09.01.1952
Sameinað þing: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í D-deild Alþingistíðinda. (3464)

105. mál, eftirlitsbátur fyrir Norðurlandi

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil aðeins bæta því við þær upplýsingar, sem komið hafa fram, að þegar fjárlfrv. var undirbúið; var sett í það fjárveiting til landhelgismála í samræmi við till. þá, sem stjórn landhelgismálanna gerði, þ. e. Skipaútgerðin og dómsmrn. Nam sú fjárveiting 9 millj. og 259 þús. kr. og var sú fjárhæð, sem forráðamenn þessara mála töldu að þyrfti til þess að halda úti varðskipunum að viðbættu einu leiguskipi við Faxaflóa. Var gæzlan þá fyrirhuguð þannig, að Ægir væri við Vestmannaeyjar, Sæbjörg og leiguskipið í Faxaflóa, eins og verið hefur. Óðinn við Austurland aðallega og svo Maria Júlia við Vesturland að mestu, en nýja varðskipið Þór ekki staðbundið á sérstökum slóðum, heldur færi umhverfis landið, og þá ráðgert, að gæzlan yrði miklum mun meiri en nokkru sinni fyrr, þar sem varðskipinu Þór var alveg bætt við, því að undanfarið hafði hitt verið látið nægja, án þess að sérstakt varðskip væri á hreyfingu á milli svæða. Þetta var ráðgert að kostaði 9 millj. og 259 þús., en nú hefur, eins og hæstv. dómsmrh. upplýsti, sú breyt. verið gerð við 3. umr. fjárl. að hækka þessa upphæð um 440 þús. kr., og er það gert með tilliti til þess, að hægt sé að taka að einhverju leyti tillit til þeirra óska, sem fram hafa komið um gæzlu umfram það, sem var í áætlun þeirri, sem áður lá fyrir. Mér sýnist hins vegar, að það verði að taka þessi mál í heild og að ekki sé hægt að fá neina endanlega lausn nú eða viðbótarframlag umfram það, sem bætt var við, þegar 3. umr. fjárl. fór fram.