29.10.1951
Neðri deild: 19. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

6. mál, togarakaup ríkisins

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fjhn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. En það, að ég stóð upp, stafar af því, að ríkisstj. er að athuga, hvort ekki þyrfti í sambandi við þetta mál að afla frekari heimilda varðandi togarakaup, og á það við gömlu togarana, en ríkisstj. var heimilað að ábyrgjast lán til þess að láta endurbæta þá. Þetta mál er í athugun nú, og munu sennilega liggja fyrir niðurstöður þeirrar athugunar nú eftir fáa daga. Ég vil því beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, hvort ekki sé rétt að fresta þessari umr. eða láta 3. umr. biða, unz ríkisstj. hefur athugað þetta og haft samband við fjhn. um málið.