16.01.1952
Sameinað þing: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í D-deild Alþingistíðinda. (3491)

137. mál, landhelgisgæsla á Breiðafirði og sunnan við Snæfellsnes

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég hef sjaldan heyrt hv. 8. landsk. vera svo hátíðlegan í máli sínu sem í síðustu ræðu sinni, og mér finnst satt að segja, að hann þurfi ekkert að vera hissa á því, þótt stjórnin hiki við að styðja að samþykkt fjárveitinga nú eftir að fjárlögin hafa verið afgreidd. Það hefur alltaf verið svo, að Alþ. hefur verið varað við að fara inn á þessa braut, og það, sem hér hefur gerzt, er ekkert annað en það, að ég hef eindregið varað við því, að farið sé inn á slíka braut, vegna þess að það er vandséð, hvar þá verður hægt að stöðva sig. Stjórnin getur vitanlega ekki lagt neitt bann við slíku, en það hefur augljóslega komið fram, að hv. fjvn. er stjórninni sammála um þetta mál, og er þá sýnilegt, að ekki mun hægt að ætlast til þess, að veitt verði meira fé í bili til landhelgisgæzlunnar. — Ég vil svo minna á það að gefnu tilefni, að það er ekki einungis, að fyrirhugað sé að hafa landhelgisgæzluna jafnmikla og á síðasta ári, heldur er ætlað að bæta við einu vönduðu skipi í gæzluflotann, auk þess sem fjárveitingin til landhelgisgæzlunnar var hækkuð um 450 þús. kr. frá því á síðasta ári. Þetta er svo mikil aukning á landhelgisgæzlunni, að slík aukning hefur aldrei komið til mála fyrr. Ég gæti trúað því, að með þessum skipakosti verði unnt að láta nýja Þór vera lausan á vetrarvertíðinni, en áður hefur ekkert skip verið laust á vetrarvertíð, og verði hann þá hafður hér við Suðvesturlandið.