eftirlitsbátur fyrir Norðurlandi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það var leitað til dómsmrn. á síðasta hausti um fé til aukinnar gæzlu fyrir Norðurlandi til þess að koma í veg fyrir slysfarir. Ég lét þá þegar rannsaka þetta mál, og kom í ljós, að ef ekki átti að draga úr landhelgisgæzlunni annars staðar, þá var ekki hægt að verða við þessum óskum nema með því að leigja til þess nýjan bát. Ég sagði þá fulltrúa Slysavarnafélagsins og öðrum áhugamönnum á Norðurlandi; hvernig í málunum lá. Ég sagði þeim, að við hefðum ekki ráð á aukinni gæzlu, nema svo framarlega að til þess fengist aukin fjárveiting, en annars ekki. Og ég taldi rétt og í samræmi við síðar fram komna till. frá hv. þm. Snæf. um aukna gæzlu á Breiðafirði, að þeir beittu sér fyrir því, að þessarar fjárveitingar yrði aflað.

Nú hefur þetta dregizt, svo að ég geri ráð fyrir, að þó að þessar till. verði samþ. nú á þessu þingi, þá geti þær að litlu gagni komið á þessum vetri. Þetta gildir og um þá till., sem hér er síðar á dagskrá, frá hv. þm. Snæf., um aukna landhelgisgæzlu á Breiðafirði og sunnan Snæfellsness. Tel ég því eðlilegast, að þessari till. verði ásamt till. hv. þm. Snæf., sem er síðasta mál á dagskrá, vísað til hv. fjvn. og hún athugi, að hve miklu leyti hægt er að verða við þeim óskum, sem hér eru fram bornar, innan þeirra fjárveitinga, sem nú eru veittar á fjárl., og ætla ég, að það sé hægt, a. m. k. að verulegu leyti. Getur n. haft um það samráð við viðkomandi aðila, þ. e. rn. og Skipaútgerðina, ef ástæða þykir til. — En hins vegar verður að hafa í huga, að það er auðvitað út í bláinn að óska eftir, að gæzlan sé aukin, nema annaðhvort sé jafnframt séð fyrir fé til þeirrar auknu gæzlu eða þá bent á, hvar eigi að minnka gæzluna, þar sem hún hefur verið fram að þessu. Ríkisstj. getur að sjálfsögðu ekki tekið að sér að sjá um meiri gæzlu en fé er veitt til, og þess vegna verða þm., ef þeir hafa áhuga fyrir að auka gæzluna, hvort heldur er í þessum tilfellum eða öðrum, að fara þá leið fyrst og fremst að afla fjárveitingarheimildar hjá Alþ. til þeirra ráðstafana. En með tilliti til þess, sem ég hef sagt, get ég fallizt á, að málið fari til síðari umr. og fjvn.