08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í D-deild Alþingistíðinda. (3519)

46. mál, mæðiveikivarnir

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Af upplýsingum hæstv. landbrh. kemur fyrst og fremst tvennt í ljós. Í fyrsta lagi, að sauðfjárveikivarnan. er því hlynnt, að freistað verði að fá erlenda sérfræðinga til aðstoðar í baráttunni gegn sauðfjársjúkdómunum. Í öðru lagi það, að tilraunastöðin á Keldum lætur í ljós vantrú á árangur af slíku úrræði. Ég vildi þá leyfa mér að spyrja, þó að ég ætlist ekki til, að hæstv. ráðh. svari því: Hvað vill tilraunastöðin á Keldum þá? Hún viðurkennir, eins og allir menn hljóta að gera, að við Íslendingar stöndum uppi gersamlega ráðalausir í þessum málum. Það verðum við að viðurkenna fyrir okkur sjálfum nú, eftir að við höfum beðið þennan hnekki, að veikinnar hefur orðið á ný vart á svæði, þar sem fjárskipti höfðu farið fram, en á fjárskiptunum hafi menn helzt byggt nokkrar vonir á undanförnum árum.

Ég skal ekki ræða neitt þá vantrú tilraunastöðvarinnar á Keldum á því, að reynt verði að fá erlenda sérfræðilega aðstoð í baráttunni gegn þessum voða, sem landbúnaðinum og þjóðinni í heild stendur af sauðfjársjúkdómunum. En ég vil aðeins undirstrika það, sem ég sagði hér í minni fyrri ræðu, að ég tel sjálfsagt og að brýna nauðsyn beri til, að leitað verði sérfræðilegrar aðstoðar erlendis frá. Og sem betur fer, þá heyrðist mér á hæstv. landbrh., að hann væri þeirrar skoðunar, að sjálfsagt væri að reyna það. Ég tel ekki, að vænta þurfi þess, að skjótur árangur náist af þessu. En atvinnuvegur og þjóð, sem stendur gersamlega ráðþrota gegn sjúkdómi eins og mæðiveikinni, hefur ekki efni á eða leyfi til að freista ekki fleiri úrræða en þeirra, sem við höfum sjálfir enn yfir að ráða, þ. e. a. s., starf okkar ósérfróðu sauðfjársjúkdóman., þó að hún njóti aðstoðar innlendra sérfróðra manna. Á þetta vil ég leggja áherzlu, og ég vænti, að hæstv. landbrh., sem hefur fullan skilning á þessu máli, freisti þess a. m. k., að erlendrar sérfræðilegrar aðstoðar verði aflað í baráttunni gegn sauðfjársjúkdómunum.

Ég vil að lokum segja það, að ég fel mikla nauðsyn bera til þess, að sauðfjárveikivarnirnar á Vestfjörðum, sem hafa verið uppeldisstöð fyrir landið í þessum sauðfjárskiptum, sem gerð hafa verið, verði efldar mjög. Ég hef rökstudda ástæðu til að ætla, að girðingin milli Berufjarðar og Steingrímsfjarðar sé ekki í góðu lagi. Sú girðing er tvöföld, og mér er næst að halda, að síðan sauðfjárskiptin fóru fram á svæðinu milli þeirrar girðingar og Bitrunnar, hafi eitthvað verið linað á eftirliti við þessa girðingu. Og mér er kunnugt um, að girðingin milli Ísafjarðar og Kollafjarðar, sem er einföld, er alls ekki svo, að treysta megi henni, en fyrir vestan þá girðingu er eina svæðið á landinu, sem gersamlega er ósýkt af sauðfjársjúkdómunum. Það er þess vegna ekki smávægilegt atriði, að þessar girðingar verði hafðar eins traustar og frekast er unnt.

Á þetta vildi ég leggja áherzlu við hæstv. landbrh. Og það er ekki aðeins mál Vestfirðinga, að þessar girðingar verði sem traustastar, heldur allra bænda á landinu, sem hafa getað horft til þessa svæðis sem eina ósýkta svæðisins á landinu og gert sér vonir um að fá þaðan ósýkt fé.