08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í D-deild Alþingistíðinda. (3516)

46. mál, mæðiveikivarnir

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er ekki ofmælt, að mikinn óhug hafi sett að bændastéttinni, og raunar þjóðinni í heild, er þau tíðindi spurðust í lok september s. l., að mæðiveiki hefði orðið vart á svæðinu milli varnargirðinganna í Bitru- og Steingrímsfirði. Á þessu svæði höfðu farið fram fjárskipti árið 1947. Það sama haust hafði allt fé verið skorið þar niður. Er þetta í fyrsta skipti, sem mæðiveiki hefur komið upp að nýju á svæði, sem skipulögð fjárskipti hafa áður farið fram á. Hitt er þó e. t. v. enn þá alvarlegra, að af svæðinu milli Bitru- og Steingrímsfjarðar hefur undanfarin tvö ár verið flutt fé í fjárskiptum til annarra landshluta. Og á s. l. hausti hafði fé einnig verið selt þaðan.

Þegar litið er á það gífurlega tjón, sem sauðfjársjúkdómarnir hafa valdið allt frá árinu 1934, er hinnar svokölluðu mæðiveiki varð fyrst vart, sætir það engri furðu, þó að nú sé reynt að skyggnast um eftir nýjum leiðum í baráttunni við þá, þegar það úrræði, sem mest traust hefur verið sett á, fjárskiptin, hefur orðið fyrir alvarlegu áfalli. Samtals hefur hinn beini kostnaður ríkisins vegna sauðfjárveikivarna nú orðið 40–50 millj. kr. En þar við bætist hið gífurlega tjón, sem pestirnar hafa valdið bændum landsins.

Ég tel ekki ástæðu til þess að hefja hér umræður um ýmis herfileg mistök, sem orðið hafa í framkvæmd sauðfjárveikivarnanna. Með slíku yrði sennilega ekki miklu um þokað til umbóta. En það er gersamlega óumflýjanlegt að taka þessi mál fastari tökum en gert hefur verið, og þá hlýtur fyrst og fremst að verða byggt á sérfræðilegri þekkingu vísindamanna á sviði heilbrigðisvísindanna. Það er á grundvelli þessa álits, sem ég hef ásamt hv. 2. þm. Rang. beint þeirri fyrirspurn, sem hér liggur fyrir, til hæstv. landbrh. Við teljum, að allra ráða beri að freista til þess að fá sérfræðilega aðstoð í baráttunni við sauðfjárpestirnar. Liggur þá næst að leita hennar hjá þeim samtökum, sem hér um ræðir. Vænti ég, að hæstv. ráðh. gefi sem gleggstar upplýsingar um afstöðu sina og ráðagerðir og hæstv. ríkisstj. í þessu mikla vandamáli.