16.01.1952
Sameinað þing: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í D-deild Alþingistíðinda. (3485)

137. mál, landhelgisgæsla á Breiðafirði og sunnan við Snæfellsnes

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Vegna þeirrar till., sem hér er til umr., svo og óska annarra hv. þm. í svipaða átt, sé ég ekki annað en nauðsynlegt sé að fá úr því skorið, hvort það er vilji Alþ. að auka nú landhelgisgæzluna enn meira frá því, sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Þegar fjvn. eftir tilmælum ríkisstj. hækkaði framlagið til landhelgisgæzlunnar nokkuð, þá var miðað við það, að eitthvert tillit yrði þá hægt að taka til fram kominna óska um þetta efni, bæði frá Norðlendingum, Snæfellingum og Árnesingum, svo og að hægt yrði að verða að verulegu leyti við óskum hæstv. sjútvmrh. um aukna gæzlu í Faxaflóa og við Reykjanes. En ef það er svo, að þessi aukning landhelgisgæzlunnar eða það að verða við óskum Norðlendinga, Snæfellinga og Árnesinga í þessu efni kostar 1.2 millj. kr., en viðbótarframlagið á fjárlögum nam aðeins rúmum 400 þús. kr., þá vantar um 800 þús. kr. til þess, að hægt verði að verða við óskum, sem fram eru komnar frá þessum þingmönnum, auk þess sem vantar þá fé til að verða við óskum frá sjútvmrh. um aukna landhelgisgæzlu á Faxaflóa og við Reykjanes. Ef það er því eindreginn vilji Alþ., að orðið verði við öllum þessum till., þá verður að líta á það, að til þess vantar enn 1–2 millj. kr. framlag til landhelgisgæzlunnar, og menn verða að horfast í augu við það, að það verður að sjá fyrir aukinni fjárveitingu til þessara hluta, ef menn ætlast til, að landhelgisgæzlan verði þannig aukin, þar sem það hefur ekki farið dult, hvað veitt er í fjárlögunum í þessu skyni. Ríkisstj. getur að sjálfsögðu ekki látið auka gæzluna nema fjárveiting til þessa sé fyrir hendi. Menn vita, að það er nógu erfitt að láta framkvæmdir standast, sem fé er veitt til fyrir fram, svo að það er auðséð, hvernig fer með framkvæmdir, sem ekkert fé er veitt til. — Ég vildi aðeins láta þetta koma í ljós hér að gefnu tilefni eða vegna þeirra óska. sem hér eru fram komnar.