08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í D-deild Alþingistíðinda. (3518)

46. mál, mæðiveikivarnir

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir greið svör. Mér heyrðist á honum, að hann væri þeirrar skoðunar, að það væri ekki vanþörf á að leitast fyrir um möguleikana á því að fá hingað erlenda sérfræðinga til aðstoðar í þessum málum. Það var eðlilegt, að menn væru orðnir nokkuð bjartsýnir um möguleikana á útrýmingu mæðiveikinnar hér á landi. Fjárskipti höfðu farið fram á nokkrum svæðum án þess að veikin hefði komið fram aftur á þeim svæðum, þangað til í haust, að hennar varð vart í Hólmavík, þar sem farið höfðu fram fjárskipti fyrir nokkrum árum. Vonbrigði manna urðu mikil, sem vænta mátti, að leið þessi til útrýmingar veikinni skyldi bregðast. Menn fóru að hugsa sem svo: Er þá enginn möguleiki á að losna við þennan vágest? –þegar sú leið, sem vænlegust þótti til að útrýma pestinni, brást. — Og þegar svo var komið, þótti ástæða til að leita nýrra úrræða í baráttunni gegn pestinni. Það er ekki vegna þess, að við gerum litið úr okkar vísindamönnum, að við viljum nú leita eftir aðstoð erlendra sérfræðinga til að gera tilraun til að útrýma veikinni. En ég tel, að það hafi ekki verið unnið að vörnum gegn veikinni svo sem nauðsynlegt hefði verið, og fyrir því er aðeins hægt að færa fram eina afsökun, sem sé þá, að menn gerðu sér alltaf von um, að pestinni yrði útrýmt með niðurskurði. Þeir, sem skáru niður á s. l. hausti, eru nú í vafa um, hvort þeir muni fá ósýkt fé, og mér er kunnugt um það, að margir bændur lögðu í fjárskiptin með hangandi hendi.

Það má segja, að það sé ekki til neins að sakast um það sem orðið er í þessum efnum. Hitt getum við verið sammála um, að sú varfærni í þessum efnum eins og nauðsynlegt hefði verið að hafa var ekki sýnd. Það hefur t. d. ekki verið gætt nóg öryggisráðstafana á síðasta hausti, þegar það var leyft, að þeir, sem skáru niður, fengju líflömb í sömu vikunni og skorið hafði verið niður. Og þetta gerðist á Mýrunum, þar sem hraun og skógur og afréttir eru beint niður undan og þess vegna engar líkur til, að smalað hafi verið sauðlaust, áður en nýja féð kom. Þetta gefur tilefni til þess að halda, að viðar en á Hólmavík sé ástæða til að óttast um, að ekki sé um heilbrigðan stofn að ræða. — Það þýðir ekki að sakast um það, sem orðið er. Það verður eftirleiðis að taka á þessu máli fastari tökum en gert hefur verið. Það verður haldið áfram með niðurskurð það sem eftir er, í trausti þess, að það heppnist að fá heilbrigðan stofn. En það verður líka að hefjast handa um að gera tilraunir með að fá útlenda sérfræðinga til þess að vinna að því með okkar innlendu sérfræðingum að reyna að finna leið til að útrýma veikinni, ef niðurskurður skyldi ekki nægja.